Þóra Guðrún Pálsdóttir

09.04.2006 00:38

Ryk

Ryk Ég rakst á skrítlu í bók. Þar var barn að spyrja mömmu sína. Mamma, hvað verður eiginlega af fólki þegar það deyr? Það verður að dufti - ryki.barnið mitt. Það er skelfilegt. Það eru þá margar dauðar manneskjur undir rúminu mínu.

Í þessu sambandi dettur mér í hug að ég fékk nýlega óvenjulegt dugnaðarkast að þrífa í kringum mig. Kom sér nú heldur en ekki vel nýja fína málningartrappan úr Húsasmiðjunni. Hún er létt eins og fis. Við keyptum hana fyrir nokkru síðan og er eins og ný. Bóndinn hafði reyndar verið að vinna með hana utandyra í einhverju moldarverki svo hún hafði orðið grútskítug um fæturna og upp á leggi. Ég var búin að þvo hana og pússa og gera hana eins og nýja aftur. Svona miklum nytjahlutum er ég fús að sýna mikinn sóma.. Hún var líka nægilega há þegar ég fór að ná niður stofugardínunum þar sem kapparnir eru festir uppi við loftið. Ég ákvað að handþvo gardínurnar í baðinu og hugðist spara þann tíma sem tæki annars að losa plastkrókana úr þeim. Þorði ekki að eiga á hættu að þeir brotnuðu í þvottavélinni og skemmdu kannski vélina. Svo gæti verið að gardínurnar hefðu brunnið á laun af sólarhitanum og kæmu sjálfar í tætlum útúr vélinni. En þetta reyndist gott efni og næst mundi ég þora að setja þær í vél. Þetta fór allt vel og þær eru komnar á sinn stað aftur. Bóndinn lagaði gluggakisturnar með málningu. Ég fór ekki fram á meira. Það er ókristilegt að ofgera gömlu fólki með óhæfilegri kröfugerð. Við máluðum veggina fyrir nokkru og sér ekki á þeim.

Mikið megum við vera Guði þakklát að geta haft fótaferð og séð um okkur á þessum aldri. Því fremur dettur mér það í hug þegar ég ber mig saman við sama sem jafnöldru mína og samsveitung í æsku. Hún veiktist sem ungt barn og varð þess ekki umkomin að sjá sér farborða í lífinu. Þó er hún ríkari en margur er í dag að hún á trúna á Frelsara sinn.

Jæja, við vorum í hreingerningum og þegar kemur að eldhússkápunum þá kom í ljós að nýja fína trappan mín kom mér ekki að notum. Þegar ég var komin upp í hana þá var ég svo langt frá því að ég ná inn í skápinn. Litla trappan úr Rúmfatalagernum var of stutt til þess að ég næði úr henni. Hvað var nú til ráða? Jú, bóndinn án umhugsunar að því er virtist, hvað annað, vatt sér upp á eldhúsbekkinn sem nær líklega sporlengd fram fyrir efri skápana og náði þannig með hendinni inn í efri hornskápinn. Ó, þetta hefði ég aldrei þorað. Ég hefði getað dottið af hræðslunni einni saman aftur yfir mig niður í gólfið. Mér líður heldur ekki vel að sjá hann þarna en hann er gamall trésmiður og ýmsu vanur. Þeir fara nú ekki alltaf gætilega held ég, ef dæma skal eftir þeim slysum sem stundum fréttist af. Allir geta náttúrlega orðið fyrir slysi. Ég sem bið Guð alla jafna á hverjum morgni að varðveita okkur yfir daginn og hefi ekki haft neinar áhyggjur af því meir. Ég mundi ekki einu sinni eftir því, er ég stóð svo óvænt andspænis hættunni. Það sem fyllti hugann var, að ekki mátti maðurinn fá svima eða stíga hálft spor aftur á bak, þá gat dauðinn verið vís. Síðan hefi ég hugsað um lærisveinana á Genesaretvatninu forðum þegar bátinn fyllti allt í einu og þeir urðu hræddir. Jesús gaf í skyn að það hefðu ekki verið rétt viðbrögð. Hann sagði bara við þá, reyndar eftir að hann hafði lægt öldurnar : ,,Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?" Allt fór þetta nú vel hjá okkur.

Mér finnst samt að hönnuðir megi hugsa sinn gang og fasteignasalar sem selja gömlu fólki hús eða íbúðir með svona hættulegum hornskápum. Þeir ættu að taka fram í söluauglýsingum, að það sé bara fyrir klifurfugla að gera þá hreina, ekki konur um áttrætt sem aldrei hafi stundað loftfimleika. Nú get ég samt huggað mig við, að ekki eru lengur neinar dauðar manneskjur undir okkar rúmi, né ryk í okkar skápum.

 

Flettingar í dag: 306
Gestir í dag: 151
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123484
Samtals gestir: 24563
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 15:56:10

Eldra efni

Tenglar