Þóra Guðrún Pálsdóttir

36. Árin 1950-1959

Lesendur Norðurljóssins fengu örlitla innsýn í ferð þeirra Arthurs og Kristínar um heiminn, því blaðið flutti fregnir af ferðum þeirra eins og kostur gafst.

Í Nóvember-Desemberblaði 1950 er þetta að frétta:

 Af ferðum ritstjórans er það að segja nú, þetta blað er prentað, að þau hjón voru stödd í Róm, þegar þau skrifuðu síðast.  Þá hafði ritstj. verið boðið að koma til Aþenu, en þaðan ætlaði hann til Kýprus-eyjar og Gyðingalands.  Hinn 14. des. átti að fljúga til Egiptalands og himsækja kristna söfnuði þar í landi.  Um áramótin var gert ráð fyrir, að þau yrðu í Suður-afríku.  Þeim hjónum leið báðum vel, er síðast frjettist.
   Vilja þeir lesendur, sem trúa því, að Guð svari bæn, biðja sem oftast um blessun Guðs yfir ferðalag ritstjórans og konu hans?

   Og í Janúar-Febrúar blaðinu 1951:

Af ferðum ritstjórans og konu hans segir þetta helst í brjefi, sem ritað var 9.-10. desember:

"Það yrði oflangt að telja upp alt, sem við gerðum, heyrðum og sáum í París, Róm, Aþenu og Nicosia (á Kípur).  Það verður að koma seinna. Aðeins segi jeg hjer, að Drottinn hefir dásamlega blessað ferðina, og má jeg með sanni segja, að hann hafi gert langtum meira en við báðum eða hugsuðum.  Allir trúaðir, sem við kyntumst í öllum fyrtöldum borgum, hafa reynst okkur ágætlega og gert alt í þeirra valdi til að hlynna að okkur og gera ferð okkar skemtilega.  Hjer er ekki eingöngu átt við Breta, heldur og við bræður af öðrum þjóðum.  Við höfum eignast vini meðal Grikkja og Armeníumanna, sem við munum líklega aldrei gleyma og aldrei hætta að þakka Guði fyrir.  Auk allrar þessarar gleði, höfum við verið stórkostlega hrifin af að fara í Kólosseum og niður í grafhvelfingarnar í Róm, standa á Aresarhæð, þar sem Páll postuli boðaði fagnaðarerindið (Post. 17.), að ganga um Korintuborg, og sjá rústirnar miklu af Salamis þar sem þeir Páll og Barnabas komu í ferð sinni (Post 13. 4-5)..

10. des. Nú er sunnudagskvöld og við erum "heim" komin frá samkomunum.  Vorum við brotningu brauðsins kl.9.30. neyttum hádegisverðar hjá einum bróður, sem er ,"allur við boðskapinn", er fjöskyldan flóttafólk frá Tyrklandi. Þá var samkoma kl. 3, og margt fólk viðstatt. Drukkum te í armensku húsi, konan og sjö börn voru þar, en húsbóndinn var farinn í trúboðsferð til Tyrklands."

Daginn eftir fóru þau til Palestínu, dvöldu þar fremur stutt.  Síðasta frjett af ferðum þeirra, símskeyti, barst frá Uganda, í austanverðri Mið-Afríku.  Vinir minnast þeirra í bænum sínum                              

    Í Maí-Júní blaði 1951 birtist þetta um ferðir ritstjórans:

    Þess var síðast getið að Ritstj. "Nlj" væri staddur í Mið-Afríku, Uganda.  Þar var hann ekki nema nokkra daga.  Áður en hann kom þangað, hafði hann dvalið í borginni Nairobi í Kenya.  Þangað fór hann aftur og hjelt svo til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku.  Þaðan fór hann til Höfðaborgar (Cape Town) og sneri síðan til Jóhannesarborgar.  Í þessum borgum hjelt hann margar samkomur, stundum tvær á dag.   

