Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
02.09.2006 20:24Á kattaveiðum Laugardaginn 19 ágúst 2006 hringdi til okkar frá útlöndum, kona sem við þekkjum. Biður hún strax um samband við manninn minn og kveður mikið við liggja, neyðar tilfelli. Biður hún hann að fara í nágrannasveitarfélag og sækja þangað þrjá ketti sem hún hafði skilið eftir í íbúð, sem hún var búin að leigja. Litlu síðar hringdi væntanlegur leigjandi sem ekki gat sætt sig við þessa ferfættu meðleigjendur sem alls ekki höfðu neinn samning upp á vasann . Vildi hún ekki inn í húsið fara fyrr en þeir væru á brottu, enda hefði sonur sinn ofnæmi fyrir köttum, minnir mig hún segja. Spurði hún hvort við ætluðum að taka kettina. Það var nú ekki hugsjónin, svara ég, en við ætlum samt að gera það. Okkur fannst ekki annað hægt undir þessum kringumstæðum enda ekki beðin að taka þá nema yfir helgina. Mér var kunnugt um að eigandinn var búin að ganga frá manni til manns, einnig til okkar og biðja fólk um að taka kettina hátt í ársfóstur, meðan hún dveldi erlendis. Enginn reyndist tilbúinn að bæta þrem einstaklingum við fjölskyldu sína. Mér fannst ég ekkert gólfpláss hafa á okkar litlu snyrtingu fyrir kattaklósett, og langaði ekki heldur í þessháttar mublu í eldhúsið, stofuna eða svefnherbergi. Líka þóttist ég sjá að við hjónin gætum aldrei farið í nokkra daga ferðalag saman og skilið ketti eina eftir í íbúðinni. Ekki langaði mig að ganga fyrir hvers manns dyr og leggja það á aðra að sjá um þá. Þá vildi ég nú heldur vera heima og ekki íþyngja öðrum. Ég var búin að vera heima hjá mínum börnum meðan þau voru lítil og líka verið heima hjá mínum gamalmennum meðan þau þurftu með. Mamma mín varð nú meira en 100 ára og mér þykir vænt um að hún gat verið allt til enda heima hjá mér og sé alls ekki eftir að hafa gert skyldu mína gagnvart mínu fólki. En þessir kettir fundust mér alls ekki tilheyra mínum nánustu. Þeir gátu ómögulega rakið ættir sínar til mín eða minna ættmenna. Að vísu segir í Biblíunni: "Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær."(Matt. 5. 41. Það á e.t.v. að útleggja þannig í mínu tilfelli, að ef einhver bæði mig að geyma þrjá ketti í nýju mánuði eða meira, þá eigi ég að vera fús að taka sex ketti í 18 mánuði minnst, ef maður á að vera fús að gera tvöfalt meira en fólk biður um. Það er hægt að komast í vandræði út af fleiru en sínum eigin eigum eins og ríki unglingurinn komst, sem oft hefur verið predikað út af. Ég var þarna komin í vandræði, ekki útaf mínum eigum heldur annarra sem þó eru einskis virði. Ég held enginn selji íslenska ketti. Það væri fróðlegt að vita hvað þeir sem fremstir standa í Biblíufræðslu á landi hér, vildu ráðleggja í mínum kringumstæðum eða hvað þeir sjálfir mundu gera. Þeir færu varla í langar predikunarferðir, ef þeir ættu enga konu, nema þá með því að grípa einhvern af götunni og kúga hann til að hugsa um kettina á meðan. Það segir líka í Biblíunni: Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni."Hebr,12.9." Maðurinn minn er ákaflega hjálpsamur maður og vill hvers manns vandræði leysa. Hann er bara fæddur svona. Hann hafði nú samt látið mig ráða í þessu kattafóstursmáli enda sjálfur lítt hrifinn af köttum. Hundur og hestur voru hans draumadýr. Ég var búin harðneita. Þá lenti hann í þrýstingnum en lét mín ákvörðun standa. Okkur fannst þó sjálfsagt í þessum kringumstæðum að losa leigjandann við kettina. Brunuðum við svo af stað og nýi leigjandinn beið okkar með lykil til að komast inn og segir okkur að hægt sé að ná elsta kettinum en vissi ekki hvort hinir væru úti eða inni í veggjunum. Svo var hún horfin á braut. Nú er frá því að segja að þessi hús, sem eru byggð fyrir eldra