1915Þegar Arthur
hafði verið fjóra mánuði í Edinborg ásamt fjölskyldu sinni fóru þau,
snemma í febrúarmánuði 1915, til Englands þar sem þau ætluðu að dvelja
í nokkrar vikur. Þau fóru með lest, lögðu af stað klukkan 10 um
morguninn og komu til London kl. 7 um kvöldið. Þá áttu þau enn eftir að
aka í vagni meira en klukkutíma leið til Greenwich en það var
áfangastaður þeirra. Í ferðasögu Arthurs sem birtist í Norðurljósinu
árið 1917 segir hann frá þessum tíma:
Fjölskyldan flytur til London
Eins og áður er getið, dvöldum
við í Greenwich, sem er í suð-austurhlutanum af stórborginni. Greenwich
liggur aðallega við Thames-fljótið, en að nokkru leyti á hásljettu
sunnan við það. Við dvöldum á þessari hásljettu og var víða
gott útsýni yfir þennan hluta borgarinnar. Þar eru engir
sporvagnar nje járnbrautir, því að brekkan umhverfis sljettuna er svo
brött, að það mundi vera stór-hættulegt, að láta sporvagna eða
járnbrautarlestir fara ofan hana ?
Fjölskylda mín dvaldi fimm
vikur í Greenwich, en jeg fjekk lítinn tíma til að finna vini mína og
kunningja, vegna þess að jeg var einatt að ferðast. Fyrst fór jeg
til stórborgarinnar Birmingham, í Mið-Englandi, og var þar þrjá daga
við ýmsar samkomur og hitti marga góða vini, gamla og nýja. Jeg
var margbeðinn að heimsækja borgina aftur þegar jeg hefði meiri tíma,
og jeg gekk inná það, en frá þeirri heimsókn verður sagt í sinni röð.
Frá Birmingham hjelt jeg norður til Barrow-in-Furness, í norð-vestur
hluta Englands. Landslagið við Barrow er mjög einkennilegt og
sjórinn gengur sumstaðar langt upp í landið, þegar flóð er. Þar
var unnið af kappi að framleiðslu herskipa, allskonar flotabúnaðar og
fallbyssa. Langstærsti hluti íbúa þessa bæjar vinnur á verkstæðum
stórs hlutafjelags sem framleiðir þessa hluti fyrir stjórnina ?
Daginn eftir að jeg kom
heim, varð jeg að leggja á stað aftur og tók þátt í stórum samkomum í
Norður- Lundúnum og hitti þar marga gamla kunningja frá fornri
tíð. Gamlan vin hitti jeg, sem jeg þekkti frá því við fórum með
mörgum öðrum ungum mönnum á hjólhestaleiðangrum, fyrir mörgum árum
síðan, til að halda samkomur í fjarliggjandi sveitum, sem verða
vanalega utan við öll trúarleg áhrif frá stórborginni. Þessi
maður hafði beðið mig um að dvelja hjá sjer og prjedika í söfnuðinum,
sem hann tilheyrði, næsta dag, sem var sunnudagur. Hafði jeg þá
nóg að starfa, því að fólkið fýsti, fyrir utan hinar vanalegu samkomur,
að heyra eitthvað um Ísland. Hafði það þá komið sjer saman um að
fara alls ekki heim á milli eftirmiðdagssamkomunnar (kl.3-4) og
kvöldsamkomunnar (kl.6.30-7.30), en nota tímann til að heyra um
Ísland. Var þá nærri því allur söfnuðurinn eftir og hafði
kvennfólkið útbúið snæðing handa honum. Jeg minnist með gleði
þeirrar ánægjulegu stundar, sem fylgdi. Alt var svo frjálst og
tilgerðarlaust, og það var auðsjeð að margir hugsuðu hlýlega til þessa
kæra lands, svo langt í burtu, sem þeir höfðu þekt svo lítið um.
Næstu átta kvöld þar á eftir
átti jeg að flytja fyrirlestra eða prjedika, sitt kvöldið á
hverjum stað, einu sinni á Vestur-Englandi, í bænum Cardiff. Á
tveimur stöðum sýndi jeg skuggamyndir frá Íslandi, og fann á öllum
stöðum gamla vini og kunningja frá fyrri tíð. Þrátt fyrir allar
þessar blessunarríku stundir, varð jeg meir en lítið þreyttur af þessum
sífeldu ferðalögum og fyrirlestrum og þegar það vildi svo til, að
fyrsti dagurinn, sem jeg hafði ekki lofað að halda fyrirlestur, var
líka afmælisdagur drengsins míns, tókum við hjónin það ráð að fara með
eldri börnin okkar til að sjá dýragarðinn mikla í Norður-Lundúnum.
