Ferðin í kvöldkyrðinni til Kilmarnock gekk vel. Leið okkar lá um mörg þorp og framhjá mörgum bændabýlum. Við biðum litla stund á stöðinni, og þá brunaði lestin inn. Jeg fann svefnklefann, sem pantaður hafði verið handa mjer, og var hann búinn öllum þægindum. Jeg háttaði og svaf vært alla nóttina, þrátt fyrir skrölt hraðlestarinnar, uns þjónn kom með te og kex og sagði mjer, að lestinni hefði seinkað um hálfan annan klukkutíma, en mál væri samt komið fyrir mig að klæðast.
Brátt komum við til Kongskross-stöðvar (King´s Cross). Hjer var mikil ös. Jeg hafði lent í Bretlandi, einmitt þegar var versti tíminn til að ferðast. Fyrsti mánudagur í ágústmánuði ár hvert er almennur frídagur í Bretlandi, bönkum er lokað samkvæmt lögum, og allir sem vettlingi geta valdið, taka sjer frí og fara ýmist út í sveit eða til að heimsækja ástvini sína. Þetta var laugardagurinn á undan þessum frídegi, og sá dagur, er farþegastraumurinn nær altaf hámarki sínu á öllum járnbrautarstöðvum. Ekki bætti það úr skák, að þetta var í fyrsta sinni eftir stríðslokin, er menn gátu skemt sjer áhyggjulausir. Konskross-stöðin úði og grúði af ferðafólki.
Foringjanum úr sjóhernum, sem var mjer samferða til London, leist ekki á blikuna. Við þurftum báðir að komast á Stóru Vesturbraut (Great Western Railway) í Paddington, þar sem jeg ætlaði að ná í morgunlestina vestur til Bristol, en hann í einhverja aðra lest. Við komu okkur saman um að taka leigubifreið í fjelagi. Annar sjóliðsforingi vildi líka vera með. En hvernig í ósköpunum var hægt að ná í leigubifreið, þar sem mjög fáar voru í gangi, og fjöldamargir vildu fá sjer bifreið? Við höfðum svo mikinn farangur, að við komumst ekkert án bifreiðar.
Við gengum út úr stöðinni. "Jeg skal fara út í bæinn og leita að bifreið," sagði foringinn, "við fáum hana aldrei hjer!" En í því hann sagði þetta, stefndi bifreið beint að okkur, nam staðar, bifreiðarstjórinn hleypti farþegunum út og bauð okkur inn. Foringinn settist í bifreiðina steini lostinn, orðlaus. Hann vissi ekki, að jeg hafði falið þessa ferð Drotni og hafði rjett áður lyft hjarta mínu upp til hans í vandræðum okkar og beðið hann að láta okkur fá bifreið, svo að jeg næði vesturlestinni í Paddington. Jeg vissi sem sje, að kona mín og dóttir mundu bíða með óþreyju á stöðinni í Bristol. Jeg hafði talað við þær í símanum frá Prestvík.
Við komum til Paddington, og vegir okkar skildust. En hjer virtist vera jafnvel meiri mannfjöldi en á Kongskross-stöðinni. Við hvern burtfararpall stóðu mörg hundruð manns í röðum og biðu eftir að komast í lestirnar, - en þær lestir, sem jeg gat sjeð, virtust þegar troðfullar af ferðafólki! Járnbrautarþjónarnir voru enn flestir í hernum, og stúlkurnar sem áttu að flytja farangur fyrir fólk, voru alveg uppgefnar og rjeðu ekki við neitt fyrir þrengslunum.
Nú voru góð ráð dýr. Jeg beið við endann á langri röð af fólki, sem mjer var sagt, að biði eftir Bristol-lestinni. Alt í einu tók jeg eftir því, að fólkið við eina burtfararstöð var alt komið inn í lestina þar. Skyldi hún eiga að fara vestur? Jeg tók upp töskurnar mínar og gekk þangað. Já, þetta var Bristol-lestin, og eftir dálitla leit fann jeg eitt sæti, sem eftir var óskipað, meira að segja hornsæti, en þau þykja altaf skemtilegust.