fólk, eru með smá opum undir skápum í herbergjunum, nógu stórum til að kettirnir geta smeygt sér inn um þau og horfið inn í veggina eða sökkulinn. Þar líður þeim vel enda algerlega öruggir fyrir allri áreitni. Það mætti halda að húsin væru teiknuð af sérlegum dýravini. í því skyni að dýrin gæt flúið af vettvangi ef einhver færi að hrella þau eða toga í rófuna á þeim eins og börnum hættir stundum til. Mér finnst hann hefði mátt hugsa jafnmikið um fólkið og teikna baðker í húsin. Ef ég er að verða lasin, þá finnst mér stundum ég læknast við að fara í heitt bað. Ég legg ekki sturtuna að jöfnu, þótt hún sé kannski hentugri fyrir það fólk sem á að aðstoða gamla fólkið við böðun, þegar það er orðið ófært um slíkt. Húsin eru nú samt til kaupleigu fyrir fólk um fimmtugt. Það er fæst komið í kör á þeim aldri. Til hvers væru menn annars að leggja í kostnað við að útbúa heita potta við húsin hjá sér ef sturta kæmi að sömu notum? Við vorum nú komin til að sækja kettina og sáum aðeins tvo. Bónda mínum tekst að handsama eldri köttinn og heldur þá víst að hálfur sigur sé unninn því þannig var það í hetjusögum fornaldar ef foringinn var ofurliði borinn þá brast flótti í liðið sem eftir var og ekki annað eftir en að reka það út úr landinu. Hann hefur annars lítið haft af köttum að segja um dagana ef frá eru talin bernskusumur hans í sveit. Þar fékk hann heldur leiðinlega mynd af þeim. Þeir voru illa að sér í mannasiðum, stukku upp á borð á matmálstímum og löptu úr mjólkurkönnum áður en búið var að segja: "Gjörið svo vel." Hann labbar nú með köttinn undir hendinni og stingur honum inn í bílinn en varar sig ekki á hinum eldsnöggu viðbrögðum sem Skaparinn hefir gefið þessum skepnum svo að kettinum tekst að skjótast út áður en hurðin skellur að stöfum. Ég hugsa með mér að ég hljóti að geta náð aftur gæfum heimilisketti og labba é eftir henni. En hún passaði sig og að lokum sá hún bíl sem hún gat skriðið undir og notað sem öruggt vígi. Ég mátti hætta við í það sinn. Svo fórum við heim. Næst tókum við mann með okkur því það var líka fl. Sem þurfti athugunar við í húsinu. Hann reyndi að koma sér vel við köttinn þann eina gæfa sem ekki flúði inn í veggina og reyndi að strjúka kettinum og vingast við hann. Allt í einu vaknar einhver tortryggni hjá kisu og hún umhverfist í reitt dýr sem klórar til blóðs. Heimiliskött sem hagar sér svona, verð ég bara dauðhrædd við. Á mánudeginum þurfti ég að fara inn í Reykjavík á bílnum. Þá fær minn maður vin sinn með sér og þeir fá lánaða gildru hjá dýralækni. Þessum vini hans tekst að handsama tvo og það var auðvitað stór sigur. Eigandinn var búinn, loksins að gefa leyfi til að þeir yrðu svæfðir. Hún var búin að sjá að miskunnsemi mannshjartans yrði ekki vakin og vissulega hafði hún engan stað vísan eftir helgina handa þeim. Þriðji kötturinn var svo var um sig að hann lét aldrei sjá sig. Enginn vissi hvort hann var úti á vergangi eða í veggjunum. Það var prófað þegar hinir voru úr sögunni, með því að loka gluggunum og vita hvort maturinn minkaði í skálinni yfir nótt. Það reyndist svo, að hann væri innanhúss. Hann fyrirleit alveg gildruna frá dýralækni. Nú fór hann að sjást endrum og sinnum ef komið var óvænt. Þá var sú gráa snögg að skella sér í vegginn eða sökkulinn. Nú fór minn maður að smíða utan um gildruna, þannig að hún kæmist ekki út úr fylgsni sínu öðruvísi en að fara í gegnum gildruna. Hún sá nú við þeim hrekk og sat bara kyrr í holu sinni og svalt heilu hungri. Dagar liðu hver af öðrum með sífeldum ferðum fram og til baka að vitja um gildruna. Eftir viku var minn maður orðinn svo svekktur að hann fékk sér til fulltingis vin sinn, útlærðan húsasmið. Maður sá er mikill greiðamaður, næstum