Dýragarðurinn
Hjer var einn af þeim bestu og
hollustu skemmtistöðum í höfuðborginni. Allskonar dýr frá öllum
álfum hnattarins eru hjer til sýnis, oftast nær í búrum eða görðum, sem
líkjast sem mest hinum eðlilegu bústöðum þeirra. Dýragarður þessi
var gerður fyrir 90 árum og hafa menn einatt verið að stækka og fegra
hann og bæta nýjum dýrategundum við safnið. Mörg stór hús eru í
garðinum og eru sum upphituð á vissum hitastigum, til þess að dýr frá
heitari löndum geti þrifist í þeim. Ljónin dvelja í mikilli höll,
eins og sæmir "konungi dýranna", en það er aðallega vegna
áhorfendanna, að höllin er svo stór, því að fólkið í garðinum þyrpist
að úr öllum áttum á þeim tíma sem auglýst er að ljónunum og
tígrisdýrunum verði skamtaður miðdegisverður. Áður en stundin
kemur, dynur við öskur og urr villidýranna um endilangan salinn, því
þau eru að verða hungruð og þau sjá þessa miklu ös manna, sem þau vildu
svo fegin mega seðja matarlist sína á! Þá koma menn með stóra
kerru, hlaðna kjöti af gömlum vagnhestum. Þeir stinga kjötbitunum
í gegn um járngrindurnar á stórum gafli og dýrin hrifsa þá til sín og
gleypa kjötið og naga beinin á furðulega stuttum tíma.
Fílarnir og úlfaldarnir
eru látnir ganga um garðinn, og flytja fólk, aðallega unglinga fram og
aftur. Menn stíga uppá mjög háan pall, til þess að komast á bak á
fílnum, og hnakkurinn tekur 8-10 manns í einu. Jeg man eftir,
þegar jeg var unglingur, að það var ekkert rúm handa mjer í sætinu á
"hnakknum", og í staðinn fyrir að bíða til næstu ferðar var jeg látinn
sitja á hausnum á stóru skepnunni og stinga fótunum inn undir eyru
hennar til þess að halda jafnvægi. Svo eru dýrin vel tamin. Þau
ganga hægt og rólega um göturnar í garðinum og jeg man eftir einu
sinni, er lítil stúlka varð fyrir einu þeirra, að það rjetti út rana
sinn, tók hana upp og setti hana gætilega til hliðar. Í þetta
sinn var of snemma árs til að láta fílana ganga úti, svo við heimsóttum
þá í stóra búrinu þeirra. Þegar drengurinn minn fjekk einum fíl litla
köku, skipaði vörðurinn honum að "heilsa". Hann lyfti luralega
rana sínum upp að enninu eins kostgæfilega og hann hefði verið
herforingi. Fyrir það fjekk hann eina köku enn, og þá sagði
vörðurinn honum að "þakka fyrir", og við það öskraði hann þakklæti
sínu.
Við vorum einu sinni
stödd í stóru húsi, þar sem voru mörg hundruð fuglar, þegar jeg heyrði
sagt mjög skírt bak við mig: "Hvað er klukkan?" Jeg sneri mjer
við og sá, að það var ekkert fólk nálægt og aðeins einn maður og
ein kona í húsinu. Þá var sagt: "Hvernig líður yður?"
jafnskýrt og áður. Mjer til undrunar sá jeg að orðin hlutu að
hafa komið frá fuglabúrinu. Það var eins og fuglarnir litlu
skildu þá, að jeg hafði komist eftir því, að þeir gátu talað, því
að nú komu köll og smásetningar úr öllum áttum: "Góðan daginn!"
"Far vel!" o.s.frv. Jeg ætlaði að gefa nákvæmar gætur að einum
smáfugli og beygði mig til að skoða háls hans og nef, ef hann skyldi
fara að tala. En hann festi augun á mig og sagði, alveg eins og
maður hefði talað: "Far þú burt!" ("Go away!"). Þessir fuglar voru ekki
stærri en spóar og heitir tegundin á útlendu máli "manah", að mig
minnir. Vörðurinn sagði, að það væri ekki erfitt að kenna þeim
smásetningar, á meðan, þeir væru ungir.
Jeg man ekki eftir, að jeg sæi
neinar dýrategundir frá Íslandi, en þó getur það verið, að þær sjeu þar
til, því það var ómögulegt að komast yfir það, að sjá öll dýrin á einum
degi, og menn verða að láta sjer nægja að sjá helstu tegundirnar.
