Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
10.11.2006 23:02Ágæt uppfinningEigðu mig, eigðu mig. Þegar ég var ung heyrði ég orðtak sem hljómar svona: ,,Hann þarf nú meira með, hann búskapur en að segja, eigðu mig, eigðu mig". Eins er það, þegar maður hefir eignast kött, þá er að mörgu að hyggja. Ég vissi svo sem alveg í hverju ég gæti lent því ég er nú ekki fædd í gær og hefi fyrr lent í ýmsu í sambandi við ketti og kattaeigendur. Fyrir mörgum árum vann ég með konu sem mér féll mætavel við. Hún átti frjósama læðu og þurfti því að reyna að troða kettlingunum inn á einhverja sakleysingja sem ekki áttu kött fyrir. Ég var nú lengi treg til , því að þótt ég hafi alltaf verið hrifin af köttum, þá var ég búin að reyna að það er hægt að fá meira en nóg af þeim, sérstaklega af læðum. Ég sagði konunni að ég vildi alls ekki læðu. Hitt væri frekar möguleiki með fress sem hún greip þá eins og gefinn hlut. Dag nokkurn birtist hún svo með skenkinn og afhendi mér hann með miklum asa. Að mér læddist illur grunur en kunni ekki við að auglýsa tortryggni mína opinberlega með því að skoða undir kvikindið. Það er nú viðkunnanlegra að hafa einhverjar sannanir í höndunum áður en farið er að sýna fólki opinberlega að efast sé um heiðarleika þess. Konan mátti ekkert vera að því að koma inn og stoppa og var horfin eins og snæljós. Þá fékk ég nú tækifæri að prófa getspeki mína og hvað kom ekki á daginn ? Læða var það. Ég gat séð fram á, að á stuttum tíma gæti ég komið mér upp heilli hjörð af köttum án þess að þurfa að borga nokkurn fressatoll. Fjórir ?fimm fresskettir mundu hefja umsátur um húsið mitt á hverju gangmáli læðunnar og þar ofan í kaupið sprauta miður vel þefjandi ilmefni á útihurðina og þröskuld húss míns, já og ef til vill kjallaragluggana líka. Ég kvartaði auðvitað yfir þessum prettum við konuna en hún taldi þetta nú ekki mikið mál. Bara að gefa henni pilluna. Ég fékk uppgefið hvenær slíkt ætti að hefjast, en mín læða varð nú svo bráðþroska að hún náði að verða kettlingafull áður sá tími kæmi, sem mér var uppgefinn. Jæja, nú var ég aftur komin með læðu, búin að láta skrá hana, örmerkja og ormahreinsa. Nú þurfti að fara að huga að getnaðarvörn, annað hvort með uppskurði eða töflum. Við völdum nú töflurnar og maðurinn minn fékk upplýsingar hjá dýralækni um hvernig ætti að haga sér við það að koma pillu ofan í kisu. Hann hélt á henni og lét hana gapa og ég lét töfluna detta niður í ginið hálfhrædd um puttana á mér því hún er vel tennt. Þetta fór vel í fyrsta sinn en ekki jafnvel í næsta skipti. Þá var hún víst búin að gera sér grein fyrir að þetta héti ofbeldi, sem verið væri að beita hana og hugsaði sér að láta hart mæta hörðu. Hún hafði yfir að ráða fimm flugbeittum klóm á hverri löpp og sá sem hagaði sér svona við hana, skyldi nú aldeilis komast að því fullkeyptu. Við þessa árás varð haldaranum svo bilt að hann sleppti takinu og um leið stökk Uppáþrengja frjáls úr fyrri skorðum og skyrpti töflunni langt fram á gólf. ,,Mörg er búmannsraunin" eins og þar stendur. Framtíðin var skýlu hjúpuð hjá okkur og ekki augljóst hvað til bjargar yrði með að koma lyfinu ofan í köttinn í framtíðinni En eitthvað þeim til líknar leggst sem ljúfur Guð vill bjarga. Nú datt húsbóndanum harðfiskurinn í hug. Hann hefir vanið hana á að gefa henni smáharðfiskbita á kvöldin eins og sumir fá konfektmola. Hún er vitlaus í harðfisk. Hann sker nú lítinn bita af harðfiski niður og gefur henni og svo vefur hann öðrum bita utan um töfluna og þetta heppnaðist átakalaust og rann ljúflega niður. Hefur síðan heppnast fram að þessu. Stundum hefir taflan viljað bítast sundur og detta úr umbúðunum en þolinmæði þrautir vinnur allar. Svona mannlega séð á húsbóndinn allan heiður af þessu framtaki og uppfinningu, sem hefur orðið enn einfaldari í framkvæmd með því að nota heldur nýjan fisk hráan til að setja töfluna í. Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 224 Gestir í dag: 120 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123402 Samtals gestir: 24532 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:27:23 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is