Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
03.05.2006 21:02Ferð um fornan hrepp Dóttursonur Ásgríms og kona hans sem eru búsett í Þorlákshöfn höfðu boðið okkur til veislu er halda skyldi í tilefni þess að ferma átti son þeirra, þann 14 apríl. Veislan skyldi haldin kl.sex að kvöldi. Faðirinn talaði við afa sinn í símanum og tilkynnti boðið. Jafnframt lýsti hann leiðinni er til veislustaðarins lægi. Ég stakk upp á að við færum um Grindavík austur og þá leiðina með ströndinni því ég hafði ekki farið þá leið alla áður. Innra með mér fannst mér einhver sérstök þörf að biðja Guð um farsæla ferð. Við fórum af stað klukkan hálf þrjú í góðu gluggaveðri eins og farið er að segja nú, þegar er heldur kalt en sólin skín og heiður himinn. Heldur er nú leiðin landkostasnauð ef litið er bara á gróðurfarið til Grindavíkur og áfram. Við ökum nú samt framhjá gullkistu Grindvíkinga þar sem Svartsengi er, rétt áður en við komum í Grindavík. Mér fannst nú leiðinlegt hvað ég vissi lítið um þetta landssvæði og varð það til þess að ég sótti mér fróðleik, er við vorum aftur komin heim, í bók sem heitir Saga Grindavíkur eftir Jón Þ, Þór. Þegar ég fór að lesa komst ég að því, að bókin var alls ekki leiðinleg eins og ég hélt sumar byggðasögur vera. Hún var bara skemmtileg, þótt ég hefði haft meira gagn af henni ef ég hefði þekkt betur þau kennileiti sem vitnað er til. "Grindavíkurhreppur er sagður einna víðlendastur allra hreppa í Gullbringusýslu og meiri hluti hans fjalllendi. Það sem mér fannst fróðlegt að lesa var, að Grindavík var um aldir ein af sterkustu stoðum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju sem þar var stunduð." Hvernig mátti það verða að Grindavík gæti skipt svo miklu máli fyrir svo fjarlægan stað eins og Skálholtstól? Jú það voru hin fengsælu fiskimið. Grindavík lá að sjó, var útgerðarstaður og stóllinn gerði út skip frá Grindavík. Það er líka sagt að hann komst yfir jarðir þar á staðnum og þar með hlunnindi sem þeim fylgdu. Á bls. 175 segir svo um Hraun, að rekavon væri í betra lagi Dómkirkjan í Skálholti ætti helming alls viðreka og Viðeyjarklaustri væri eignaður helmingur af öllum trjám er væru 6 álnir og stærri. Svo var og um söl og fjörugrös fleiri ásamt hvalreka, að það var allt til hlunninda talið á sjávarjörðum. Þá fannst mér fróðlegt að lesa um eldgosahrinuna á Reykjanesi sem hófst þrem öldum eftir landnám. Þá runnu ekki færri en sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Ekki að undra að útlitið sé eins og það er á leiðinni austur frá Grindavík. Helst er það Grámosinn sem hugsar með sér, ?Heyrið þið mig, hér er nú aldeilis gott undir bú." Þetta er sannarlega ein hinna virðingarverðustu jurta sem Guð hefir skapað, fyrir hvað hugrökk hún er að hefja nýtt landnám á beru og brunnu eldhrauninu. Þessi leið sem við förum er ekki malbikuð en er nú bara sæmileg. Þegar nálgast Krýsuvík fer ég að horfa eftir einhverri vík en það er enga vík að sjá. Við virðumst vera langt frá sjó. Loks nálgumst við Krýsuvíkurkirkju og brunum framhjá vegskilti til hægri, sem á stóð Krýsuvíkur- og eitthvað meira en sá ekki hvað það var og hélt það væri ef til vill vegur. Þegar ég hefi orð á þessu telur bóndi minn að það muni hafa verið vegur sem við hefðum átt að fara. En þar sem við erum að nálgast kirkjuna og hjá henni er hópur fólks þá sting ég upp á að við spyrjum þau til vegar og tekur hann vel í það, sem ég verð fegin. Mér hefir fundist maðurinn, sem er ákaflega ratvís að eðlisfari, hafi hann áður um veg farið og kannski þess vegna, stundum lítið fyrir að spyrja gest og gangandi um stefnur og staðhætti en ef til vill treyst á sína