Orð postulans koma mjer í hug í
sambandi við þessi dýr: "Allskonar dýr og fugla, skriðkvikindi og
sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið, en tunguna getur enginn
maður tamið, þessa óhemju, sem full er með banvænt eitur." (Jak.3:
7-8.)
Jeg er hræddur um, að margir
hafi fundið, að þetta sje rjett og satt. En þó að enginn maður geti
tamið tunguna er það ekki Guði um megn. Þess vegna eigum
vjer að biðja með orðum Davíðs: "Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn
minn, gæslu fyrir dyr vara minna." (Sálm. 141.3.)
Flutningar
Um miðjan martsmánuð fluttumst
við í sveit, ásamt fjölskyldu okkar, til þorps þess, sem heitir
Waterlooville og er um 70 enskar mílur frá Lundúnum. Liggur það á
hálendi fyrir norðan flotastöðina Portsmouth á suðurströnd
Englands. Konan, sem átti húsið, sem við fórum í, átti heima í
höfuðborginni, en hafði fengið sveitahúsið í arf. Þar sem hún er
mikill trúboðsvinur og vissi af okkur, skrifaði hún mjer og bauð okkur
húsið um sumarið. Hjer var sannarlega láni að fagna, því að húsið
var stórt og skemmtilegt, og að öllu leyti vel út búið. Mikill
aldingarður fylgdi húsinu, þar sem við gátum fengið margskonar ávexti,
og var skemmtilegt fyrir börnin að leika sjer þar. Við þökkuðum
Drotni fyrir rausn velgerðakonu okkar og fyrir þetta ágæta tækifæri til
að fá þá hvíld, sem við þörfnuðumst svo mjög, heilsunnar vegna.
Stór söfnuður í bænum
Portsmouth hafði beðið mig að veita aðstoð við og við á meðan jeg var
þar í nágrenninu, og jeg hafði lofað að taka þátt í fjölmennum fundi,
sem var haldinn daginn eftir að við komum til Waterlooville. Það
vildi svo til, að trúaður maður frá Chichester, sem er um 15 mílur frá
Portsmouth, var kominn í stórborgina til að finna viðskiftavin sinn
sama daginn sem þessi fundur var haldinn. Honum var sagt að
maðurinn væri farinn á fundinn og hann hugsaði að það væri best fyrir
sig að fara líka. Hann kom inn í fundarsalinn einmitt um það
leyti sem jeg fór að tala. Nokkrum dögum seinna fjekk jeg brjef frá
honum, þar sem hann bað mig um að koma og hjálpa söfnuðinum sem hann
var í, í Chichester. Eftir nokkra daga ók hann og bróðir hans í
bifreið hans til Waterlooville til að finna mig. Við það byrjaði
mjög innileg vinátta á milli okkar, sem jeg hefi haft sjerstaka blessun
af, þar sem allflestir gamlir vinir mínir voru í Lundúnum og jeg þekti
engan í þessum hjeröðum á suðurströndinni, og jeg þakkaði Guði fyrir
þessa handleiðslu hans. Jeg hafði ánægju af að vita, áður en jeg
fór frá þeim stöðvum, að söfnuðurinn í Chichester, sem hafði áður verið
- að mjer sýndist - alt of þröngsýnn og stóð ekki á frjálsum
grundvelli, hafði breytt stefnu sinni þannig, að hann byrjaði að starfa
í fullu samfjelagi við alla aðra frjálsa söfnuði í nágrenninu, þeim og
honum sjálfum til blessunar og eflingar.
Jeg var ekki nema viku í
Waterlooville áður en jeg þurfti að fara til Lundúna aftur, enda var
jeg oft að ferðast og var fleiri daga að heiman en heima alt sumarið.
Ferðalag til Manchester
1.apríl fórum við kona mín til
stórborgarinnar Manchester, um 200 mílna ferð, á meðan tengdamóðir mín
var með börnunum. Þegar komið var til Lundúna voru ákaflega
margir hermenn að ferðast með járnbrautunum í allar áttir. Það
var skírdagur og menn höfðu fengið heimfararleyfi fyrir páskana.
Jeg hefi aldrei ferðast í jafn þröngskipaðri járnbrautarlest.
Hver klefi var troðfullur af fólki og það var varla annars kostur en að
ferðast í farangurslestinni. Þar voru nokkrir hermenn, en við
fengum sæti á nokkrum koffortum.
