Þóra Guðrún Pálsdóttir

1914

Hvað hamlaði ferð Arthurs með konu hans er hún fór veik út með börnin? Til að svara þeirri spurningu grípum við niður í júní-júlí tölublað Norðurljóssins 1914:
Nú er orðið langt síðan jeg hefi haft þá ánægju, að ávarpa lesendur "Norðurljóssins".  Heilsa jeg þeim nú með innilegri ósk um allt gott þeim til handa, með þakklæti fyrir öll þau hlýju orð, sem lesendur hafa svo oft látið fylgja áskriftargjaldi sínu.
Jeg bið lesendur mikillega að fyrirgefa dráttinn á útkomu júníblaðsins.  Honum hafa valdið veikindi á heimili mínu og þar af leiðandi burtför fjölskyldu minnar til útlanda. Sjálfur varð jeg eftir til þess að sjá um útkomu "Norðurljóssins", svo að kaupendur fá þau blöð, sem þeir hafa borgað fyrir.  Er það ætlun mín að reyna að búa svo um útgáfu blaðsins, að fjarvera mín í haust og fyrri part vetrar valdi sem minstri töf á útkomu tölublaðanna.  Menn fá þá júní- og júlí-tölublöðin í einu tvöföldu blaði og svo flest af hinum blöðum þessa árgangs, - öll, ef mjer er mögulegt, áður en jeg fer.  Ef nokkur blöð vantar, þá ætla jeg að bæta úr því þegar jeg kem aftur, ef Guð lofar, snemma á næsta ári, og byrjar þá næsti árgangurinn vonandi án mikillar tafar.
Mjer er það ljóst að "Norðurljósið" er meir og meir að ryðja sjer braut á meðal allra stjetta manna hjer á landi og á meðal Vestur-Íslendinga.  Margir hafa vitnað um, að þetta litla blað hafi verið þeim til blessunar í Drottins hendi.  Álít jeg það því vera Guðs vilja að blaðið haldi áfram og hvet jeg lesendur mína enn á ný að gera ítrekaðar tilraunir til að útbreiða blaðið.  Ef nokkur veit um menn sem væru líklegir kaupendur þess og vildi senda mjer utanáskriftir þeirra, þá skal jeg fúslega senda þeim ókeypis, nokkur eintök af blaðinu, sem sýnishorn.  Jeg vil biðja menn að hafa það í huga, ef þeir fá ekki svar upp á brjefin sín, að jeg fæ ekki brjefin, í útlöndum, fyrr en nokkrum vikum eftir að þau koma til Akureyrar.  Getur þá orðið töluverður dráttur á svari.