10.-17. mars dvaldi hann aftur í Nairobi.  Þar höfðu allar evangelískar starfsgreinar sameinað krafta sína til að halda sameiginlegar samkomur í viku.  Hann var fenginn til að tala á þessum samkomum.
  18. mars var haldið til Indlands, til Bombay.  Þar í landi er ráðgerð dvöl til 18. apríl.  Síðan á að halda um Singapore til Ástralíu, þar sem hann gerir ráð fyrir að dvelja fram um 12. júní.
   Annríkið sem fylgir þessu ferðalagi, er geysilegt.  Fólk er altaf að koma og tala við hann.  Hann fær lítinn eða engan tíma til brjefaskrifta.  Þessvegna eru þær frjettir, sem blaðið færir, af skornum skammti.
   Í brjefi, sem kona hans skrifaði móður sinni, segir hún, að hún hafi ekki fyrirfram getað skilið, hvílík þörf hafi verið fyrir þetta starf, sem maður hennar leysir nú af hendi.  Alstaðar eru þau beðin að koma aftur eða standa lengur við. "Okkur vantar svo uppfræðslu í Guðs orði", segir fólkið.  Drottinn vissi um þessa þörf.  Þessvegna sendi hann hjónin í þetta ferðalag .-Trúuðu vinir, minnist þeirra í bæn.

   Næst koma fréttir af ferðum þeirra hjóna í Júlí-Ágúst blaði Norðurljóssins 1951.

   Þegar þetta er ritað, hafa engar beinar fregnir borist af ritstjóraranum eða  konu hans um langan tíma.  Síðasta brjef hans var ritað 19. apríl og hennar 10. maí.  Þegar hann skrifaði var hann staddur í Suður-Indlandi.  Þá hafði hann heimsótt ýmsar borgir Indlands, meðal annars Delhi, höfuðborgina.  Þar hjelt hann nokkrar samkomur.  Frá Delhi skruppu þau til Akra, sem er 7 stunda járnbrautarferð þaðan.  Í Akra sáu þau Taj Mahal, sem er heimsfræg bygging.  Þar í borg áttu þau indæla samkomustund með innfæddum trúbræðrum.
   Þegar þau höfðu lokið ferðum sínum á Indlandi, hjeldu þau til Colombo, höfuðborgar Ceylon-eyjar.  Þar dvöldu þau um tíma, en hjeldu síðan til Singapore.  Sunnudag, sem þau dvöldu þar, talaði hann á fjórum eða fimm samkomum.
    Frá Singapore var flogið til Ástralíu, og birtist í "Tímanum" stutt frásögn um komu þeirra þangað.  Þar var svalara miklu morguninn, sem þau komu þangað, en í hitasvækjunni, sem þau höfðu dvalið í undanfarnar vikur.
   Svo munu þau hafa ferðast um marga staði í Ástralíu, en allar nánari fregnir af þeim ferðum vantar.  Frá Ástralíu gerðu þau ráð fyrir að halda til Nýja Sjálands og dvelja þar um mánaðartíma.  Þaðan ætluðu þau til Fiji-eyja í Kyrrahafi, og vera þar um hálfan mánuð.
   Síðasta fregn, sem borist hefur, kom frá konu í Reykjavík.  Hún á dóttur, búsetta í Bandaríkjunum, og höfðu þau ætlað að vera komin til hennar snemma í ágúst.
   Berist fleiri fregnir, verður þeirra getið í næsta blaði.

Næstu fréttir komu í September-Október blaðinu.

   Bréfspjöld hafa borist, sem greina frá dvöl í Hawai-eyjum, mörgum samkomum og svo miklu annríki, að ekki vinst tími til brjefaskrifta.  Þau hjónin munu hafa komið til San Francisco í Kaliforníu um mánaðamótin júlí-ágúst.  Hve lengi þau kunna að dvelja í Norður-Ameríku og síðar í Englandi, er ef til vill ekki ákveðið.  Sennilega gætu þau komið hingað til lands seint í sept. eða einhvern tíma í október. Við skulum ekki gleyma að minnast þeirra í bænum okkar.

                                          
Nóvemember-Desember blað Norðurljóssins flutti þessar fregnir af Arthur og Kristínu:

   Þar var frá horfið síðast, að þau hjón mundu hafa komið til Kaliforníu um mánaðarmótin júlí-ágúst.  Þegar ritstjórinn skrifaði næst, reyndist þetta rjett.  Hinsvegar reyndist ekki rjett sú von, að þau kæmu eins fljótt heim eins og vænst var.

   Þau dvöldu fyrst viku í San Francisco og síðan um tíma í Los  Angeles og sáu margt fallegt.  19. ágúst var haldið til Kanada og meðal annars dvalið í Winnipeg og haldnar þar samkomur á íslensku og ensku.  Skroppið var yfir til Bandaríkjanna og heimsótt íslensk kona, sem einu sinni var hjer á Sjónarhæð.  Síðan voru heimsóttir nokkrir staðir í Bandaríkjunum, meðal annarra stórborgirnar Chícago og New York, samkomur haldnar og ágætar viðtökur alstaðar.

