Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
03.04.2006 01:34Verslunarferð. Þriðjudagur 28 mars 2006. Það er glaða sólskin en samt óttalega kaldur stormur af hafi. Ég ætla að fara að versla því að það er ýmislegt sem mig vantar. Auðvitað fer ég ein. Bóndanum virðist leiðast svo mikið að bíða eftir mér inn í búðum. Mér leiðist líka að horfa upp á hann þjást af eirðaleysi svo þetta er beggja hagur að hann sé bara heima. Ég er búin að segja honum að búðir séu einu staðirnir þar sem gamalt fólk geti innunnið sér jafnvirði peninga, með .því bara að gefa sér tíma til að hugsa og velta fyrir sér verði. Horfa eftir hvort eitthvað sé á tilboði og svo framvegis. Á þessum vettvangi eru allir jafnir en ætli gamalt fólk að fara að bjarga sér með vinnu þá er búið að sýna okkur það með útreikningum, að það er algjör heimska. Þá lendi maður í sköttum og ekki bara venjulegum heldur líka í jaðarsköttum og þeir eru svo lúmskir. Hafi nú fólk misst rétt sinn til bóta vegna tímabundinnar vinnu getur tekið langan tíma að komast inn í kerfið aftur að ég held en hefi ekki reynt. Það er að vísu til nokkuð sem heitir að vinna svart en ekki er það nú kristilegt að gjalda ekki keisaranum það sem keisarans er. Sumum finnst reyndar líka heimska að lífeyrirssjóðir urðu til. Ég veit ekki hvað mér finnst um það en ég hefi heyrt rök því til staðfestingar að betra hefði verið geyma peningana á annann hátt. Ég fæ rúmar 5000 á mánuði úr einum líferyrissjóði. Er ein þessara gömlu húsmæðra sem hugsuðu um og ólu börnin upp inni á heimilunum en hleyptu þeim samt út til að leika sér og fara í skóla. Sumar hinna yngri öfunda okkur og finnst við hafa átt gott að geta verið heima. Er alls ekki hægt að leyfa konum að hafa valfrelsi? Ég hefi aldrei séð rökin á móti því gerð opinber. Er það eitthvað sem þolir ekki dagsbirtu? Jæja ég var á leið í búðina. Reyndar fer ég í bíl því að þetta er svo langt að fara, að það væri ekki fyrir gamalt fólk að bera aðföngin heim. Það er bara hvasst og má segja rok þegar að búðinni kemur. Það er þá hvergi rok í bænum ef ekki þar. Þeir höfðu enda sett upp auglýsingu um daginn, þar sem fólk var beðið að skila kerrunum aftur inn í hús svo að þær fykju ekki á bíla á stæðinu. Núna eru líka örfáar kerrur úti í stæðunni, enda er nú bara þriðjudagur og þá er mun rólegra en undir helgar. Ég fæ mér kerru og fer að týna í hana það sem mig vantar, brauð og kex og svo fer ég í grænmetið en kaupi lítið. Fyrir nokkrum vikum var hægt að fá hér gullauga í lausu, svona líka ódýrt, aðeins sá svolítið á hýðinu en ágætt samt til átu en það er ekki til núna. Jæja sennilega er þetta Premíer og dálítið laskað flusið. Ég tek samt slatta í lausu af góðri stærð á 69 kr. kílóið. Ég verð forvitin að smakka það en ég veit að það jafnast ekki á við Gullauga ræktað í sandgarði eins og ég þekkti austur í Hornafirði endur fyrir löngu. En þetta er mjög gott verð og kemur vel út í okkar matarreikningi því að við borðum mikið af kartöflum eins og gert var í okkar æsku. Svo fer ég inn í kælinn til að ná í mjólk og viðbit. Þá vantar mjólk í lítersfernum, hún er bara til í stærri umbúðum. Við erum bara tvö í heimili svo mjólkin skemmist frekar ef stendur lengi í opnu íláti. Ég sé engan sem ég geti borið fram kvörtun við og fer því fram aftur. Þegar ég kem fram fyrir heyri ég einhvern hávaða úr grænmetis horninu eða hvað sem það kallast, þetta húsrými þar sem grænmeti er selt og ávextir. Einhver viðskiptavinur hefir verið að setja út á þjónustu og ungur starfsmaður getur ekki látið konuna vera á eintali við sjálfa sig og svarar henni, sem er nú líka kurteisi útaf fyrir sig. Ég heyrði nú ekki svo grannt hvað þeim bar á milli en sé í hendi mér að þarna er maður sem gæti leiðbeint mér að finna eplaedik sem mig hefur lengi vantað. Ég hugsa, með tilliti til síðustu viðburða, að hógværð henti hér best og Biblían hefir fyrir löngu sagt mér að grimmur hundur fái rifið skinn. Ég spyr því eins mjúklega eins og útlit og orðfæri duga mér til, hvort hann geti sagt mér hvar eplaedik sé að finna. Hann lýtur upp mjög góðmannlegur á svip og ber engin merki þess að hafa lent í snörpum vindstreng nýlega. ?Þarna í kryddhillunni", segir hann mjög svo ljúflega og bendir mér hvert ég skuli stefna. Þetta var nú fínt, hér eftir þarf ég aldrei lengur að ráfa frá einu söluhorni til annars að leita að þessar vöru. Það var líka svo gott að hafa hitt svona hupplegan mann. Þegar ég hefi lokið viðskiptum og út er komið tekur það vandamál við, að láta kerruna standa kyrra meðan ég opna bílinn því þótt ég reyni að fara að þeirri hlið með kerruna sem ég held að sé hlémegin þá er næstum álíka hvasst þar og stormurinn gerir sig líklegan til að rífa hurðirnar af bílnum, því þær liggi svo beint fyrir blæstri. Það er svipað með körfuna. Hún vill bara dansa um hvernig sem ég reyni að fá hana til að standa kyrra. Hún minnir á óðan hest sem vill alls ekki standa kyrr meðan knapinn reynir að koma sér í hnakkinn, þegar stóðið hefir stokkið á undan. Eftir dálítið basl tekst þetta þó farsællega og allt kemst heilt í höfn. Húsbóndinn kemur nú fús til hjálpar þegar heim er komið, til að raða vörunum upp í hillur. Það er líka jöfnuður. Ég er búin að hafa fyrir að taka þær niður úr hillunum í búðinni. Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 76 Gestir í dag: 31 Flettingar í gær: 121 Gestir í gær: 57 Samtals flettingar: 123741 Samtals gestir: 24660 Tölur uppfærðar: 23.11.2024 22:15:46 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is