Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2010 Apríl

26.04.2010 20:53

Ótitlað

                                                            Heyjað í Haukafelli

Þegar heyskap var lokið í Dældinni tók Haukafellið við, eftir að við fengum það.  Það var jörð sem komin var í eyði og bróðir minn hafði fest kaup á til að nota það með. Þannig  var hægt að fá meiri heyskap svo hægt væri að fjölga fénu. Bróðir minn Daníel Var fæddur 1915 og tók við búi af föður okkar 1938. Þá var faðir okkar 76 ára. Hann var 22 árum eldri en mamma. Og bjó þá orðið við skerta heilsu. Ég man aldrei eftir honum við heyskap í Dældinni. Hann gat ekki orðið ferðast á hestbaki vegna þess, að hann gekk með slæmt kviðslit. Hann sinnti þá heyskap heima fyrir þegar við vorum á engjum. Landareign jarðarinnar Haukafells var mest fjalllendi, töluverðu skógarkjarri og yngri björkum vaxið. Við þurftum nú aðallega á túninu að halda, sem var að vísu ekki stórt en munaði samt um. Fyrst var fremra túnið slegið þar sem þorp af tóftum minnti á þá tíð er héðan sást reykur úr strompi og ljós sást skína úr glugga á vetrarkvöldum, frá Rauðabergi séð. Einnig sást þvottur blakta á snúrum í björtu veðri. Nú var hér eitt lítið eyðibýli. Frá Haukfelli sást víða yfir sveitina. Mér finnst samt sveitin miklu fallegri utan frá sjónum séð og upp til fjallanna. Frá Haukafelli horft, ber mikið á aurunum, sem árnar úr dölunum hafa flæmst um og borið fram  á liðinni tíð. Fallegt er að horfa til Haukafells og  heiðarinnar, sem björkin prýðir, þótt enginn stórskógur sé.

Kostur var það við þessar engjar hve berjaland er nærri. Skrapp ég þá inn á hálsinn í matartímanum. Þar voru bæði bláber og krækiber, ekki samt í miklum mæli. Hundurinn Glói notaði sér það stundum líka, að skreppa inná hálsinn, þegar við vorum að slá og raka. Honum þóttu bláberin greinilega góð. Innan við hálsinn var gamla túnið sem einnig var slegið. Það var eins og djúpur hvammur og sést þaðan lítt til mannabyggða. Þar voru líka rústir því þar stóð bærinn fram til 1880. Heyrt hefi ég talað um tvennt er olli því að hann var færður fram fyrir hálsinn. Annað var, að jökullinn þótti nálgast hratt á skömmum tíma en hitt að Kolgrafardalsáin hafi tekið hann af. Sennilega voru þetta samverkandi þættir. Áin var nú samt ekki búin að brjóta allan bakkann niður, sem gamli bærinn hafði staðið á. Ég hugsa með undrun um, hvað hafi getað komið þeim, sem setti bæ þarna fyrst niður, til að velja þennan umlukta stað til aðseturs. Hvort að hann hafi sem minnst viljað sjá og vita til sinna nágranna. Ekki gott fyrir mig að giska á það, sem aldrei hafði nema gott og af góðum nágrönnum að segja. Þarna stóð bærinn fram til 1880. Fyrir framan hálsinn sást næstum yfir alla sveit og til hafs en innan við hálsinn sást enginn bær, aðeins yfir á Fláfjallsmýrina og Fláfjallið hinum megin við Kolgrafardalsána Jöklarnir eyddust mjög hratt á því tímabili sem ég átti heima á þessum slóðum og hafa eflaust haldið því áfram. Á fáum áratugum hafði jökullinn eyðst af stóru landflæmi er hann áður huldi.

