Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
09.03.2006 18:01AfmæliAfmæli. Þórdís Líney Steinunn Karlsdóttir, tengdadóttir mín í þykjustunni, átti afmæli 22 febrúar en hélt upp á það laugardaginn 25. Febrúar. Það var myndarleg veisla sem sómt hefði að segja frá í fornsagna stíl, samt mínus áfenga drykki. Það er ekki alveg vitað hvað margt var gesta umfram 100. Ávörp voru flutt og höfðu margir gott orð að segja um kynni sín við afmælisbarnið. Myndir voru sýndar úr ævi hennar og söngvar sungnir. Allir fóru ófullir heim en vel saddir samt. Allt má ég líka gott frá henni segja þau bráðum 6 ár og tvo mánuði rúma sem okkar kynni hafa varað. En því sagði ég í þykjustunni að hún er eiginkona sonar mannsins míns en sá sonur var löngu til manns kominn þegar ég gerðist stjúpa hans og um mörg ár forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar hér í Keflavík Ég var búin að vera ekkja í meira en 9 ár. Við getum lesið um það í Tímóteusarbréfi hinu fyrra, hvernig páll postuli leiðbeindi Tímóteusi, sínum skilgetna syni í sameiginlegri trú, hvernig með þær skyldi fara í sambandi við ekknastyrkinn eða ekknaaðstoðina. Hann skipti ekkjunum í tvo hópa eftir aldri og heilagleika. Ekki mátti taka neina á skrá sem ekki væri orðin fullra 60 ára. Ég hefði nú alveg náð því með glans, en þetta áttu í raun og veru að vera alveg heilagar konur sem höfðu lagt stund á hvert gott verk, þvegið fætur heilagra og s.frv. Stöðugar í ákalli og bænum nótt og dag og þar brast nú mikið á hjá mér. Ég var einu sinni að vinna á Landakotsspítala og þar hefði ég getað fengið þjálfun í að fara á fætur um nætur til bæna með nunnunum. En við hinar starfsstúlkurnar þurftum ekki að mæta fyrr en kl.7. að morgni til vinnu og þar við létum við sitja. Svo við snúum aftur að ekkjunum. Það var ekkert spaug með þær ungu. Páll gefur Tímóteusi það ráð að taka ekki við þeim. Þegar þær gerist gjálífar þá vilji þær giftast og gerast sekar um að brjóta sitt fyrra heit. Og jafnframt temji þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það sem ekki ber að tala. Ég vil því, segir Páll, að ungar ekkjur giftist, ali börn, og stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis. Ég sá að ég passaði nú ekki alskostar heldur í þennan flokk því ég hefi alltaf verið fremur heimakær og mér of sjálfbær um afþreyingu, til þess að nenna að rápa hús úr húsi. Rólegheit og kyrrð eru mitt eftirlæti. Mér finnst snjallt hjá Páli að vilja gifta ungu ekkjurnar svo þær eigi börn og tolli betur heima, til að fyrra söfnuðinn vandræðum og illu umtali. Ég var uppalin sem einbirni því að ég fæddist daginn eftir að bróðir minn varð 11 ára. Hann var orðinn fullorðinn þegar ég man eftir. Sem barni fundust mér börn heldur leiðinlegt fólk. Þegar ég kom á heimili þar sem mörg börn áttu heima, þá fannst mér það vera svo rúið allri friðsæld sem ég átti að venjast heima hjá mér en þegar ég svo eignaðist börn sjálf, þá gerbreyttist þetta og mér fundust þau bara mjög skemmtileg. Jæja, Guð sá víst að ég mundi aldrei þroskast til að verða sett í fyrri flokkinn ekknanna svo hann ákvað bara að gifta mig og þótt ég gæti ekki lengur eignast börn mundi ég samt tolla heima af því hann hafði gert mig þannig í upphafi. Ég eignaðist náttúrlega fleiri þykjustufjölskyldur í gegnum giftinguna bæði á Akranesi Selfossi og líka í Reykjavík. Ég rís auðvitað ekkert undir því hlutverki með neinum sóma en þetta fólk hefir allt tekið mér opnum örmum svo allt hefur farið farsællega. Svo á ég börn, tengdabörn og barnabörn í Danmörku, Noregi og Akureyri. Þórdís og Kristinn búa okkur næst svo við mundum leita til þeirra fyrst ef bráða vá bæri að höndum. Þau mundu bregða skjótt við ef ég þekki þau rétt, þó svo að ég hafi aldrei þvegið fætur þeirra eins og Páll segir að ekkjur ættu að geta sýnt á sínum meðmælaspjöldum. Svo vil ég að lokum óska henni Þórdísi til hamingju með að hafa náð þessum 60 árum og vona að hún eigi eftir að lifa marga góða og glaða daga við hlið manns síns og bið Guð að gefa þeim nógan þrótt til að sinna því tvöfalda starfi að sjá fyrir sér sjálf til að vera engum til byrði og sinna söfnuðinum þar að auki. Kær kveðja. Þreytumst aldrei orðsins góða sæði að sá, Sendum ljós sendum ljós! Því vér trúum senn vér munum sigur fá. Sendum ljós sendum ljós! Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 71 Gestir í dag: 28 Flettingar í gær: 121 Gestir í gær: 57 Samtals flettingar: 123736 Samtals gestir: 24657 Tölur uppfærðar: 23.11.2024 11:24:02 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is