Þóra Guðrún Pálsdóttir

14.06.2007 13:57

Sól skeiní heiði

Sólin skein í heiði



Það var fallegur og sólríkur dagur í dag 12 júní 2007. Engin ský sem skyggðu á hinn fjarlæga fjallahring. Það er nú að vísu ekki heill hringur en í svona skyggni er bara unaðslegt að virða hann fyrir sér. Hann blasti svo vel við er við vorum að koma niður brekkuna á leiðinni frá Húsasmiðjunni. Konan sem er flutt á efri hæðina var að gróðursetja blóm á sinni lóð upp við húsið. Svona er það að fólk getur örvað nágranna sinn til dáða án þess að segja orð, bara með því að ganga vel um umhverfi sitt. Það minnti mig á að bóndi minn hefur verið vanur að setja niður sumarblóm í dálítið beð við suðurvegg hússins. Nú hefir hann ekki orðað það, líklega af því að við erum orðin leigjendur og eigum að fara 1 sept.

Mér fannst nú samt skemmtilegra að halda góðri venju og njóta þess í nokkrar vikur að horfa á blómin og svo hitt að eigandinn kæmi ekki að sviðinni jörð, eins og þegar flýjandi þjóðir hafa skilið við hýbýli sín í stríði, þegar hann tæki við húsinu 1 september. Mér fannst líka þurfa að kaupa nýjan barka við sturtuhausinn á baðinu, þótt ekki hefði verið farið fram á það. Smávægilegir hlutir hafa oft svo mikið að segja svona eins og þegar mynd hangir skökk á veggnum. Það fer ekki langur tími í að laga hana en það gerir mikinn mun. Maðurinn minn varð öllu samþykkur sem til bóta mátti teljast og hefur kannski verið búinn að hugsa það sama sjálfur.

Bara að drífa sig í það strax. Það er hans háttur að vera fljótur að koma sér að verki.

Það tekur okkur ekki langan tíma að bruna upp í Blómaval í Húsasmiðju og förum að leita að stjúpum. Ég fór nú strax að athuga hvaða litir færu vel saman í beði og vil ekkert flýta mér og kaupa eitthvað í flaustri sem ég verði strax óánægð með er heim kemur. Þetta reynir á þolinmæði húsbóndans. Hann er sennilega langt kominn í huganum við að gróðursetja. Afgreiðslukonan tekur eftir þessu þótt hann segði ekki mikið og segir, ,,Hann má ekkert vera að þessu, það er stundum betra að skilja þá eftir heima." Ég skildi fljótt að hún var að tala þetta heilræði til mín þótt of seint væri, til þess að því yrði viðkomið í þetta skipti. Góð ráð er gott að geyma til seinni tíma.

Í Orðskviðunum 15 kafla og 7 versi stendur ,,Varir hinna vitru dreifa út þekkingu."

Flettingar í dag: 313
Gestir í dag: 153
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123491
Samtals gestir: 24565
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:45:49

Eldra efni

Tenglar