Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
33. Sumarheimilið við Ástjörn Sæmundur G. Jóhannesson segir svo frá í ævisögu sinni, að hann varð snemma gigtveikur og fékk stundum gigtarköst í bakið, svo slæm að hann varð að liggja í rúminu. Það var, að segja má, lán í óláni, því þá fékk hann næði til að lesa í Biblíunni og vera í bæn með Drottni sínum. Fannst honum stundum Drottinn tala til sín, hvað hann ætti að gera eða láta ógert. Í júní 1943 fékk hann slæmt kast, sem stóð hálfan mánuð. Lyfin sem Arthur gaf honum hjálpuðu ekki. Hann gaf sig að því að hlusta eftir röddu Drottins. Fannst honum sér þá sýnt, að hann ætti að fara meira út til annarra staða og halda samkomur fyrir börn. Sömuleiðis ætti hann að hefja starf fyrir drengi, eitthvað í líkingu við K.F.U.M. í Vatnaskógi. Þegar hann hafði tekið við þessum boðskap og ákveðið að hlýða honum, batnaði honum gigtin.
Er hann sagði Arthuri frá þessari ákvörðun um drengjastarf, þá sagði Arthur, að sig hefði lengi langað að hefja slíkt starf en ekki séð sér það kleift. Vildi hann eindregið vera með Sæmundi í þessu starfi. Haustið 1944 var Arthúri gefinn hermannaskáli af breska setuliðinu. Fóru þeir þá að svipast um eftir hentungum stað til að setja braggann niður. Í september 1939 höfðu þeir Arthur og Sæmundur ferðast til Eskifjarðar og Reyðarfjarðar að halda samkomur og heimsækja Auðberg Benediktsson en hann var einn þeirra manna sem útbreiddi Norðurljósið í sinni heimabyggð. Fyrsta dag ferðarinnar óku þeir til Ásbyrgis í Kelduhverfi og náttuðu þar þótt ekki hefðu tjald með sér. Er þeir, morguninn eftir héldu ferðinni áfram og voru komnir nokkuð austur fyrir Ásbyrgi, stansaði Arthur bílinn og kveðst ætla að sýna Sæmundi eitthvað fagurt. Gengu þeir uppá sandhól nokkurn og blasti þá Ástjörn við þeim í allri sinni fegurð og skógi vöxnum hæðum á báðar hliðar. Nú fimm árum síðar heimsóttu þeir Sigríði í Ási í Kelduhverfi. Eflaust hefur Arthur haft þarna forgöngu um að fala lóð af henni. Það höfðu fleiri gert og fengið neitun. ,,En börnunum get ég ekki neitað," sagði sú mæta kona. Skálinn var síðan reistur á hinum aðdáanlega fagra stað við Ástjörn. Sæmundur skrifar til Arthurs bréf úr Ástjarnarskógi, dagsett 26. júlí 1945: Kæri Mr. Gook.Í September-Októberblaði Norðurljóssins árið 1945 birtist eftirfarandi tilkynning: Nýtt Sumarheimili. Nokkrir trúaðir vinir hafa stutt ritstj. til þess að koma á fót sumarheimili fyrir unglinga á indælum stað skamt frá Ásbyrgi í Kelduhverfi. Skáli er þegar reistur í skógarrjóðri við Ástjörn og tekur væntanlega til starfa innan skamms. Hinn 13.- 20. júlí dvelur þar drengjaflokkur og frá 20.-27. stúlknahópur. Meira um þetta í næsta blaði.Í Nóvember - Desember blaðinu kemur svo eftirfarandi tilkynning: Sumarheimilið við Ástjörn. Af því að þetta tölublað kemur seinna út en ætlast var til, er hægt að tilkynna hjer, að starf þessa sumarheimilis hófst 1946. Skálinn var að vísu ekki fullgerður, en samt var hægt að taka á móti drengjaflokki fyrstu vikuna og stúlknaflokki næstu viku á eftir. Þá dvöldu nokkrir fullorðnir þar um tíma. Síðan var haldið áfram með smíðina innanhúss, lóðin girt o.fl.. Blessun Drottins hvíldi yfir þessari litlu byrjun. Veðrið var yfirleitt ágætt, allir voru hrifnir af fegurð umhverfisins og mjög vel ánægðir yfirleitt. Farið var