   Hinn 9. okt. var flogið til Bermuda.  Þar hjelt ritstjórinn samkomur í stórum sal.  Mikil aðsókn var og sýnileg blessun með þeim.  Síðan átti að halda til Azor-eyja, en af því gat ekki orðið.  Voru þá haldnar fleiri samkomur í Bermúda.

   18. október komu þau til Portúgals.  Þar voru haldnar nokkrar samkomur, en fjórum dögum síðar flugu þau til London.  Var þá hringferð þeirra lokið, enda kominn tími til að geta farið að hvíla sig.  Slíkt ferðalag með svo mörgum samkomum, oft kvöld eftir kvöld, reynir mjög mikið á kraftana.   Ritstjórinn endar svo yfirlit sitt yfir ferðina á þessa leið:

   "Þú getur sagt vinunum, að Drottinn hafi stöðugt gefið blessum sína og leiðbeiningu á markverðasta hátt alla leiðina á enda; og að hver einasta af 72 flugferðum hafi verið góð og án allra óhappa, þó að í eitt eða tvö skipti, hafi flugvjelum seinkað einhverra orsaka vegna.  Fyrsta flugið, frá London til Parísar, var dálítið "rykkjótt". ... En öll hin hafa verið góð, sum svo, að ekki fanst að flugvjelin hreyfðist.  Þetta er svar við bæn þar sem við höfum lagt þetta mál fyrir Drottin í hvert sinn, og hann hefir náðarsamlega bænheyrt."

  Þessi örstutti útdráttur verður að nægja í bili.  Í næsta ágangi byrjar ferðasagan, ef Guð lofar, og verður hún bæði fjölbreytt og fróðleg.  Öllum þeim, sem með vinarhug og kærleika hafa beðið blessunar Guðs yfir hjónin og ferð þeirra, færi jeg innilegar þakkir.  Við skulum halda áfram að biðja þeim blessunar Drottins.  S.G.J.

Þegar til kom birtist ferðasagan aldrei í heild í Norðurljósinu, heldur var hún gefin út í bók sem var gefin út hjá Bókaforlagi Odds  Björnssonar og ber heitið "Flogið um álfur allar."
Janúar-Febrúarblað Norðurljóssins árið 1952 flytur þessa frétt:
 Heimkoma ritstjórans hefir nokkuð dregist, og hefir hann dvalið lengur í Bretlandi en vonir okkar hjer heima stóðu til.  Hann hefir á undanförnum áratugum skrifað bækur á ensku, sem náð hafa mikilli útbreiðslu og dreifst um allan heim.  Nú var enn þörf á nýrri útgáfu þeirra, og hefir hann dvalið ytra og unnið að henni.  Hann er nú, ef Guð lofar, væntanlegur með "Gullfossi" í byrjun marsmánaðar.  Heilsa þeirra hjóna var góð þegar síðast frjettist af þeim.  S.G.J.
Það fer nú að sneiðast um heimildir af lífi þeirra hjóna, þó er augljóst að þau hafa verið einhverjar vikur með börnunum um sumarið 1952 við Ástjörn, því nokkur bréf eru til frá Sæmundi er hann skrifar Arthur það sumar austur að Ástjörn. Bréfin voru í sambandi við matarsendingar til barnaheimilisins og mót sem halda átti að loknu barnastarfinu.

Sumarið 1953 voru Sæmundur og María systir Boga  með börnin við Ástjörn og líklega hafa fleiri komið við sögu því getið er um að Sigurlína systir Boga og Eyvind maður hennar hafi veitt hjálp þegar austur kom.  Arthur og  Kristín eru þá heima og sjá um matarsendingar austur. Eitthvað eru þau hjón þó fyrir austan eftir að börnin og starfsfólk er farið heim.

Veikindi

Um páskaleytið 1954 veiktist Arthur af lungnabólgu, varð mjög þungt haldinn og náði sér aldrei að fullu eftir það. Árið eftir veiktist hann aftur og varð þá ljóst að hann yrði að leita þangað sem vetur væru skemmri og loftslag hlýrra en hér.

