Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
02.11.2006 16:53Sunnudagur 22/10.Skroppið til höfuðstaðarins 22/10 Kunningi okkar, sem við höfðum smávegis kynnst, meðan hann bjó hér í Keflavík, hafði hringt og boðið okkur í afmælisveislu sonar síns sem var að verða fjögurra ára. Við vorum búin að vera á sunnudagssamkomu kl.11 um morguninn, sem tekur allt að tveimur tímum með eftirspjalli í loftstofunni. Þegar heim kom fórum við að hita matinn og borða. Við höfum alltaf þennan gamla sið að borða heita máltíð um hádegi. Það er auðvitað engin nauðsýn, en af því ég er svo löt finnst gott að ljúka þeirri máltíð af, sem meiri tíma tekur og eiga hina léttari eftir seinnipartinn. Mér finnst það mikil fyrirmyndarregla sem maður les um í Gamla testamentinu að gyðingar áttu að elda og baka daginn áður, það sem með þyrfti til að eta á hvíldardeginum. Þannig gátu meira að segja skepnurnar fengið hvíld. (Mós.20: 10) Þrælarnir og ambátirnar einnig ásamt hinum, ef ekki voru skepnur að detta í gryfjur sem draga þurfti þær uppúr, samanber Matt. 12:11. Sjálfsagt hefði ég getað verið búinn að koma þessari reglu á hjá mér fyrir 50 árum, að elda fyrir tvo daga í einu og græða mikla hvíld á góðu skipulagi. Páll postuli lagði mikið upp úr góðu skipulagi eins og líklega flestir sem koma miklu í verk. Í Kólossubréfi öðrum kafla, segist hann í anda horfa með fögnuði á gott skipulag hjá þeim. (Útgáfan 1946.) Það getur komið að gagni í eldhúsunum líka. Annars er nú ekki sambærilegt að snúa rofa á rafmagnseldavél eða fara út á mörkina að tína saman viðarkvisti eða grámosa eins og ég man eftir, til þess að kveikja eldinn við. Nú eftir að við höfðum lokið máltíð þennan áminnsta sunnudag og lagt okkur smástund á eftir þá vorum við það hress að við ákváðum að fara í afmælið. Það varð að samkomulagi að ég æki inn að álverinu. Þar er stórt stæði og gott að skipta. Mér finnst ágætt að láta aka mér en það má ekki verða að fastri reglu þá færi mér að finnast erfitt að byrja aftur, þótt ég aki alltaf eitthvað í hverri viku að Bónus eða Kaskó. Það er samt öðruvísi að aka innanbæjar á 50, heldur en á 90 á vegum úti. Ákvörðunarstaður okkar var í Breiðholtinu svo mér fannst auðvitað miklu öruggara að hann æki þangað til að finna staðinn, því hann hefur svo miklu betra sjónminni og hafði farið þetta einhvern tíman áður. Líka lesið sér til á kortinu á leiðinni til Hafnarfjarðar. Allt gekk líka að óskum að finna staðinn. Þar voru nokkrir samankomnir á ýmsum aldri af þremur þjóðernum, svo langt sem ég vissi, meðal annars ein fjölskylda sem við þekktum. Eftir kaffidrykkju og eðlilegan stans kvöddum við og héldum heimleiðis. Það var yndislegt veður og því má bæta við, að þótt leiðin suður með sjó bjóði ekki upp á stórfenglega náttúrusýn, aðeins hraunið svart og grett, næst manni, þá er himininn oft ákaflega fallegur með allskonar yndislegum skýjabólsltrum og rauðu sólsetri við hafsbrún. Það er eins og segir í 19 sálminum í Biblíunni: ,, Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagurinn kennir öðrum, Hver nóttin boðar annarri speki. Engin ræða engin orð, ekki heyrist raust þeirra. Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald. Hann er sem brúðgumi er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt. Við takmörk himinsins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 233 Gestir í dag: 124 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123411 Samtals gestir: 24536 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:49:25 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is