meðal annars að Dettifossi, Hafragilsfossi, Vígabergsfossi, Forvöðum og Ásbyrgi. Við hlökkum til sumarsins 1947, er skálinn verður vonandi fullger, bátur kominn á tjörnina og undirbúningur allur betri.Arthur hafði ekki komið til Íslands frá Englandi fyrr en í desember 1945 svo ekki var nema eðlilegt að útgáfu blaðsins hefði seinkað. Hann treysti best sjálfum sér til að sótthreinsa blaðið af öllum villum, bæði áður en það fór í prentun og á meðan það var í prentun. Hann vildi ekki hætta á neitt með það. Sjálfs er nú höndin hollust stendur einhversstaðar. Samt kom það nú fyrir að hann, vegna annríkis á öðrum vettvangi í öðru landi, gat ekki sjálfur sinnt fæðingu hvers blaðs en það var lengi undantekning. Það mættu sjálfsagt margir taka vandvirkni hans sér til fyrirmyndar. Hann var líka vel undir búinn á þessu sviði þegar hann fluttist til þessa lands vegna þess starfs sem hann hafði þá stundað í Englandi. Starfsfólk með börnunum á Ástjörn hið fyrsta sumar 1946, sem vitað er um fyrir víst, voru Arthur Gook, Kristín Steinsdóttir, Sæmundur Jóhannesson, Bogi Pétursson, Margrét Magnúsdóttir, kona að nafni Sólveig og Trausti Sveinsson. Auðvitað voru svo margir aðrir sem lagt hafa sitt af mörkum til að starf gæti hafist Arthur fer aftur til Englands 5. september 1946. Hann segir að margt sem hann langaði að gera árið áður hafi reynst óframkvæmanlegt. Flest stóð fast í skorðum sem örðugleikar stríðsins höfðu sett. Hann var á þessum tíma farinn að útvega fólki ýmislegt sem skortur var á hér. Skapaði þetta ómælda snúninga og fyrirhöfn bæði fyrir hann og einnig fyrir Sæmund hér heima, sem þurfti þá að sækja um gjaldeyri og flytja skilaboð á milli, en væntanlega hefur þetta eitthvað létt undir fjárhag Arthurs. Hér koma við sögu bílar, hjól, að minnsta kosti sex píanó, pappír, þríhjól, varahlutir í bíla o.fl. o.fl. Sæmundur skrifar Arthuri 25. september 1946. Hann segist þá setjast niður til að skrifa þetta vikulega bréf því alltaf safnist eitthvað fyrir til að senda. Hann segir að fréttir séu fáar nema þær, að um helgina hafi gert afskaplega norðan rigningu, svo að víða flóði vatn inn í kjallara og olli skemmdum: Hjer lak töluvert upp á háalofti, svo að við fórum upp á háaloft með fötur, bala og þvottaskálar, til að verja bækurnar. Jeg held það hafi tekist. Kartöflugeymslan skemmdist, hljóp vatn í austurvegginn, svo að hann klofnaði og seig niður að framan.Sæmundur skrifar engar fréttir af andlega starfinu, hvernig það gangi, en þetta haust, 1946, byrjaði Sæmundur að hafa biblíunámsflokk fyrir ungt fólk. Arthur skrifar Sæmundi bréf 4. nóvember 1946: Kæri Sæmundur minn.Í síðasta þætti ferðasögu sinnar 1946 segir Arthur frá því er þau hjón fóru í ferðalag að heimsækja börn sín áður en Arthur færi til Íslands: Næsta dag var veðrið gott svo að við hjeldum áfram til Kent til að finna son okkar, Eric. Hann giftist í stríðsbyrjun og er nú sestur að í sveit, á fallegum stað í "Aldingarði Englands", eins og Kent fylkið er oft kallað. Hann er að koma upp ætisvepparækt. Konan hans hefur töluvert hænsnabú.Arthur er svo kominn til Akureyrar fyrir áramót, áður en árið 1947 hefst. Hann var enda búinn að gera ráð fyrir í blaðinu að reyna að láta Norðurljósið koma þá reglulega út á því ári. Í Mai-Júní blaðinu birtist þessi auglýsing. Trúaðramót við Ástjörn.