Samkoman, sem við sóttum í
Manchester, var á föstudaginn langa, en daginn eftir hjeldum við áfram
norður til Glasgow. Þar átti að halda mikla trúboðastefnu, sem
stæði yfir í þrjá daga. Stundum sækja um 2000 manns
kvöldsamkomurnar, og eru þær ætlaðar einkum trúuðum mönnum, en vegna
ófriðarins voru í þetta sinn ekki eins margir. Á leiðinni frá
Manchester til Glasgow höfðum við einkennilegan förunaut. Það var
indverskur maður, sem hafði þó aldrei verið á Indlandi. Fyrir
mörgum árum voru margir Indverjar fengnir til vinnu í Guiana (í
Suður-Ameríku), þar sem mikil mannekla var. Margar þúsundir fóru,
og nokkrir indverskir Búddaprestar voru með þeim, til þess að þeir gætu
haldið áfram trúar-iðkunum sínum. Vinur vor er fæddur þar og var
uppalinn til þess að vera Búddaprestur. Hann fjekk mjög góða
menntun og var í þann veginn að ganga í þessa prestþjónustu, er hann
einn dag fór inná barnaguðsþjónustu, sem ensk trúboðskona var að
halda. Hann varð alveg gagntekinn af hinni auðskildu kenningu um
Jesúm Krist og hann krossfestan, og eftir lítinn tíma sneri hann sjer
af öllu hjarta til Krists. Hann þoldi allskonar ofsóknir af hálfu
Búddatrúarmanna og hans eigin faðir hótaði að myrða hann, ef hann sneri
sjer ekki aftur til þessarar villutrúar. En hann þekti Krist og
vissi á hverju hann bygði, og ljet sig ekki yfirbuga. Seinna
gerðist hann trúboði á meðal þessara manna og hefir hlotnast mikil
blessun af Guði í starfi sínu. Hann er mjög vel greindur maður og
talar ensku furðulega vel.
Verksmiðjur skoðaðar
Við vorum ekki nema viku í
Glasgow, og þá fórum við til Edinborgar til að taka þátt í samkomum
þar. Konu mína og mig langaði til að skoða pappírsverksmiðju og sjá
hvernig pappír er búinn til, og þar sem verksmiðjan, sem býr til
pappírinn í "Norðurljósið", er skammt frá Edinborg, notuðum við
tækifærið að heimsækja hana.
Verksmiðjustjórinn tók vel á
móti okkur og fylgdi okkur um alla verksmiðjuna, þannig, að við fylgdum
efninu, sem pappírinn er unninn úr, frá einni vjel til annarar í röð,
þangað til að það var orðið að fullkomnu pappírsblaði til að skrifa eða
prenta á ?
Frá Edinborg fór kona
mín heim til Waterlooville og jeg til Birmingham, þar sem jeg hafði
áður komið. Á tíu stöðum í þeirri borg og í nágrannaborgunum var
jeg boðinn til að halda fyrirlestra og jeg hitti margt ágætt fólk í
þessari heimsókn. Birmingham er mjög mikil verksmiðju og
iðnaðarborg, með rúmlega hálfa milljón íbúa, og framleiðir allskonar
málmvörur. Þaðan koma margar vörur til Íslands.
Mikill hluti af pennum þeim,
sem notaðir eru hjer við skólana eru búnir til í Birmingham, einkum í
verksmiðju Perrys, þar sem 2000 manns vinna og framleiða meira en eina
smálest af pennum á hverjum degi ...
Sagt frá kvekurum
Á meðan jeg var í borginni
Birmingham fór jeg líka að heimsækja verksmiðjuna, þar sem jeg kaupi
öll meðul og lækningaáhöld mín hjá. Eigendur hennar eru í
trúarflokki "Kvekara", sem eru í miklum metum hjá öllum þorra kristinna
manna, þó hann sje ekki fjölmennur flokkur. Nokkrir af bestu
mönnum bresku þjóðarinnar hafa verið í þessum flokki. Meðlimir
hans lögðu mikið á sig fyrir hundrað árum síðan til þess að afnema
þrælasöluna, og það var að miklu leyti viðleitni þeirra að þakka, að
Bretar beittu sjer fyrir að útrýma þessari óhæfu. Síðan hafa þeir
starfað af kappi að því, að afnema ófrið á milli þjóðanna, og að draga
úr þjáningum, sem hafa ætíð fylgt ófriði. Þeir hafa sent Belgum
hjálp í mörgum myndum, bæði mat og læknishjálp í stórum stíl.
Ein af aðalkenningum þeirra er
að það sje rangt og ókristilegt að fara í stríð, og hafa flestir
meðlimir þeirra neitað herþjónustu. En til að sýna, að þetta sje
ekki hugleysi að kenna hjá þeim, hafa allmargir "Kvekarar" gefið sig
fram til að manna skip þau, sem veiða tundurdufl uppúr sjónum og ónýta
þau. Þetta er mjög hættulegt verk, en kristnir menn geta auðvitað
gert það með góðri samvisku, því það er beinlínis að eyðileggja
morðtól, sem ætti að vera hverjum friðarvini ljúft.