Meðan lestin brunaði áfram gegnum akra og skóga Suður-Englands, virtist mjer nærri ótrúlegt, að jeg hefði daginn áður verið á Íslandi! Jeg hugsði um hinr löngu ferðir, sem jeg hafði áður þurft að leggja á mig til að komast á milli landa, og bar þær saman við þessa skemtilegu flugferð. Þegar komið var til Bristol sáust lítil merki þess, að járnbrautarstöðin hefði orðið fyrir loftárás, en það hafði þó komið fyrir. Þegar lestin nam staðar, leit jeg alstaðar meðal manngrúans til að koma auga á konu mína og dóttur, en sá þær hvergi. Svo gekk jeg ofan í neðanjarðargöngin undir járnbrautinni til að komast að aðalinnganginum, því jeg hjelt þær mundu, ef til vill, bíða þar. Nei, jeg sá þær ekki þar. Jeg var eðlilega mjög undrandi yfir þessu, og loks fór jeg þangað, sem jeg gat fengið leigubifreið, til að halda heim. Þar þurfti jeg að standa í röð, vegna þess að farþegarnir voru svo margir en bifreiðarnar svo fáar. Meðan jeg beið þar, sá jeg elstu dóttur mína koma hlaupandi til mín. Hún sagði mjer, að þær mæðgur hefðu ætlað að vera vissar um að mæta mjer og hefðu því beðið sinn við hvorn innganginn, því að þeir voru tveir. En í þvögunni höfðum við einhvern veginn ekki sjeð hvort annað. Svo fór hún til að leita að móður sinni, og bráðum vorum við öll komin í bifreið og hjeldum heim.
Við ókum um götur, sem jeg þekti mjög vel, en víða voru miklar eyður, þar sem áður höfðu staðið stórar verslanir, þar sem jeg var vanur að versla. Í götunni, þar sem við bjuggum, var mikill hluti húsanna þurkaður út, alt jafnað við jörðu. En í staðinn var kominn afarstór vatnsgeymir, á við stærðar sundpoll, og mjög djúpur. Nú var hann tómur, en á meðan á stríðinu stóð, var hann fullur af vatni. Þegar árásirnar voru gerðar fyrst, kom það æði oft fyrir, að vatnsleiðslan eyðilagðist snemma í árásinni, svo að ómögulegt var að fá vatn til að slökkva, þar sem hafði kviknað í frá íkveikjusprengjum. Höfðu langtum fleiri hús brunnið til kaldra kola af þessari ástæðu en annars hefði verið. Þessvegna gripu menn til þess ráðs, að gera hjer og þar um borgina stóra vatnsgeyma, óháða vatnsleiðslunni, sem stóðu fullir af vatni, svo að slökkviliðið gæti alltaf náð í nógu mikið af vatni. Þetta kostaði auðvitað mikið fje, en það bjargaði mörgum húsum, sem kviknaði í.
Næsti dagur var sunnudagur. Áður fyr hafði jeg æfinlega sótt samkomurnar í Stokes Croft Chapel, þar sem Georg Müller hafði starfað og prjedikað í mörg ár. En nú var þetta inndæla safnaðrhús eyðilagt og söfnuðurinn að nokkru leyti húsviltur. Þó kom hann saman í samkomuhúsi, sem hann hafði reist í fátækrahverfi einu þar í borginni, og kent var við Eugene Street, meðan leitast væri við að útvega annað hús eða byggja. Mjer voru sagðar hrífandi sögur af nóttinni, þegar Stokes Croft samkomuhús brann. Ungur maður, sem jeg þekti og hafði snúið sjer til Drottins og tekið kristilega skírn, meðan jeg var í Bristol síðast, var á verði þá nótt, ásamt öðrum, því að ungir menn í söfnuðinum höfðu tekið að sjer að vera á verði í húsinu, þegar loftárás var gerð. Hann og aðrir reyndu alt, sem mögulegt var, til að slökkva eldinn, en íkveikjurnar voru svo margar, að eldurinn breiddist út þrátt fyrir alt. Biti datt ofan á þennan unga mann og rotaði hann, svo að hann lá meðvitundarlaus þar, sem enginn sá til hans. Rjett áður en eldurinn náði til hans, hafði hann raknað við, og honum tókst að smeygja sjer gegnum rústirnar og komast út. Foreldrar hans sögðu mjer frá því, hvernig þau voru að leita hans þá minnisstæðu nótt. Öll Bristol virtist standa í loga, við og við hrundu stórhýsi og nýir eldar brutust út. Altaf voru sprengjur að falla með hræðilegum gný, og loftvarnarbyssur drundu stöðugt úr leynifylgsnum sínum kringum borgina. Jeg talaði við margt fólk um þetta og heyrði margar sögur, og jeg dáðist að því, hve þetta friðsama fólk virtist hafa tekið öllum þessum ósköpum með óbilandi kjarki og festu. Mun trú þeirra og traust á Drottin ekki hafa svikið þá þegar á reyndi.