  Ágúst-september tölublöð Norðurljóssins 1914 komu út í einu lagi. Þar hefur ritstjórinn þetta að segja:
Ein afleiðing stríðsins mikla er, að það er mikill skortur á pappír víða í löndunum.  Sum blöðin í Englandi, til dæmis, eru farin að koma út í minna broti eða með færri blaðsíðum.  Hjer á Akureyri eru vandræði útaf pappírsleysi og eitt blað er hætt að koma út þangað til nýjar birgðir koma.  "Norðurljósið" hefir nógan pappír í þetta tvöfalda blað, en ekki nógan í næsta blað og tvísýnt er, hvort hægt veður að fá meira af sömu tegund fyrst um sinn.  Eins og skýrt  var frá í síðasta blaði, ætla jeg að fara bráðum til útlanda, ef Guð lofar, og skal jeg þá reyna að tryggja blaðinu nægan pappírsforða þangað til ófriðurinn er á enda.  Jeg lofa lesendum "Norðurljóssins" að senda út þessi þrjú blöð, sem vantar á árganginn, eins fljótt og unt er þegar jeg kem heim aftur í vor, ef Guð ætlar mjer líf og heilsu, og heldur þá blaðið áfram sinn vana gang, - nema það, að jeg býst við að útvega töluvert af nýjum og góðum myndum, og ef til vill annað, sem getur orðið blaðinu til bóta.
Þá bið jeg hina góðviljuðu lesendur mína að vera þolinmóða á meðan, þar sem ætlun mín, að gefa út öll tölublöðin í þessum árgangi áður en jeg færi til útlanda, hefir þannig brugðist af óvæntum og óviðráðanlegum ástæðum.  Jeg vonast fastlega eftir því, að þeir sýni blaðinu trygð framvegis, þó að þessi töf verður á útkomu þess.  Um fjölda marga er jeg ekki í nokkrum vafa; þeir hafa sýnt blaðinu svo einstaka velvild hingað til, að jeg er þess fullviss, að þeir taki á móti því aftur sem gömlum vini, þegar við heilsumst aftur.  Ef nokkuð markvert kemur fyrir mig á ferð minni, svo að það væri þess vert að semja ferðasögu, þá skal jeg láta það koma út í blaðinu.
Jeg hef oft verið beðinn að halda fyrirlestra um Ísland og reyni jeg þá, að svo miklu leyti sem hægt er, að eyða hinni miklu vanþekkingar þoku, sem yfirleitt ríkir um Ísland og alt íslenskt.  Stundum reka menn upp stór augu, er jeg segi þeim, að jeg hefi hvorki sjeð "eskimó" (skrælingja), bjarndýr nje ísjaka, þau níu ár, sem jeg hefi átt heima á Íslandi.  
Brjef sem verða send til mín til á Akureyri, verða send áfram til mín í útlöndum, og reyni jeg þá að svara þeim um hæl, ef þörf gerist.  
Svo kveð jeg lesendur mína með bestu óskum um alt gott, bæði tímanlega og andlega.  Minnist jeg þeirra margra, sem jeg þekki af brjefaviðskiftum, oft í bænum mínum og vildi óska, að þeir gerðu hið sama, svo margir sem þekkja og elska þann, sem sameinar öll börn sín í eitt og gerir þau að sönnum bræðrum og systrum.  "Biðjið hver fyrir öðrum", segir Guðs orð. (Jakob 5.16)

Eftir þetta varð hlé á útgáfu Norðurljóssins í þó nokkurn tíma því fjarvera Arthurs varð mun lengri en hann hafði áformað. Fyrri heimsstyrjöldin skall á sumarið 1914 og hafði þau áhrif að Arthur kom ekki tilbaka til Íslands fyrr en í apríl 1916. En árið 1917 hóf hann að birta ferðasögu sína frá árunum ytra sem framhaldssögu í Norðurljósinu, og hér gefur að líta þann hluta sögunnar er gerist árið 1914:
            
SJEÐ OG HEYRT. 
(Ferðasaga frá ófriðarlöndum.)
Eftir ritstjórann 
            
Stríðið!  Já, flestir vilja heyra eitthvað um það, því að frjettirnar, sem ná hingað til þessa útkjálka álfunnar, eru oftast ógreinilegar, og stundum jafnvel ranghermdar.  En getur nokkur gert sjer grein fyrir, hve víðtækur og stórfeldur þessi tröllaukni ófriður er?  Oss er sagt að svo og svo margar miljónir manna sjeu að berjast, og svo og svo mörg hundruð þúsunda sjeu drepnir og særðir, en geta þessar tölur fært oss heim sanninn um hinn ægilega hildarleik, sem fram fer í heiminum um þessar mundir?

Hvað er milljón manna?  Ef þeir væru látnir ganga í gegnum Akureyrarbæ, fimm menn í röð, og fyrsta fylkingin kæmi í bæinn kl. 8 á mánudagsmorgun, og þeir hjeldu áfram allan daginn og alla nóttina, viðstöðulaust, þá mundi það ekki verða fyr en seint á fimtudagskvöldi, að síðasta röðin kæmi í bæinn!  Þá myndi fremsta fylkingin vera komin, ef  haldið væri beint í suður átt, alla leið suður í Vestur-Skaftafellssýslu!
En þó er talið víst, að Þjóðverjar hafi mist hálfa milljón manna, fallna og særða, einungis við Verdun-vígin, sem þeir hafa reynt árangurlaust að ná á sitt vald.  Menn snúa með ofboði frá þessum hryllilegu tölum, en geta menn þá fremur gert sjer hugmynd um kostnað ófriðarins?  Í blöðunum lesum vjer um svo og svo margra miljóna króna herlán, og að stríðið kostar Bretaveldi um 90,000,000 krónur á dag. En það er erfitt að skilja greinilega, hvað þessar háu tölur þýða.  Til dæmis, vjer lesum um herlán sem nemur eitt þúsund miljón punda sterling (18,000,000,000 kr.), en fáir geta gert sjer hugmynd um, hvað hægt yrði að gera með þessa feikna-upphæð, ef hún væri notuð í friðsamlegu augnamiði.

