Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
02.03.2006 16:50KvennafrídagurNýlega var haldinn kvennafrídagur þar sem launamunur kynjanna var aðal ásteytingarefnið svo og að konur komist ekki auðveldlega að, sem æðstu forstjórar í fyrirtækjum. Launamunurinn þykir afar óréttlátur, sem hann og er, þegar um sömu afköst í sömu vinnu er að ræða. Enginn þorir að segja allt, um hvernig þetta ranglæti verður til eða blanda meðgöngu, barneignum og brjóstagjöf inn í málið. Jón Gnarr skrifaði pistil á baksíðu Fréttablaðsins 27/10 2005. Pistill sá heitir ,,Konan mín". Hann talar um mikið misrétti og konur fái lægri laun og síður stöðuhækkun en karlar. Það hafa ekki margir mælt meiri fegurðarorð til kvenna en Jón Gnarr mælir til konu sinnar, síðan íslendingar hættu að yrkja alvöruljóð. Ég sé að það er líka hægt að segja eitthvað fallegt án þess að steypa það í stuðla. Hann gerir mikið úr henni en lítið úr sér en að lokum segir hann. "Ef okkur væri boðin stjórnunarstaða þá væri ég örugglega frekari og hefði meiri áhuga á að fá starfið og hún mundi örugglega láta mér það eftir en hún væri samt örugglega hæfari en ég". Það er þetta orð "frekari" sem ég hefi haldið að skipti þó nokkru máli með öðru. Það er líkt með húsdýrunum og mannskepnunum að frekjan og áflogahneigðin er að öllu jöfnu meiri í karlpeningnum og þeir eru betur til erfiðis og átaka fallnir, frá náttúrunnar hendi. Þeir hafa oft meiri líkamsburði og eru vísari á básnum sínum í vinnunni því þeim verður aldrei hamlað af meðgöngu, barnsfæðingu og brjóstagjöf. meðal annars. Ég man frá æsku minni eftir tveim ungum hrútum heima sem höfðu verið bundnir á bás eða í stíu yfir veturinn en á útmánuðum minnir mig það væri, að þeir voru leystir úr prísundinni og hleypt út á tún. Þegar kýrnar voru leystar og látnar út fyrst á vorin þá ærðust þær af gleði og skvettu sér upp með halann uppí loftið, gengu nærri fram af sér með látum. Þær voru svo glaðar. En hvað haldið þið að hrútarnir hafi gert í sömu sporum. Þeir fóru í stríð. Þetta voru fallegar skepnur með feiknarleg horn. Ekki veit ég hvað þeim bar á milli eða hvor byrjaði en allt í einu voru þeir komnir í æsilegan bardaga. Þeir bökkuðu langan veg afturábak til að gera sér tilhlaup og svo tóku þeir á stökk fram á við og létu hraðann vinna með sér svo höggið yrði sem þyngst er þeir skelltu saman hornunum svo glumdi í. Þetta endurtóku þeir aftur og aftur og aftur. Enginn kom til að stilla bardagann, þeir fengu bara að rasa út og það tók langan tíma því að þeir höfðu svo mikið úthald. Undravert að augun skyldu ekki liggja út á vöngum að þessu loknu eða blæða inn á heilann í skepnunum. Þvílík listasmíð á þessum hrútshausum. Þetta voru karldýr, ærnar létu aldrei svona. Þær voru í mesta lagi með smá hnubb hver í aðra. Ég held að kvendýrin séu ekki að eðlisfari jafn árásargjörn og konur nái aldrei jafnrétti nema í félagi við karla og góðri samvinnu. Þær þurfa bara að komast í gott samband við þá. Fá þá til að leggja fram stríðsorkuna í þágu góðs málefnis en ekki alltaf að vera að agnúast út í þá eins og mér finnst oft raunin í dag. Við það verða þeir bara fúlir og inn í sig. Auðvitað á ekki að þegja allt í hel, "Eigið engan hlut í verkum myrkursins sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim". Þessi ráðlegging er jafngömul Kristninni, gefin af Páli postula. Það er líka hægt að geta þess sem gott er, því menn gera marga hluti vel og sumir til fyrirmyndar góðir heimilisfeður. Fréttablöðin eru nú afleit að þessu leyti. Mér finnst þeir sem stjórna þar, ættu að hafa vigt og vega efnið í blöðin, hafa aldri meira af illu en góðu, þótt þá langi til, ef dæma skal eftir hlutföllunum í dag. Þótt þeir geti ekki sagt nema illt af einhverjum þá hljóta þeir að geta fundið annan sem er til fyrirmyndar og sagt góðu tíðindin af honum til jafnvægis. Þá mundum við, þegnar landsins, ekki fá svo einhliða og afleita mynd af þjóðfélaginu sem við búum í eins og raunin er í dag. Þá gæti orðið meira um bjartsýni yfirleitt, hver veit? Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 308 Gestir í dag: 152 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123486 Samtals gestir: 24564 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:22:51 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is