náttúrugáfu. Við stormum svo inn í kirkjuna því þetta var ekki messa, sem fólkið var að sækja og hann spyr mann einn úr hópnum til vegar sem vísar honum veginn og minn maður spyr hvort við eigum ekki að fara til baka sem hinn játar en ég þóttist skilja seinna að hann hefði álitið okkur koma úr hinni áttinni. Við ókum svo til baka og lásum á vegskiltið sem ég gat um áður að við hefðum farið hjá. Nú kom í ljós að það stóð ekki Krýsuvíkurvegur á skiltinu heldur, að mig minnir, Krýsuvíkurstapar eða því líkt. Nú verðum við aftur ráðvillt en sjáum í því, að bíll kemur á móti okkur. Spyrjum þennan segi ég og hann hefir líklega hugsað hið sama opnaði bílrúðuna og spyr manninn um leiðina. Hann segir að við skulum snúa við og aka lítið eitt lengra en kirkjan er og kæmum þá á rétta leið. Þetta gekk allt eftir. Ókum við nú áfram í þessu yndislega bjarta veðri og framhjá Herdísarvík. Þar hafði ég komið áður fyrir allmörgum árum. Svo kemur að því að við ökum framhjá Hlíðardalsskóla en þar höfðum við dvalið á Alfahelgi fyrir stuttu síðan ásamt fleirum og liðið ágæta vel. Þaðan er ekki löng leið niður í Þorlákshöfn. Þar höfðum við ákveðið að heimsækja hjón er við höfðum fyrr hitt, er við höfðum áður í Þorlákshöfn komið. Konuna hafði ég þekkt fyrir mörgum áratugum er við áttum báðar heima sem börn austur í Hornafirði. Á leiðinni að húsi þeirra ókum við framhjá skála sem Ásgrímur vildi meina að veisluna ætti að halda í um kvöldið. Dóttursonur hans hafði verið að leiðbeina honum í síma, um leiðina kvöldið áður og verið að tala um einhvern skála sem veislan átti að vera í. Við fengum hinar bestu viðtökur hjá hjónunum sem við ætluðum að heilsa uppá áður en að veislunni kæmi. Þegar klukkuna vantaði kort í sex vil ég nú gjarnan fara að leita uppi þennan blessaða skála en hjónin sem við vorum hjá álitu að ekki mundu þar fara fram nokkrar meiriháttar veislur, hringdu meira að sega að okkur áheyrandi þangað og fengu að vita að ekkert slíkt væri þar í bígerð. Hjónin álitu að í húsi nokkru ekki svo langt frá skálanum gæti einmitt verið um veisluhöld að ræða. Vorum við þá ákveðin að leita það hús uppi sem tókst vafningalítið. Þegar við sáum fjölda bíla í kring um húsið leið mér betur og áleit að allt mundi fara á besta veg. Er inn var komið reyndist þar fjöldi fólks samankominn en okkur bar ekkert kunnuglegt andlit fyrir augu. Ásgrímur tók þar mann nokkurn tali til að komast til botns í þessu fyrirbæri. Sem betur fór var þetta skýr maður og vissi allt það markverða í sínum heimabæ sem okkur reið á að vita. Hann sagði að sú veisla er við leituðum að væri haldin austur á Eyrarbakka. Þetta kom sannarlega flatt uppá okkur. Mér fannst þetta ekki líta nógu vel út ef við kæmum allt of seint miðað við boðskortið. Illa viðeigandi ef fólkið yrði langt komið að borða er við kæmum en mér fannst á bóndanum hann ekki vera eins uppnæmur, við yrðum nú ekki svo lengi að renna þetta. Þetta fór betur en áhorfðist. Fjöldi fólks var mættur og nú sáum við kunnug andlit. Við náðum aðeins að setjast áður en borðhaldið hófst. Það var allt ríkulegt og engin leið að bragða á öllum réttum. Eyrarbakki var yndislegur staður í kvöldsólinni. Ef ég væri yngri held ég að ég gæti hugsað mér að eiga þar heima. Heimferðin um malarveg, í mánaskini og stjarna, laus við alla götulýsingu gekk vel og við gátum þakkað Guði fyrir farsæl ferðalok. Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 254 Gestir í dag: 133 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123432 Samtals gestir: 24545 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:33:20 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is