Fyrir þetta verð gætu menn gert 35 skurði eins og hinn nýja Panamaskurð, sem tengir Atlantshafið við Kyrrahafið, og er eitt stærsta mannvirki nútíðarinnar.  Verksmiðja Krupps er ein af þeim stærstu í heiminum, og þar eru smíðaðar stórbyssur þýska hersins.  Fyrir þessa upphæð mundi vera hægt að koma 100 verksmiðjum á fót, eins stórum og Krupps.  Ef henni væri skift á meðal allra íbúa jarðarinnar, þá myndi hvert mannsbarn fá hjer um bil 12 kr. 50 au.  Ef hún væri borguð í gulli, þá yrðu nauðsýnlegt að taka nærri því allan gullmyntaforða heimsins til þess.  En ef borgað væri í silfri, mundu menn þurfa að flytja það í 900 járnbrautarvögnum, sem tækju hver um sig 21 smálest.  Það mundi taka langan tíma að telja alla þessa peninga; 70 bankaritarar, sem ynnu 8 tíma á dag, mundu geta komist yfir verkið í átta ár.
Menn geta því skilið, að stríðið hefir haft geysimikil áhrif á ófriðarþjóðirnar og það hlýtur að koma stórkostlegum breytingum til leiðar hjá þeim.  Þar sem jeg hefi dvalið hálft annað ár í útlöndum síðan stríðið byrjaði og hefi tekið eftir ýmsu, sem öðrum gæti fundið fróðlegt að heyra um, hefi jeg orðið við ósk nokkurra kaupenda blaðsins og ætla að láta það flytja ferðasögu mína.
                                                                                                  
Ferð hafin
Jeg fór frá Akureyri seint í októbermánuði 1914 á litlu skipi, sem ætlaði beint til Skotlands, til að taka kol, svo að það gæti haldið áfram ferð sinni til Spánar með fisk.  Reglulegar skipaferðir voru komnar í rugling vegna stríðsins, og jeg sætti glaður þeirri ferð.  Jeg hafði aldrei fyr farið á milli landa á svo litlu skipi, og mjer leið ver þá viku sem jeg var í því, en nokkurn tíma áður á ævi minni.  Jeg var útbúinn með skjöl til að sanna, að jeg væri í friðsamlegum erindagerðum, ef skipið yrði rannsakað af herskipum Breta, en við sáum ekkert herskip alla leið, nema eitt, sem fór framhjá með miklum hraða síðustu nóttina, án þess að sýna nein ljós.

Jeg hlakkaði mjög til að komast í land, þegar komið var til Troon snemma morguns, einkum vegna þess að jeg hafði ekki borðað neitt sem teljandi væri í heila viku.  Jeg stökk af skipinu á bryggjuna, og ætlaði að halda inn í bæinn, til að sjá mig um, og spyrja eftir járnbrautarferðum til Edinborgar.  En jeg hafði ekki gengið nema fáein skref, þegar hermaður með byssusting stendur fyrir framan mig, og spyr hvert jeg ætli. Þá verður mjer strax ljóst, að jeg er kominn í ófriðarland, þar sem þægindi einstaklingsins verða að setja á hakanum fyrir þörfum herstjórnarinnar.  Mjer tekst þó að sannfæra manninn um, að jeg ætlaði að koma aftur, þegar jeg væri búinn að kaupa mjer mat, og þá sleppir hann mjer.