Vegna trúarskoðana þeirra gátu
verksmiðjueigendur ekki framleitt neitt, sem notað er til manndrápa, en
þeir unnu af kappi að því að framleiða alskonar lækningaáhöld, bindi,
umbúðir o.fl.
Einn af eigendunum ók með mjer
í bifreið sinni út úr bænum, þangað sem ein aukaverksmiðja þeirra var
og sá jeg þar margar stúlkur vera að búa til sáraumbúðir, gegnsýrðar
með joði, og setja þær í stórar pressur, sem þjettu þær svo, að það var
hægt að bera stóra umbúð í vestisvasa sínum. Þar var margt annað
fróðlegt að sjá, sem ekki er rúm til að lýsa hjer.
Eftir tólf daga fór jeg frá
Birmingham með hraðlest til Lundúna, áleiðis til Waterlooville.
Það var hressandi að fá nokkra daga hvíld við hina indælu skóga, sem
þar voru allt í kring, en daginn eftir að jeg kom heim, átti jeg að
prjedika þrisvar sinnum og eftir tvo daga byrjuðu ferðir mínar að
nýju. Jeg fór til að prjedika í bæ, skammt frá Lundúnum, sem
fjekk síðarmeir árás frá loftskipi Þjóðverja. Loftskipið kom í
myrkrinu og fylgdi járnbrautarlest, sem var að fara til
höfuðborgarinnar. Foringinn í loftskipinu vissi auðvitað um
lestina fyrirfram og ætlaði að láta hana vísa sjer leið til
Lundúna. En vjelstjórinn í lestinni sá loftskipið vera að elta
sig og reyndi hvað hann gat, til að komast undan því.
Þegar hann sá, að það var
ómögulegt að gera það, fann hann upp á því að stansa við þennan bæ, í
staðinn fyrir að fara til Lundúna. Foringinn á loftskipinu hjelt
að nú væri komið yfir höfuðborgina og ljet rigna niður sprengikúlum og
loft "torpedos", sem gerðu tiltölulega lítinn skaða, þar sem bærinn var
strjálbygður og margar vítisvjelar lentu á auðum stöðum. Nokkrar
konur og börn voru þó drepin, og á meðal þeirra var ein fjölskylda, sem
hafði nýlega flutt sig frá bæ á austurströnd Englands til þess að
forðast alla hættu af loftskipaárásum Þjóðverja! Aðeins yngsta
barnið slapp ...
Bræður hittast
Það fóru margar sögur um það,
fyrsta sinn sem menn hjeldu "jól" í skotgröfunum, að óvinirnir hefðu þá
komið saman á milli víglínanna í mestu bróðerni, en jeg hugsaði að
þetta tilheyrði hinum mikla sæg skröksagna, sem hafa borist út um
ófriðinn. Á meðan jeg var í Waterlooville fjekk jeg heimsókn af
bróður mínum, sem var foringi í Canada-herflokknum og hafði særst
töluvert, nokkrum mánuðum fyr. Hann sagði mjer frá því, að margir
menn úr báðum herum, þar sem hann var, hefðu komið vopnlausir útúr
skotgröfunum jólanóttina og talað saman nokkra stund. Hann fór
sjálfur út með mönnum sínum og hann vitnar um það, að óvinirnir buðu
hver öðrum vindla, átsúkkulaði og því um líkt. Það virðist vera
skrítið og óskiljanlegt, að þeir hinir sömu sem daginn áður höfðu verið
reiðubúnir til að drepa hver annan og mundu sjálfsagt gera það við
fyrsta tækifæri þar á eftir, skyldu koma saman eins og fjelagar til að
reykja og spjalla saman, að jeg hefði ekki trúað því, hefði jeg
ekki fengið það staðfest, frá mínum eigin bróður. Í mörgu bar
skoðunum okkar ekki saman (t.d. vildi hann að jeg færi í stríðið), en
jeg veit að hann er ólyginn.
Bak við þetta merkilega
tilbrigði, sem hjer er líst, hlýtur að hafa verið sú tilfinning hjá
hermönnunum, að minning friðarhöfðingjans, sem flestir þeirra könnuðust
við, að minsta kosti með munninum, væri algerlega ósamrýmanleg við það
djöfullega verk, sem þeir væru að vinna ?