Árið 1955, eftir hálfrar aldar starf á Íslandi, flutti Arthur aftur til Englands. Fóru þau hjón þá til Suður-Englands og dvöldust þar á ýmsum stöðum uns Guð gaf þeim fast heimili í Hailsham.  Frá því að hann kom til Englands þangað til skömmu fyrir andlát sitt, predikaði hann orð Drottins og flutti erindi um Ísland hvar sem tækifæri bauðst, ef  kraftar leyfðu.  En með viljafestu og seiglu sem einkenndu hann, var þverrandi orku mest beint að markinu: Þýðingu  Passíusálmanna yfir á enska tungu. (Norðurljósið, 1959, S.G.J.) Það markmið náðist.  Þeir voru gefnir út.

Eftir að þau hjón höfðu fengið fast heimili í Englandi komu þau til Íslands til að sækja dót sitt.  Það var 1957. Með þeim komu ung hjón sem ætluðu að verða trúboðar hér á landi.  Það breyttist er fram liðu stundir. Mig minnir það vera í sambandi við heilsufar innan fjölskyldunnar.  Hvort það voru fleiri sjóar sem risu á móti hugsjón þeirra að gerast trúboðar veit ég ekki. Það hafa ýmsir komið til að vera en farið aftur áður en þeir næðu tökum á tungumálinu.

Þau fjögur, Arthur og Kristín, Davíð og Ethel Proctor voru komin til Akureyrar kl. 5.30 þriðja júlí 1957. Arthur skrifar í dagbókina sína:


Lof sé Guð. Með Jóhanni og Sigríði um kvöldið, fínn tími.

4. júlí. Í banka með Davíð.  Um kvöldið til Stefáns og Kristbjargar.  Fínn tími.

7.júlí.  Sunnudagur. Brauðsbrotning, blessaður tími.  Seinni samkoma.  Sá fleiri gamla vini. Talaði útfrá Matt.16:24. Pét.1:16-1.

16. júlí. Ók til Þorvaldsdals með Kristínu og Elínborgu.  Var að vinna að passíusálmi í bílnum meðan þær gengu um.

23. júlí talar hann við Sigurð O. Björnsson í síma viðvíkjandi ferðasögu.

24. júlí er hann að vinna við passíusálmana.

Þann 25 júlí, fer til Sunnuhvols og á fínt samtal við Þuríði og hennar fjölskyldu.

Daginn eftir heldur hann samkomu í Elliheimilinu Skjaldarvík. ("Góður tími" segir Arthur).

Þau hjónin fara austur til Ástjarnar í byrjun ágúst.  Arthur hefur verkefnið með sér. Hann er þar að vinna við passíusálmana seinnipart dags. Veðrið var gott og hann á langt samtal við Sæmund sem var þá að sjá um drengjaflokkinn. 

Hinn 7. ágúst fara þau til að kveðja Jón Sigfússon og Halldóru Gunnarsdóttur og vini sína í Ási.

8. ágúst. Kalt í tjaldi en góður svefn. Fara að Byrgi til að kveðja Erlend og Sigrúnu.  Leit inn í Laufási en Þórarinn ekki heima. Drottinn gaf okkur góða ferð yfir Reykjaheiði. Komu að Laxamýri.  Jón ekki heima en Elín veitti þeim kaffi og þau hvíldust.

Um kvöldið 13. ágúst fóru þau til Marsibil og Trausta. Um soninn þeirra segir hann, "A dear little fellow".  

21. ágúst fóru þau heim til Boga og Margrétar og drukku  súkkulaði. Litli Arthur var tveggja ára (sá sem bar nafnið hans).  Fínt veður.  Lauk við 27. passíusálm.   

1. september. Sunnudagur, blessaður tími við brauðsbrotningu.  Samkoma kl.5. Talaði um að Jesús er Drottinn. Kl. 9 gaf Jóhann syni Marsibilar og Trausta nafnið Birkir Aðalsteinn.


2. september. Safnaðarfundur um kvöldið hjá Jóhanni.  "Mjög hjálpfull stund" segir í dagbók.

Jóhann Steinsson hafði tekið við stöðu forstöðumanns safnaðarins Þegar Arthur og Kristín fóru út 1955.  Arthur hafði líka afhent Sæmundi Norðurljósið.  Guðvin Gunnlaugsson, Hilmar Magnússon og Þórarinn Guðmundsson tóku við sunnudagaskólanum á Sjónarhæð. Bogi Pétursson hafði verið með Sæmundi við sunnudagaskólann í Glerárþorpi og hélt honum áfram. Magnús Ágústson kom svo seinna og var með Boga við þann sunnudagaskóla  og einnig fóru þeir að hafa sunnudagskóla á Svalbarsströnd.

5. september.  Gengið frá farangri og hlutir flokkaðir.  Mikið að gera næstu daga.