Þetta var í október 1914, þremur mánuðum eftir byrjun stríðsins.  Hefði það komið fyrir nú, er lítill efi á því, að jeg hefði verið settur inn í varðhús og ýtarleg rannsókn hafin yfir mjer, og öllu mínu athæfi.

Endurfundir
Jeg kom samdægurs til Edinborgar, þar sem kona mín og börn voru, en leið mín lá í gegnum stórborgina Glasgow.  Hún gengur næst Lundúnum að stærð og íbúatölu. Mjer hefur oft komið til hugar, að hjer er ein af helstu verslunarborgum heimsins, aðeins 900 enskar mílur sjóleiðis frá Reykjavík, þar sem ágæt sambönd fást við allar álfur hnattarins, en þó er iðulega farið framhjá henni, til Edinborgar, sem er miklu óhentugri verslunarstaður, eða til Kaupmannahafnar, sem hefir miklu minni verslun en Glasgow og er hjer um bil 500 mílur lengra í burtu.  Er það mjer því óskiljanlegt að jafn fátækt land og Ísland er, skuli hafa ráð á að sækja vörur sínar svona óþarflega langa leið.  Flutningsskip fara ekki þessa 1000 mílna aukaferð (báðar leiðir) fyrir ekki neitt.  Kostnaðurinn kemur eðlilega niður á landsbúum, sem nota vörurnar.  En hjer skal ekki lengra farið út í þá sálma.

Fjölskyldu minni leið vel, og jeg fór að leita okkur að húsnæði í Edinborg, því þar ætluðum við að vera yfir veturinn.  Við fengum þægilegan verustað á hentugum stað í borginni, rjett við stóra skólabyggingu, sem herstjórnin hafði tekið til notkunar sem herskála.  Bar þá sífeldlega eitthvað fyrir augu og eyru, sem minti á stríðið, því endalausar heræfingar voru haldnar á stóra fletinum fyrir framan skólann, og varla hefði þurft að líta á klukkuna, því sí og æ kallaði lúðurinn hermennina til að sinna verkum þeim, sem fyrirskipuð voru á vissum tíma dags, eða til máltíða, og læra menn með tímanum að þekkja lögin, sem blásin eru á lúðurinn í hvert sinn.  Klukkan tíu á kvöldin heyrðist altaf hið alltaf hið einkennilega lag, sem heitir "Síðasti pósturinn", og þá áttu hermennirnir að hátta.  Þetta sama lag er ævinlega blásið, sem kveðja, yfir leiði hvers hermanns, sem greftraður er, - þegar hann háttar í síðasta sinn.