Þegar bróðir minn
særðist í áhlaupi nokkru, hugsaði hann að það væri úti um sig, og
skipaði mönnunum sem næstir voru, að halda áfram. En þeir vildu
ekki yfirgefa hann og tveir þeirra báru hann langa leið, inn í lítið
hús, sem notað var sem bráðabirgðaspítali, á meðan sprengikúlur fjellu
til hægri og vinstri alla leið. Alt í kringum húsið láu særðir
menn á líkbörum og þeir voru bornir einn og einn inn í húsið, þar sem
herlæknir tók við þeim og veitti þeim hina allra nauðsynlegustu hjúkrun
til bráðabirgða. Þá voru þeir látnir liggja úti, þangað til stór
bifreið kom og flutti þá lengra frá víglínunni í betri og fullkomnari
herspítala. Þar lá bróðir minn fjóra daga milli lífs og dauða, en
batnaði þó með tímanum, svo að hægt var að senda hann til Englands til
að ná heilsu sinni aftur. Flutningstækin, bæði á sjó og landi,
eru öll útbúin svo, að það fari sem best um særðu hermennina og
þægilegustu og skemmtilegustu stórhýsin á Bretlandi eru notuð sem
spítalar handa þeim.
Barnaheimili skoðuð
Á meðan við vorum í
Waterlooville, vorum við kona mín boðin á stóra samkomu í Bristol, á
Vestur-Englandi, sem stóð yfir í fjóra daga, tvo eða þrjá fundi á
dag. Það sögulegasta, sem kom fyrir mig í Bristol, var heimsóknin
á barnaheimilunum, sem kennd eru við Georg Muller. Jeg
vildi að allir lesendur mínir gætu fengið að sjá með eigin augum þetta
nútíðar kraftaverk, þennan vitnisburð um hina óþrjótandi umhyggju Guðs
fyrir þeim, sem setja traust sitt á hann. Það er nærri því
eins og menn sjeu að lesa kafla úr nútíðar "postulasögu", er þeir lesa
sögu Georgs Mullers frá Bristol. Hann fæddist í Þýskalandi árið
1805. Sem ungur maður var hann mjög spilltur. Þegar hann
var 20 ára, endurfæddist hann og varð "ný sköpun í Kristi
Jesú". Nokkrum árum seinna kom hann til Englands til
frekara náms, í því augnamiði að gerast trúboði fyrir fjelag, sem
starfaði meðal Gyðinga. En Drottinn hafði annað starf handa þjóni
sínum, og leiddi hann til þess að sjá, að það er ekki eftir fyrirmynd
Nýja testamentisins, að "orðsins þjónar" selji þjónustu sína eða bindi
sig við kreddur neins trúarfjelags, sem þeir verða svo að halda fram,
til þess að geta lifað. Hann var sannfærður um það, að Guðs
þjónar ættu að starfa eftir fyrirmynd postulanna, sem tóku engin laun
frá þeim, er þeir kenndu, heldur treystu Drotni að hvetja "ráðsmenn
sína" til að senda þeim óbeðið það, sem þeir þurftu með til
lífsviðurhalds og eflingar starfsins. Hann sá það, að sjerhver
Guðs þjónn ætti að bera ábyrgð fyrir kenningar sínar og líf sitt,
gagnvart Drotni, en ekki gagnvart öðrum þjónum hans, nema að svo miklu
leyti sem gert er ráð fyrir í Nýja testamentinu.
Hann sagði sig þess vegna úr
fjelaginu og fór upp frá því að starfa hvar sem Drottinn opnaði veginn
og án þess að taka nein laun fyrir þjónustu sína, án þess að hafa nein
peningasamskot og án þess að biðja menn beinlínis eða óbeinlínis um
hjálp fyrir starf sitt.
Hann lifði í níutíu og tvö og
hálft, starfaði sem safnaðarforstöðumaður í mörg ár, bygði fimm stór
hús fyrir munaðarlaus börn, hið minsta þeirra 4-5 sinnum stærra en
"Good-templara" húsið á Akureyri, fæddi, klæddi og ól upp að öllu
leyti hjer um bil 10,000 munaðarleysingja, og ferðaðist í 17 ár um
allan heim til að prjedika, eftir að hann var orðinn70 ára.
Aldrei vjek hann um hársbreidd frá ofannefndum reglum, sem hann var
sannfærður um, að væru bygðar á Guðs orði, en Guð sá alltaf fyrir
þörfum hans og hins mikla barnaflokks, sem hann gætti í Drottins
nafni. Georg Muller vildi láta starf sitt sannfæra kristna
starfsmenn, að þeir þyrftu alls ekki að vera heimsins börnum háðir og
ekki jafnvel meðbræðrum sínum, heldur aðeins hinum guðdómlega Meistara
sínum, sem er hinn sami í dag og hann var á dögum postulanna.