Sunnudaginn 8. september 1957 byrjaði Arthur daginn með því að vinna sitt síðasta embættisverk á Akureyri. Verk sem ég held að hann hafi ekki átt von á að hann ætti eftir, að gifta Sæmund aðstoðarmann sinn, sem verið hafði í þjónustu hans meira en fjórðung aldar. Hann var nú aldamóta maður og kominn yfir þann aldur sem venja er að menn giftist í fyrsta sinn.  Það hefði mátt ætla að Guði þætti hann nú orðinn nógu þroskaður til að fara að eiga með sig sjálfur, eitthvað sem sumum fannst að hefði mátt vera löngu fyrr, en Guð hafði gefið Arthuri hann sem aðstoðarmann.  Arthur var búinn að biðja Guð lengi um íslenskan aðstoðarmann en nú var þjónustutímabili Arthurs lokið hér á landi svo hann þurfti ekki lengur á íslenskum aðstoðarmanni að halda.

Brúðurin Þóra  var fædd 1926 og var sjálf á venjulegum giftingaraldri en hún var spéhrædd eins og Sara í biblíunni, dauðhrædd um að það yrði hlegið að uppákomunni út af svo óvanalega miklum aldursmun hjónaefnanna. Vildi því enga veislu hafa, heldur að allt gengi sem kyrrlátlegast fyrir sig og vekti ekki meiri athygli og umtal en nauðsyn bæri til. Svo hlutu nú þessar furðufréttir að fjarlægast og  hopa fyrir öðrum nýrri, eins og alltaf hefur gengið til í þessum heimi. 

Klukkan 11 fyrir hádegi þennan sama sunnudag var svo Brauðsbrotning eins og siðvenja var hvern sunnudag á Sjónarhæð. "Mjög blessaður tími", skrifar Arthur og virðist laus við allar áhyggjur af morgunverkum sínum.  Á eftir fara þau hjón til Sæmundar og Þóru í mat.  Klukkan 5 var svo Arthurs síðasta samkoma.  Salurinn fullur og hann talaði  útfrá 2. Tím. 3:12. "Mikil hjálp" skrifar Arthur. Kveðjur á eftir. Daginn eftir fara þau Arthur og Kristín í kaffi til Guðmundar Péturssonar og eru leyst út með sauðargæru. Á eftir til P.O.B. til að kveðja Sigurð og Geir.  Einnig talaði hann við Sigurð á Egg í síma.

10. september talaði hann við Steinunni á Skriðnesenni og kvaddi Sigurð Bergsson að Kristnesi. Svo var kveðjuveisla í salnum kl. 9.

Þann 12. september fara þau Arthur og Kristín frá Akureyri  áleiðis til Reykjavíkur og þaðan lá leiðin til Englands.  Eftir að þau fara frá Akureyri finnast mjög fá bréf frá þeim. Að líkindum hafa þau glatast. Þá átti  Arthur aðeins tæp tvö ár ólifuð en hann lést þann 18. júní 1959.

Sæmundur skrifar eftirfarandi í minningargrein um hann sem birtist í Norðurljósinu, Hún birtist ekki öll hér því mikill hluti efnisins hefur áður komið í þessu riti. Sæmundur segir:

Frá því hann kom til Englands þangað til skömmu fyrir andlát sitt, prédikaði hann orð Drottins og flutti erindi um Ísland hvar sem tækifæri bauðst, ef kraftar leyfðu. En með viljafestu og seiglu, sem einkenndu hann, var þverrandi orku mest beint að markinu: þýðingu Passíusálmanna (á enska tungu). Það tókst, þeir voru gefnir út.  Seint í maí (1959) veiktist hann og var talið, að hann mundi þurfa uppskurð sem ekki varð þó af. Drottinn tók hann heim. Hann dó 18. júní 1959. Sjö dögum eftir afmæli sitt.  Bæði í þeim veikindum sem í öðrum hjúkraði frú Kristín manni sínum af stökustu alúð, eins og hún áður hafði reynst honum mjög hjálpsamur ferðafélagi, jafnt í ferðinni miklu sem í öðrum. Vafalaust hafði hún vænst þess að mega njóta samfylgdar manns síns lengi ennþá, en Drottinn ræður dvalartíma og brottferðartíma barnanna sinna..