Mánudaginn, sem var frídagurinn, sem jeg hefi getið um, fór jeg ásamt konu minni og dóttur til að skoða Bristolborg yfirleitt og vita, hvað hafði gerst í öllum þessum loftárásum. Við ferðuðumst með strætisvögnum hingað og þangað um alla borgina og sátum oftast á fremsta sæti á efra palli vagnanna, svo að við gátum sjeð vel út yfir göturnar og umhverfið. Alstaðar um borgina voru eyður, þar sem einu sinni höfðu staðið íbúðarhús eða verslanir. Í miðborginni voru heil hverfi algerlega auð, þar sem mörg stórhýsi höfðu verið jöfnuð við jörðu.
Næsta dag lögðum við hjónin af stað til suðuarstrandar Englands, til staðar, sem heitir Swanage. Þar er skemtilegur baðvistarstaður, og hafði kona mín útvegað húsnæði þar, hjá trúuðu fólki, til þess að við gætum hvílt okkur nokkrar vikur. Tvær dætur mínar voru þegar komnar þangað, og meðan við dvöldum þar, komu hinar tvær og voru þar um tíma hjá okkur. Þetta gerði dvöl okkar í Swanage ákaflega skemtilega, enda var margt, sem gerði hana minnisstæða.
Húsið, sem við dvöldum í, stóð í stórum aldingarði með alls konar trjám og runnum, blómabeðum og görðum. Oftast, þegar veður leyfði, borðuðum við úti í garðinum í sólskini, umkringd af blómum, meðan fuglakvak hljómaði í eyrum okkar. En við eyddum ekki mjög miklum tíma þar í garðinum, vegna þess að sjávarströndin dró okkur til sín. Vinir okkar höfðu leigt baðhýsi á söndunum, sem var svo að segja bækistöð okkar, meðan við vorum þar við sjávarsíðuna. Þar geymdum við alt lausadót okkar, og þar höfðum við borðáhöld og vistir, svo að við þyrftum ekki að fara heim til að matast. Nærri því á hverjum degi syntum við í sjónum, sem var orðinn dálítið volgur af sólarhitanum. Bráðum varð jeg brúnn á lit, og eins stúlkurnar allar.
Jeg varð að yfirgefa fólk mitt í Swanage tvo eða þrjá daga til þess að ferðast til Coventry, þar sem jeg þurfti að finna menn. Það var löng leið, og þegar jeg kom nálægt Coventry, nam jeg staðar í nærliggjandi borg, sem heitir Leamington, því jeg var hræddur um, að erfitt mundi vera að fá húsnæði í sjálfri Coventry, borginni sem var orðin fræg fyrir hina miklu loftárás, sem Þjóðverjar gerðu á hana. Þetta mun hafa rjett verið, því að jafnvel í Leamington, var naumast hægt að fá sjer náttstað. Jeg leigði bifreið og fór til gistihúsanna, hvers á eftir öðru, en alstaðar var fult. Loksins gat jeg þó fengið sæmilega gistingu á góðum stað.
Næsta morgun ferðaðist jeg með langferðabifreið til Coventry. Þessi borg leit ekki eins illa út og jeg hafði ímyndað mjer, og hafði jeg dæmt eftir ljósmyndunum, sem birtust í blöðunum, eftir að loftárásirnar höfðu átt sjer stað. Var það aðallega vegna þess, að víða höfðu menn reist bráðabirgða verslanir á auðu svæðunum, sem sprengingarnar höfðu skilið eftir. Húsin voru lítil, en þar sem mörg ár voru liðin, síðan jeg kom til Coventry, tók jeg ekki eftir breytingunni.
Ferðin frá Swanage hafði verið mjög tafsöm, og jeg hafði þurft að skipta nokkrum sinnum um járnbrautarlest til þess að komast til Coventry. Jeg afrjeð því að fara með hraðlest til London á heimleiðinni, því þaðan eru tíðar ferðir til suðurstrandar Englands. Þessi ferðaáætlun hafði líka þann kost, að jeg gat fundið son minn, sem þá var í borginni. Hafði jeg ekki sjeð hann, síðan hann var hjer á Akureyri í breska hernum. Jeg kom líka til vinar míns Livingston Hogg, radíófræðings, sem dvaldi um tíma hjá mjer á Akureyri, og mörgum er hjer að góðu kunnur.
