Þóra Guðrún Pálsdóttir

05.08.2007 23:38

Tuttugasti og sjöundi júlí 2007.

 

Ennþá var sama góða veðrið. Ég heyrði að bóndi minn var að tala við kunningja sinn í síma. Þeir höfðu verið að dunda sér eitthvað saman nýlega heima hjá honum. Nú var komið að því að minn maður þurfti aðstoðar við. Sagði reyndar seinna er við vorum búin að sjá hve erfitt verkið reyndist í framkvæmd ,að ef hann hefði verið vel frískur, þá hefði hann gert þetta sjálfur en ekki lagt það á aðra. Þannig var að hann þurfti að skipta um blöndunartæki í eldhúsinu.og hafði þessi vinur hans einmitt unnið að pípulögnum sem iðn. Það var spurning um hvenær hann gæti komið. Hann sagðist geta komið strax. Það var nú gott og blessað. Biðin gæti nú orðið allmiklu lengri ef biðja ætti einhvern sem væri á vinnumarkaði en nú er bara rúmur mánuður þar til við eigum að afhenda húsið.

 En nú fannst mér ég ekki eiga nógu gott með kaffinu og fór að hugsa að annaðhvort yrði ég að fara í búðina eða reyna að baka pönnukökur en þar sem ég þreytist í fótum og baki við að standa lengi við eldavélina þá ákvað ég heldur að fara í búðina. Minn maður er nú alltaf hjálpsamur og spyr hvort hann megi ekki baka pönnukökurnar og hvort það vanti mjólk í þær. Ég sé að það er ábyrgðarhluti að drepa niður göfugar hugsjónir sem hann hefir fengið til að létta lífsgöngu konu sinnar, þótt hann sé ekki vanur að standa í pönnukökubakstri. Ég segi að það sé til hálfur lítir af mjólk og dugi í hálfa uppskrift. ,,Láttu mig bara hafa uppskriftina," segir hann. Ég sýni honum blaðsíðuna og brýni fyrir honum að fara nákvæmlega eftir uppskriftinni. Mér datt í hug um leið að ég væri á sama róli og Páll þegar hann var að brýna fyrir Korintumönnum, ,, Farið ekki lengra en ritað er." Mínum manni finnst oft þurfa meira salt í mat, heldur en ég er sátt við og í pönnukökum er gert ráð fyrir salti. Hann tók öllu vel.

Ég ákveð svo að fara í búðina og bæta einhverju meiru við. Við snerum okkur því næst hvort að sínu, hann að pönnukökunum og ég að fara í búðina. Ég þurfti líka að fara í efnalaug með sæng sem ég vildi þvo en gekk svo illa að koma henni inn í mína þvottavél. Ég vil auðvitað ekki flytja inn í nýja íbúð eitthvað sem kynni að vera svitalykt úr. Fór svo að versla á eftir. Þetta tók allt töluverðan tíma hjá mér því ég var ekkert að flýta mér fyrst ég var ein. Heima fyrir gekk allt vel. Pönnukökur hlóðust upp óaðfinnanlegar að allri gerð. Svo var bakstrinum senn lokið og hægt að fara að slaka á. Sú seinasta var á pönnunni lítil og vesöl sem oft vill verða með þá seinustu, aðeins eftir að snúa henni. Vinurinn sem ætlaði að hjálpa til með blöndunartækin birtist. Ef til vill hafa þeir strax farið að ræða um það verk sem fyrir lá og þar með gleymdist að ljúka hinu fyrra verkinu með fullum sóma. Allt þar til brunalykt og reykjarmökkur fyllti eldhús gang og stofu og áminnti þannig bakarann um að kominn væri tími til að snúa seinustu pönnukökunni.sem var á leiðinni að verða að ösku.

Í þessum svifum ber mig að garði og birti nú ekki fyrir augum. Spurningin gerðist áleitin Hvort húsgögnin yrðu gegnsósa af óviðeigandi lykt. Það sagði nú lítið þótt gluggar væru opnir. Ég varð að opna dyrnar út í garðinn og einnig aðaldyrnar sem vita að götunni til að fá gegnumtrekk og reykræsta. Bílastraumurinn var á þessum tíma nærri óslitinn eftir Hringbrautinni og golan feykti útblæstri þeirra upp að dyrunum hjá okkur eins og öðrum sem bjuggu sömu megin götunnar. Spyrja mátti hvor stybban væri óhollari. Okkur fannst óskiljanlegt að brunaboðinn á ganginum skyldi ekki fara í gang. Til að fullvissa sig um að rafhlöðurnar væru ekki útgengnar bar minn maður logandi eldspítu að honum og þá hvein í kauða þegar hann kenndi elds á eigin skinni, vælið var í meira lagi óþægilegt.

Af því að gola var úti gekk reykræstingin mun hraðar fyrir sig og að lítilli stundu liðinni gátu allir sest að kaffidrykkju og pönnukökurnar voru svo vel heppnaðar að þær áunnu sér vinsældir fram yfir annað kaffibrauð á borðinu svo að allar mættu þær sínu endadægri. Þær báru því vitni að engu var ofaukið í þeim.

Svo hófst nú viðgerðarstarfið. Pípulagningamaðurinn tróð sér inn í skápinn sem ekki var stærri en svo að efri hluti mannsins fyllti út í hann og í þessari óhagstæðu stellingu hóf hann með erfiðismunum að losa rærnar sem héldu blöndunartækjunum á vaskinum, neðan frá. Að lokum hafðist það en tækin sátu samt föst. Minn maður taldi að sjálfsagt hefði cilicon verið sett undir þau. Það fannst á manninum að slíku hefði nú gjarnan mátt sleppa. Mér skildist á honum að smiðir vildu hafa allt svo vandað að til vandræða leiddi en það væri algjör óþarfi. Minn mann setti hljóðan undir þessari ályktun. Hann tilheyrir þeirri stétt sem um var rætt og verkið var hans.

Allt um það losnuðu nú tækin allt í einu. Fljótlega eftir þetta vildi Ásgrímur fresta frekari framkvæmdum og maðurinn fengi hvíld frá erfiði sínu til næsta dags. Það tók á okkur bæði að sjá hve erfitt þetta verk var fyrir aldraðan mann við þessar aðstæður, þótt hann vildi sjálfur ekkert úr því gera. Hann var þessu samþykkur og sagðist mundi koma daginn eftir, sem hann og gerði, til að ljúka verkinu. Guð var okkur miskunnsamur og gaf að maðurinn hlaut ekki skaða af þessu erfiða verki



Flettingar í dag: 254
Gestir í dag: 133
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123432
Samtals gestir: 24545
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:33:20

Eldra efni

Tenglar