Að öðru leyti var erfitt að sjá merki þess að þjóðin væri þátttakandi í heimstyrjöldinni, nema að lesa blöðin.  Matvörur voru nokkuð dýrari, og einstaka vörur aðrar, en mig furðaði að sjá, hve lítið ber á stríðinu yfirleitt, bæði í stórborgunum og til sveita.  Hermenn sjást víða á friðartímum, svo að ekki þótti það óvanalegt að sjá þá við og við.  Þetta var í byrjun ófriðarins.  En nú er allt þetta breytt.  Bretland var þá alveg óviðbúið hernaði, og hafði enga löngun til að fara herför gegn þjóðverjum nje öðrum.  Það leið langur tími, áður en þjóðin vaknaði, og gerði sjer grein fyrir því, hve feikna mikið verkefni lá fyrir henni að leysa af hendi.  En nú er hún vöknuð og farin að starfa með kappi.  Eitt kvöld, skömmu áður en jeg sigldi af stað til Íslands, vorið 1916, var jeg á gangi eigi alllangt frá Glasgow, þar sem margir verksmiðjubæir eru, hver öðrum nærri, og jeg stóð og horfði með undrun á skæra roðann, sem sást um allan himininn.  Það var ekki sólsetursroði, heldur endurskinið af bálinu frá mörgum tröllauknum bræðsluofnum, þar sem allskonar morðtól og eyðileggingarvjelar voru í smíðum.  Þessi roði auglýsti betur en nokkuð annað, að nú væri styrjöld sem allflestir höfðu áður óbeit á, loksins búinn að nema landið.  Þegar jeg var kominn til útlanda, veittist mjer kostur á að skilja tildrögin til ófriðarins betur en hjer heima, þar sem menn höfðu ekkert nema stopular og oft ónákvæmar frjettir til að byggja á.  Margir þóttust hafa fullkomna útskýringu á öllu saman og gerðu grein fyrir stríðinu hver á sinn hátt, en eins og eðlilegt er, bar öllum saman um að stríðið væri eingöngu óvinunum að kenna.  Jeg ímynda mjer, að Þjóðverjar og Austurríkismenn hafi líka verið sannfærðir um að það væri eingöngu bandamönnum að kenna.  Þessi hugsunarháttur er ekki nema eðlilegur hjá báðum málsaðilum, þar sem fæstir hafa tækifæri til að vita annað eða meira en það, sem stjórn þeirra þóknast að fræða þá um.  Það þýðir ekkert að útlista málið frá stjórnfræðilegu sjónarmiði því bæði vantar menn þekkingu á þeim hlutum, sem stjórnir stórveldanna halda leyndum, og svo er hætt við því, að þjóðernistilfinningar þess sem vill rannsaka málið, geri hann vilhallan?  Menn eiga helst að reyna aðskilja þær dýpri orsakir, sem liggja  bak við ófriðinn, sem eiga rætur sínar, ekki í stjórnarfarslegum gerðum þessa eða hins ríkisþings eða þjóðhöfðingja, heldur í kenninum þeim, sem myndað hafa þjóðarviljann í hverju landi fyrir sig.

        ----------------------------------------------

Hér verður gert hlé á þessari frásögn í bili en aðeins gripið niður í hana hjer og þar.  Í maí blaði Norðurljóssins 1917 segir Arthur  Gook:
Í flestum eintökum síðasta tölublaðs voru sjö línur gerðar ólæsilegar með yfirprentun og var því jafnframt lofað, að það yrði útskýrt í næsta blaði.  Það sem prentað var yfir var stutt lýsing á framferði þýska hersins í Belgíu.  Yfirvöldin hjer í Akureyrarbæ hafa álitið lýsingu mína koma í bága við hlutleysi það, sem ber að gæta gagnvart ófriðarþjóðunum.  Þó ritstjórinn þykist ekki hafa sagt annað nje meira en það, sem er í alla staði satt og áreiðanlegt, enda og á allra manna vitorði, hefur hann ekki viljað þræta um málið fyrir dómstólum, sem hefði haft óhjákvæmilega mikinn drátt á útkomu viðkomandi blaðs í för með sjer, heldur hefur látið prenta yfir þessar fáu línur.

Skoðun   Arthurs  á stríði  á  þessum tíma
Tekið úr sömu ferðasögu:
Væri mitt ríki af þessum heimi, þá hefðu þjónar mínir barist?en nú er mitt ríki ekki þaðan. Það eru tiltölulega fáir meðal ófriðarþjóðanna, sem hafa skilið afstöðu sanntrúaðs manns gagnvart stríðinu, og þeir hafa verið beittir mikilli harðneskju og þeir jafnvel verið sakaðir um föðurlandssvik.  Samkvæmt kristinni trú er sjerhver óvinur, sem menn mæta í ófriði, annaðhvort bróðir í Kristi eða þá maður, sem ekki ennþá hefur látið sættast við guð.  Ekki er úr öðru að velja.  Sje það bróðir í Kristi, eru það beinlínis drottinssvik gegn Kristi að gera honum íllt, því að skrifað er:  Vjer eigum að láta lífið fyrir bræðurna.(1. Jóh. 3:16.)  En sje það syndugur maður, óundirbúinn dauðanum, þá er það ekki síður synd gegn Guði að drepa hann, því að þá steypir maður honum í glötun, í staðinn fyrir að leiða hann til Guðs, eins og trúuðum mönnum er skylt að gera.
Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123215
Samtals gestir: 24431
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:28:52

Tenglar