Arthur Gook var mikill vexti, fallegur maður og glæsilegur að vallarsýn.  Gáfur hans voru miklar og fjölhæfar og hann var víðlesinn maður.  Þekking hans og skilningur á ritningunni var með ágætum.  Bænamaður var hann, sem oft fékk dýrðleg bænasvör.  Hann var vel máli farinn, prédikari góður og gæddur mikilli söngrödd.  Honum var sérstakt yndi, miklu fremur en ljúf skylda að mæta með öðrum börnum Guðs við borð Drottins og minnast dauða hans á hinn óbrotna hátt, sem Drottinn Jesús hafði sjálfur gert, er hann stofnsetti kvöldmáltíð sína.  Þar mætti hann síðasta sunnudaginn, áður en hann lagðist banaleguna.  Las hann þá úr Jobsbók 33 kap. Síðari hluta kapitulans og úr því 19. kap. 23-27.vers.  Honum var ljúft að lesa þann kafla og leggja út af orðunum: "Ég veit að lausnari minn lifir." S.G.J.
Ó að orð mín væru skrifuð upp,

ó að þau væru skráð í bók

með járnstíl og blýi,

að eilífu höggvin í klett!

Ég veit að lausnari minn lifir,

og hann mun síðastur ganga fram á

foldu.

Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt

og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.

Ég mun líta hann mér til góðs,

já, augu mín sjá hann, og það eigi sem

andstæðing

-hjartað brennur af þrá í brjósti mér!

Job.19.23-27

Arthur Gook  trúboði og ræðismaður -  kveðja

Ég hefi verið að bíða eftir því að sjá minningargrein í dagblöðunum um Mr. Gook en hann lést í sumar í Englandi, eftir að hafa verið sjúkur um tímabil, en þar var heimili hans aftur, eftir langan starfsdag á Íslandi. Þar dvaldi hann mestan hluta ævi sinnar, og því helgaði hann krafta sína. Hann unni Íslandi og íslensku þjóðinni.

Ungur var hann kallaður af Guði, frá ættlandi sínu vinum og venslafólki og björtum framtíðarhorfum, til þess að starfa hér. Þeir sem líta aðeins á hið ytra í lífinu, sjá ef til vill ekkert sérstakt við þetta kall, telja það sennilega ekki annað en útþrá og glapræði af ungum og menntuðum manni, að taka sig upp og hverfa hingað í fásinnið og fátæktina sem á þeim árum mun hafa ríkt hér. Þeir skynja ekki né eygja kjarnann í boðinu "Farið út um allan heiminn og flytjið fagnaðarboðskapinn öllum mönnum". Mér hefur verið sagt að þessi ungi Lundúnabúi hafi vakið athygli hvar sem hann fór, ekki eingöngu vegna ræðusnilldar og rökfestu í boðskap sínum, heldur einnig persónan sjálf, fríðleiki hans og afburða glæsileg framkoma.

Ég átti því láni að fagna að fá að kynnast honum reyndum og þroskuðum manni, og engum hefi ég kynnst sem hefur verið heilli þátttakandi náungans, á sorgar og þrautastundum. Hann var spakur að viti, orðhagur, orðheppinn og skyggn á aumu blettina og vissi hvar þörfin var mest fyrir græðandi smyrsl. Hann var sálusorgari, fræðari og leiðtogi, Því sagði ég í upphafi. "Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur". Hann var einstaklingnum til blessunar í ræðu og riti þeim er vildu þyggja hans aðstoð, og einstaklingurinn skapar þjóðar heildina. Þessvegna hefur Ísland orðið fátækara við fráfall hans. Jafnvel þótt hann væri fluttur héðan. Síðasta verk hans var að þýða Passíusálmana á ensku, og er það ekki lítið þrekvirki. Snæbjörn Jónsson hefir minnst þess í blöðum á hlýlegan hátt, og vil ég hér með tjá honum bestu þakkir fyrir. Það er leitt hversu tómlega mörgu er tekið, sem miðar til heilla í framkvæmdum, en svo eru stundum ótal hendur á lofti til að grípa sápukúlur hégómans og sýndarmennskunna. Þetta er heimsandinn, manneðlinu fær ekkert breytt nema sannur kristindómur. Hann getur þýtt ís og klofið harðasta klett. Þar sem hann kemst að verður allt nýtt. Þennan boðskap vildi Mr. Gook hjálpa öðrum heilsteyptum kristnum mönnum hér, til að flytja út til þeirra sem í myrkri sitja, hinum trúlausu og nafnkristnu. ...

Úr minningargrein eftir Filippíu Kristjánsdóttur. (Hugrúnu)

 

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123215
Samtals gestir: 24431
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:28:52

Tenglar