Margir hafa lært af Georg Muller
Mjög margir hafa lært af
Georg Muller að fara betur eftir Guðs orði en þeir hafa áður gert
og að kannast við einingu allra Guðs barna og skyldu þeirra til að
sameinast á grundvelli Guðs orðs í kring um Jesúm Krist og hann
einan. Telur ritstjóri þessa blaðs það heiður, að mega vera
talinn með þeim, sem fylgja þessari stefnu. Skömmu eftir að
Drottinn kallaði hann til að gerast, trúboði las hann æfisögu
Georgs Mullers og sannfærðist um, að þessi stefna væri samkvæm
fyrirmynd Nýja testamentisins. Síðan hefur hann fylgt henni, þó
oft í miklum veikleika, og vitnar með gleði, að Drottinn hefur æfinlega
reynst trúr fyrirheitum sínum í orði sínu.
Jeg hafði verið beðinn að halda
ræðu fyrir börnin í einu af þessum stórhýsum einn morgun, og var boðinn
til morgunverðar hjá starfsmönnum þess húss. Það var hrífandi
sjón að sjá 400 litlar stúlkur hjer um bil á sama aldri, í löngum
röðum, allar klæddar í samskonar búning, sitja kyrrar og rólegar
á meðan talað var til þeirra. Jeg var sjerstaklega beðinn að
segja þeim eitthvað um Ísland, því að systir konu minnar, sem er ein
starfskona í þessu húsi, hafði lofað stúlkunum að fá mig til
þess. Að ræðunni lokinni, fór jeg að skoða herbergin,
kenslustofurnar, eldhúsin, leikvellina og margt og margt annað, sem var
að sjá í þessari stóru stofnun. Þá fór jeg líka að sjá önnur hús,
þar sem drengir eru. Hvílíkar stórar fjölskyldur! Með
hrærðu hjarta bar jeg saman velvegnun þessara barna og þá fátækt og
eymd, sem líklega hefði verið hlutdeild þeirra, hefði ekki Guð
reist upp þessi hæli til að taka á móti þeim. En sú tilhugsun bar
allar aðrar ofurliði, að öll þessi stórhýsi, sem ná yfir svo stórt
svæði, skuli hafa verið reist fyrir trúaðar bænir þessa eina
umkomulitla manns, sem gerði svo lítið úr sjálfum sjer, en vegsamaði af
öllu hjarta Drottinn Jesúm Krist.
Vissulega eru þessi hús
minnisvarði um trúfesti Guðs. Þau bjóða allri vantrú byrginn og
styrkja trú allra guðs barna, sem þekkja sögu þeirra ...
Er Biblían ábyggileg
Á meðan jeg var í Bretlandi,
gaf jeg út ritið "Er Biblían ábyggileg?", sem kom út í öðrum árgangi
"Norðurljóssins". Var það í vanalegri bókarstærð, 64
blaðsíður. Jeg ljet prenta 10,000 eintök, sem gengu öll upp á
hjer um bil ári, nema fáein eintök sem jeg geymi sjálfur. Það er
tvent ólíkt að selja bækur hjer á landi og í þeim löndum, þar sem
lesendafjöldinn er svo miklu meiri, enda er eftirspurn eftir bókum um
andleg efni þar töluvert meiri en hjer.
Jeg fór langferð til
Austur-Englands sumarið 1915 en ekki er rúm til að segja frá
henni hjer enda kom ekkert sjerlega sögulegt fyrir á því
ferðalagi. Jeg fór líka til Írlands og var þar nærri þrjár
vikur. Í Dublin (Dyflinni) hitti jeg margt ágætra manna og eins í
Belfast. Jeg fór líka til nokkurra bæja lengra frá ströndinni,
til þess að halda fyrirlestra og varð ekki var við annað en ánægju og
velmegun, enda var jeg þar á besta tíma, þegar allt var í blóma
sínum. Jeg fjekk seinna, er jeg var kominn aftur til Englands,
beiðni um að fara aftur til Belfast, til að taka þátt í nokkrum
sjerstökum samkomum vorið 1916, og hefði líklega tekið þvi boði, hefði
jeg ekki átt von á því, að fara um sama leyti heim til Íslands.
En ef jeg hefði þá farið til Írlands, hefði jeg verið í Dyflinni
einmitt þegar uppreisnin blossaði upp, að undirlagi Þjóðverja ?