eins og minn maður sjálfur. Hann brást vel við, sagði mér seinna að hann hefði kennt í brjósti um köttinn. Mér er nær að halda að hann hafði líka kennt í brjósti um vin sinn, mann á nýræðisaldri að þurfa að standa í þessu. Hann tók nú til að gera húsrof, skrúfa sundur vegginn eða skápinn eða hvað hann gerði. Það tókst svo vel að hægt reyndist að ná kettinum, sem reyndi hvorki að bíta eða klóra. Hafði bara verið svona voðalega var um sig. Eftir alla þessa hetjulegu baráttu fyrir lífinu er kötturinn búinn að vinna samúð mannsins míns og ég heyri að honum finnst leiðinlegt að lóga honum. Ég sé nú að atburðirnir eru að snúast í höndum mér. Hann er farinn að hringja í staði sem mér finnst ekki koma til greina og biðja um fóstur heimili. Ég segi þá að ég skuli fóstra köttinn ef ég fái hann til eignar. Það er borið undir fyrri eiganda og hún samþykkir það ef hún fái að sjá hann, svona rétt eins og þegar um mannabarn er að ræða. Ég geri nú ekki ráð fyrir að verða neitt harðbrjósta í þeim efnum ef kötturinn verður lifandi þegar alvöru mamman kemur heim. Kisan verður hér minnsta kosti einn mánuð en, nema hún brjóti stórlega af sér hvað hreinlæti varðar. Hún er nú búin að brjóta einu sinni. Það kann að hafa stafað af tungumálaerfiðleikum, hún hafi hreinlega ekki skilið til hvers væri ætlast af henni. Ég hafði náð í allstóran pappakassa og skorið ofan af honum. Þá braut ég saman stærðar íslenskt ullarteppi og lét í botninn. Ég læt svo kassann við hlið sandkassans og ætlast til að hún sofi þarna. Húsbóndinn reynir að gera henni skiljanlegt að þetta sé hennar rúm. Hann vill ekki hafa hana í okkar herbergi, segir hún sé með umgang á næturnar. Það truflar mig ekki. Ég held þessi fælni hans sé einhver arfur frá bernskudögum þegar hann kynntist köttunum norður í Fljótum. Kisa lætur sér ekki skiljast þetta með kassann, hefir e.t.v. aldrei sofið í kassa. Helst virðist henni hugkvæmast að þetta sé klósett úr því það er við hliðina á sandkassanum og að hún eigi að hafa hægðir til baksins í sandkassann en til kviðarins í ullarteppið. Teppið fór strax í þvottavélina og síðan þurrkað í stífri golu yfir nótt. Ég er búin að ganga frá teppinu upp í skáp og taka kassann burt. Við sjáum hvernig framvindan verður. Eiginlega eru þau að verða bestu vinir Uppáþrengja og fósturpabbinn. Ég hissa á þessu. Hann hefir gaman af að strjúka henni og hún gengur á milli okkar og nýr sér upp við okkur til skiptis og malar og malar. Ég minni hann á að hann hafi nú ekki verið hrifinn af köttum. Hann játar því, en segist eiginlega ekkert hafa þekkt þá. Eftir mánuð þarf að greiða skráningargjald af kisu 15.000 fimmtán þúsund og ef hún verður tekin úr sambandi og merkt, þá bætast við 12000. Þá trúi ég að hún eigi eftir að fá ormahreinsun líka en veit ekki hvað það kostar. Mér finnst við nú ekki vön að eyða svona miklum peningum í óþarfa svo ég hugsa að við endurskoðum lífsleyfi hennar Uppáþrengju okkar, áður en fresturinn til að skrá hana rennur út. Ég held að allir sem eru beðnir að taka dýr í geymslu en vilja ekki brjóta landslög, ættu fyrst að kynna sér lögin sjálfir til að eiga ekki á hættu að verða lögbrjótar. Lögin um kattahald eru trúi ég mismunandi eftir byggðarlögum. Hér á Suðurnesjum samanstendur samþykktin af 13 greinum. Allir ættu að hlýða landslögum svo lengi sem þau ganga ekki gegn Guðs lögum. Það er alltof mikið virðingarleysi fyrir lögum þessa lands í dag.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 267 Gestir í dag: 140 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123445 Samtals gestir: 24552 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:54:54 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is