Þegar þetta tölublað kemur i hendur flestra lesenda, verður starfið við Ástjörn væntanlega byrjað. Drengjaflokkur á að dvelja þar 5. til 18. júlí og stúlknaflokkur frá 19. júlí til 1. ágúst.Hinn 19. júní 1947 skrifar Arthur trúbræðrum sínum í Englandi bréf þar sem hann segir meðal annars: Síðan jeg kom aftur til Akureyrar eftir stutta vitjun til Englands höfum við sjeð hönd Drottins vinna með okkur á eftirtektarverðan hátt. Brjef og heimsóknir sýna að bænum hefur verið svarað og sálir hafa vaknað. Á laugardagskvöldum síðastliðið haust byrjaði Sæmundur starfsfjelagi minn að hafa biblíunámshóp, sem hlotið hefur sjerstaka blessun. Ungt fólk úr sunnudagaskóla og börn trúaðra hafa verið leidd af Drottni inn á veginn og 12 tekið skírn og jeg vona að fleiri fylgi. Bróðir og systir í söfnuðinum eiga sex dætur. Hin elsta og yngsta voru þegar með okkur og nú höfum við þá gleði að sjá hinar fjórar skírðar og sameinast okkur við Drottins borð. Allar sex hafa hlotið gjöf söngsins og eru okkur til mikillar hjálpar á því sviði. Nokkrir nýir sálmar hafa verið þýddir. Mikil áhersla hefur verið lögð á að játa Krist og við höfum gefið þessum ungu lærisveinum sjerstakt námskeið í að ávinna sálir. Þrjár stórar vitnisburðarsamkomur hafa verið haldnar. Sautján hafa vitnað um afturhvarf. Á hvítasunnudag fengum við lánað kvikmyndahúsið fyrir sjerstaka samkomu. Yfir 300 voru viðstaddir og sýndu mikinn áhuga.Í bréfinu kemur einnig fram að þau hafi ferðast til þorpa í nágrenninu og haft með sér strengjahljóðfæri til að spila undir sönginn. Þetta unga fólk var góð viðbót og mikil lyftistöng fyrir söfnuðinn á þessum tíma og tók sumt þátt í starfinu við Ástjörn, til dæmis Bogi Pétursson í 44 ár þar af 40 ár sem forstöðumaður (Morgunblaðið 29. apr. 2008). María systir Boga var líka mjög dugleg ráðskona þar en hún varð skammlíf. Sumir í hópnum áttu ekki heima á Akureyri heldur voru í námi um veturinn. Aðrir fluttu seinna suður á höfuðborgarsvæðið og aðrir enn lengra. Ekki er mikið um heimildir hvort Arthur hafi ferðast eitthvað þetta sumar, annað en til Ástjarnar, en þangað skrifar Sæmundur honum 26. ágúst 1947 frá Akureyri, og sést þar að Arthur hefur verið að biðja um að sér yrði send myndavél. Sæmundur telur það tilgangslaust vegna veðurútlits en biður hann að sjá um að ekki verði skilið eftir skólp í fötum eða ílátum og einnig biður hann að heilsa Guðrúnu og Margréti. Að líkindum hafa einhverjir dvalið eitthvað eftir mótið, en nú skal greinilega ganga frá öllu undir veturinn. Flettingar í dag: 16 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 309 Gestir í gær: 23 Samtals flettingar: 150380 Samtals gestir: 28856 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 03:57:58 |
Tenglar |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is