Um haustið 1915 fluttumst við búferlum til Southsea, sem liggur rjett
við Portsmouth, hinn mikla hafnarbæ, þar sem er mikil
herskipastöð. Þar sáum við margt sem minti oss á stríðið mikla,
sem var að geysa hinum megin við álinn.
En hvernig skyldi lífið hafa gengið fyrir sig heima á Íslandi meðan Arthur var í burtu?
Við fáum nokkra hugmynd um
árferði á þessum tíma við að lesa bréf frá manni á Akureyri sem hafði
tekið að sér að borga reikninga fyrir Arthur og senda honum peninga sem
hann átti hér útistandandi. Maðurinn segir í bréfi dagsettu þann
5. október að nú sé búið að taka uppúr garðinum hans. Það hafi verið
sama sem ekkert, aðeins tvær tunnur og svo smátt að annaðhvort yrði að
selja það eins og það væri eða taka ekkert útsæði því það smæsta væri
einskis virði. Það væri semsagt öll garðrækt á Akureyri alveg
ónýt vegna kuldanna sem verið hefðu um vorið. Menn fengju varla í
útsæði.
Það virðist hafa verið siður á Akureyri að fólk hefði hænsni sér til
búbóta. Nú hefur Arthur orðið að koma sínum hænsnum í pössun er
hann fór til Englands. Þau eru um þetta leyti í umsjá konu sem
hefir séð um þau þetta sumar og segist, í bréfi til hans, fús að hafa
þau til áramóta ef þá sé víst að Arthur komi en verði það ekki
ráðleggur hún að selja þau því hún heldur að sumar hænurnar séu orðnar
svo gamlar að þær verpi ekki neitt. Sumar þeirra höfðu fengið illt í
fæturna og gátu lítið gengið um tíma en er nú batnað að mestu. Hún
lætur þess getið að hann hefði getað keypt sér mörg hænsni fyrir
kostnað sem fallið hefði á þau síðan hann hefði farið. Ef Guð lofi að
fjölskyldan komi aftur sé best fyrir Arthur að fá sér nýjan
stofn. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að selja þær sem í fullu
standi séu fyrir meira en eina krónu stykkið.
Hún segir fleira í fréttum. Það sé búið að brjóta margar rúður í
salnum og margir pílar lausir við tröppurnar. Einnig sé garðurinn
stórskemmdur eftir kindur og hún hafi rekið úr honum kindur bæði á degi
og nóttu. Það hafi verið gert við girðinguna í vor en féð fari í
gegnum fjórfaldan gaddavírinn. Maðurinn sem sá um þetta er ekki
heima yfir síldartímann en hún segir að hann komi bráðum heim. Hann
hafi beðið sig að líta eftir garðinum. Hún spyr Arthur hvort hann eigi
mör geymdan í frystihúsinu. Það verði honum fjarska dýrt
svo langan tíma. Þetta er greinilega framtakssöm fyrirhyggjukona sem
óhætt er að treysta. Hún biður hann að fyrirgefa afskiptasemina
en vilji bara hans hag með því. Ekki ólíklegt að hún hafi lært það í
lífsins skóla að fara vel með og láta sér verða mikið úr litlu eins og
margir þurftu á þeim árum, samanber málsháttinn. "Því áttum fátt að þú
hirðir ekki smátt". Að lokum segir hún:
Ég vildi óska að þið
væruð komin hingað aftur öll. Mig langar svo fjarska mikið til að
sjá ykkur og heyra aftur. Tíminn er orðinn óbærilega langur síðan
þið fóruð burt.
Úti í Englandi skrifar Arthur í dagbók sína:
12.11. Ný hjálparstúlka, Kate, kom. (Hún varð hjálparstúlka á heimilinu í mörg ár.)
23.11. Florence veik. Símað í Dr. Alec eftir miðnætti.
24.11. Lítil dóttir fædd. Erfiður tími en Guð hjálpaði. Barnið veikt. Slím í lungunum.
25.11. Barninu líður örlítið betur.
26.11. Barninu líður mikið betur.
Það er samt ekki fyrr en 25. desember sem þess er getið að
Florence komi niður til kvöldverðar. Stúlkan sem þarna fæddist,
Phyllis, lærði seinna matreiðslu við þekktan skóla í Englandi og fór
þar á eftir til Beirút í Líbanon og gerðist um tíma kennari við skóla
sem trúboðsfélag rak þar. Eftir að hún kom aftur til Englands
vann hún áfram fyrir félagið og ferðaðist víða um til að kynna trúboðið.
Flettingar í dag: 37 Gestir í dag: 19 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123215 Samtals gestir: 24431 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:28:52
|
Tenglar
|