Næsta dag komum við öll saman á heimili Mr. Hoggs til miðdegisverðar, og þá fylgdu sonur minn og kona hans mjer á járnbrautarstöðina Waterloo. Þar virtist mannfjöldinn engu minni en verið hafði frídaginn, sem jeg hefi getið um. Jeg var svo heppinn samt að fá sæti. Þegar jeg kom að húsinu í Swanage, var þar alt mannlaust, og var ástæða til þess. Meðan jeg var á þessu ferðalagi, höfðu stórtíðindi gerst. Stríðið á Kyrrahafinu var á enda, Japanir höfðu gefist upp. Þá höfðu menn verið kallaðir saman í skyndi víða um England til þess að halda þakkar-guðsþjónustur sama kvöldið. Var það einnig gert í Swanage, og var alt heimafólkið auðvitað á þessari samkomu. Jeg hafði orðið útundan, af því jeg var á ferð. En næsta sunnudag var haldin sameinuð útisamkoma allra safnaðanna á stóru túni nálægt borginni, þar sem menn þökkuðu Skaparanum fyrir friðinn, og þeir voru ámintir um að reynast hans maklegir. Þrjár dætur mínar þurftu nú að fara frá Swanage, en brátt kom hin fjórða og hafði með sjer vinstúlku sína, sem hafði átt þar heima. Veðrið var hið inndælasta, enda er Swanage, vegna afstöðu sinnar, mjög veðursæll staður. Skamt frá ströndinni var hægt að leika "golf" og fórum við oft til þess, þegar ekki var alt of heitt.
Á söndunum hitti jeg lækni einn, sem þekti mig af afspurn. Langaði hann mjög til þess, að jeg hjeldi fyrirlestur um Ísland fyrir gestum gistihússins, þar sem hann dvaldi. Jeg gerði það, og virtust áheyrendur hafa mikla ánægju af að heyra um landið.
Einu sinni fórum við í heimsókn til sumarbústaða "Krossfara" eins og þeir eru nefndir ("Crusaders"). Fleiri en hundrað ungir menn frá æðri skólum landsins voru þar samankomnir og höfðust við í tjöldum á mjög skemtilegum stað. Trúaðir kennarar og aðrir starfsmenn höfðu umsjón með þessu starfi. Gestunum var skemt með allskonar íþróttum og leikjum á daginn, og á hverju kvöldi var söngsamkoma og síðan stutt ræða flutt. Þeir, sem tóku þátt í þessu, voru menn, sem skildu æskuna og höfðu lag á að leiða hana til Krists. Einn starfsmaður ók í bifreið sini til Swanage til að fá mig til að ávarpa þennan hóp ungra manna. Jeg hafði ánægju af því, enda hefi jeg oftar en einu sinni verið fastur starfsmaður í slíku starfi, eins og jeg hefi lýst í ferðasögum mínum áður hjer í blaðinu.
Meðan jeg var í Swanage, fjekk jeg tækifæri til að flytja orð Drottins þar í borginni. Einn sunnudag var jeg líka beðinn að taka að mjer kvöldsamkomuna í þorpi, sem heitir Harman´s Cross. Það er inndæll staður í skóglendi, umkringdur af görðum og fögrum túnum. Eftir samkomuna töluðu tvær konur við mig. Önnur var rússnesk prinsessa, sem hafði flúið ættland sitt fyrir mörgum árum, þegar stjórnarbyltingin var. En mótlætið hafði orðið til þess að leiða hana til Guðs, og hún vitnaði um trú sína á Drottin Jesúm Krist. Hin konan var lávarðarfrú, ekkja fyrrverandi borgarstjóra í London, Sir Kynaston Studd, sem kunnur var fyrir áhuga sinn fyrir kristilegri starfsemi og líknarstarfi yfirleitt. Mun hann hafa verið bróðir A.T. Studd, sem var mjög kunnur trúboði í Afríku. Þessi kona var líka trúuð, og var ánægja að tala við þær báðar.
Seint í ágústmánuði snerum við hjónin heimleiðis til Bristol. Dóttir okkar og vinstúlka hennar fylgdu okkur eitthvað á leið, en þær hjeldu í aðra átt, þegar komið var á aðaljárnbrautina, því þær ætluðu að hjálpa til við "Krossfara"-starf meðal stúlkna, - sams konar starf og jeg hefi lýst, en við stúlkna hæfi. Við fengum ágæta ferð heim og rjett sluppum við óveður mikið. Þá nótt gengu þrumur og eldingar.
(Framhald).