Ummæli heyrði ég um það, að fyrrum hafi Haukafellsengjar verið fyrir vestan Fláfjall, þar sem jökullinn réði nú ríkjum á þessum tíma. Ekki veit ég hve sönn þau eru en í bithaga var slegið á Fláfjallsmýri og í höfðanum fyrir ofan bæinn. Svo var oft sóttur heyskapur austur í Grænukeldu í Holtalandi. Rekafjöru átti Haukafell fyrir  Borgarlandi. Borg átti aftur á móti skógarítak á Kolgrafardal, Borgarskóg í Haukafellslandi. Má af því marka að  myndarlegar hríslur hafi þá vaxið í Haukafellsheiði og Kolgrafardal eins og felst í sjálfu nafninu á dalnum. Einholt á 40 sauða göngu á Flánum vestan á Fláfjalli. Kannski er það gjöf til kirkjunnar í Einholti upphaflega.( Sjá Byggðasögu A-Skaft.) Mér varð oft hugsað til þeirra sem á liðnum tíma höfðu háð hér sína lífsbaráttu og lifað hér bæði súrt og sætt. Heyrt hafði ég að eitt sinn hefðu þrjú börn sömu hjóna veikst af barnaveiki og .verið flutt héðan í einu til greftrunar.Á okkar tíma hefur komið meiri hvíld frá farsóttum.Margur má þakka fyrir bólefnið.

15.04.2010 21:56

Ótitlað

                                                Fagur  sumardagur

Ótölulegur fjöldi grasmaðka er  komast á legg í túninu á Rauðabergi. Þeir hamast við að éta grasið sem á að vera aðalfæða mjólkurkúa heimilisins í vetur. Mjólkin er ein af aðalfæðutegundum heimilisfólksins svo þetta  horfir ekki vel fyrir fjölskyldunni ef hún vissi  hvað væri að gerast en hún veit ekki neitt um það. Átvöglin nota hvorki diska né hnífapör og ekkert glamur heyrist. og enginn veit að vetrarforði kúnna sé í hættu Skapari allrar fæðukeðjunnar og allra átvaglanna sá að við svo búið mátti ekki standa. Þótt að vinnukonustéttin á Íslandi megi heita alveg útdauð stétt, þá átti skaparinn alveg urmul af vinnukonum til að senda og stoppa veisluna hjá grasmöðkunum. Það voru kríurnar sem fengu boðsbréf í maðkaveislu. Þær urðu svo himinglaðar og þjöppuðu sér vel saman í einn ósigrandi, argandi og gargandi innrásarher. Þær voru alveg tilbúnar að taka í lurginn á hverjum sem dirfðist að valda ónæði.


Heimiliskötturinn hafði fengið sér göngutúr út á tún og upp í Grjót, sem svo voru kölluð, þar sem túnið lág næst fjallinu.

 Hann hafði fullan rétt á því. Þetta var nú hans tún því hann var jú einn af fjölskyldunni og hafði sitt heimilisfang á þessum bæ. Kríurnar höfðu ekki heimilisfesti á Rauðabergi en það var stutt fyrir þær að skreppa. Ég hugsa að þær hafi haft einhverja ömun af því, að kötturinn skyldi líka vera boðinn í veisluna. Kríur eru þannig að þær eru fljótar að hóta, öllum kvikindum á svæðinu stríði, og eins og inngróið í þær að enginn megi við margnum. Kötturinn trúi ég hafi hugsað í sínum rólegheitum, að gaman væri nú að fá nýjan kjötbita milli tannanna. Þótt það væri ekki búið að segja hann til sveitar, þá er nú alltaf skemmtilegra hjá sjálfum sér að taka og kjöt var ekki dagleg fæða. Hann gat nú líka verið snöggur og hremmdi einn óvininn sem hafði hætt sér of nálægt. Sjálfsagt hafði krían ekki komið svo nærri aðeins til að skoða upp í köttinn, heldur til að sýna honum í tvo heimana, geri ég ráð fyrir. Það óðu nú ekki fleiri ofan í hann, í það skiptið. Þetta var nóg í máltíð og vel það. Kríurnar hafa líka farið saddar og sælar úr boðinu og vetrarforða kúnna var borgið.

 

  • 1
Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 198
Samtals flettingar: 80125
Samtals gestir: 16734
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 00:19:56

Eldra efni

Tenglar