Þóra Guðrún Pálsdóttir

1918

Við lítum aðeins í dagbók Arthurs frá þessum tíma:

26.10. Aska fjell frá Kötlugosi svo að grund varð dökk.
24.11. Jóhann talaði, fullur salur.  

Um þetta leyti, í fyrsta  tölublaði  Norðurljóssins 1918, birtir Arthur grein með fyrirsögninni "Kol í kolaleysinu". Þar sem hún gefur innsýn í hvernig Guð hjelt starfseminni uppi og bætti úr þörfum sem sköpuðust af illu árferði, fram yfir það venjulega, þá er hún látin koma hér.  Margar sagnir eru til um það að ýmsir Íslendingar hafi líka reynt Guðs handleiðslu á óvenjulegan hátt þegar sérstaka erfiðleika bar að.  Slíkar sögur er alltaf trúarstyrkjandi að lesa eða heyra og vonandi verður þessi einhverjum til uppörfunar.  Irene segist muna óglöggt eftir þessum atburði, fjölskyldan var þá öll hér á Íslandi.

Kol í kolaleysinu
Nýárið byrjaði dapurlega.  Ekki var hægt að sjá hvernig eða hvaðan Drottinn mundi senda það sem við þurftum, til þess að halda starfinu áfram, - og til að lifa.  En ef við freistuðumst að efast um hjálp Drottins, þá var það ekki nema fáein augnablik, því  að endurminningar um gæsku hans og trúfesti á liðnum tíma ráku brátt allar efasemdir á flótta.
Húsið er mjög kalt og við höfðum lítið eldsneyti, enda eyddist meira en við gerðum ráð fyrir, þegar svörðurinn var keyptur í haust, sjerstaklega í samkomusalnum.  Peningar voru líka hjer um bil engir og nokkrar matartegundir uppgengnar hjá okkur.  En við báðum til Drottins á hverjum morgni, við húslesturinn, að hann vildi senda okkur það, sem við þyrftum, þrátt fyrir allt.  Miðvikudaginn þ. 2. janúar, meðan  var að vinna á skrifstofu minni, seinni hluta dags, var hringt í talsímanum og mjer tilkynnt að einhver í Reykjavík vildi tala við mig.  Mjer til mikillar undrunar, ávarpaði frakkneski konsúllinn mig og sagði, að franskt skip hefði komið frá Cardiff (í Englandi) og hefði nokkrar vörur meðferðis til mín.  Það voru 5 smálestir af kolum og einn böggul.  Hann bað mig um að gera ráðstafanir til þess að einhver tæki á móti kolunum.  
Jeg var eins og í leiðslu og skildi hvorki upp nje niður í þessu. Drottinn hefir í mörg ár, með ýmsu móti, sent mjer hjálp, oft úr óvæntum áttum, til þess að lifa og halda starfi mínu uppi, en jeg hef aldrei fyr fengið svona stóra gjöf, því að kol eru nú sjálfsagt 15 sinnum dýrari en á friðartímum.  
Jeg leitaði upplýsinga hjá kunnugum mönnum og komst að því, að það mundi vera ókleyft að fá kolin hingað nema með miklum kostaði, en að reykvískur maður ætti kol liggjandi hjer á Akureyri og væri það hugsanlegt, að hann vildi hafa skifti.  Jeg ráðfærði mig við umboðsmann hans hjer og hann brá strax við og símaði góðfúslega til Reykjavíkur.  Kolaeigandinn ljet mig taka fimm smálestir af sínum kolum hjer, en hann tók kolin mín, sem voru með frakkneska skipinu, í staðinn.  
Þegar jeg kom heim til mín beið símskeyti mín.  Var það frá London og þess efnis, að fimm smálestir af kolum og einn böggull hefði verið sendur til mín með frakknesku skipi frá Cardiff til Reykjavíkur. En nafnið sem var skrifað undir, er mjer öldungis ókunnugt.  Jeg hefi bók, sem jeg geymi í utanáskriftir allra þeirra manna, sem jeg hefi þekt eða haft viðskifti við í útlöndum, og jeg rannsakaði þessa bók til að vita hvort jeg fyndi ekki nafnið, en jeg fann það  ekki, og get ekki munað eftir neinum manni með líku nafni.  Hefi jeg því ekki hugmynd um, hver hefir sent mjer kolin og böggulinn.  Ekkert staðarnafn var á símskeytinu nema ?London?.  
Kunnugur maður hefði sjálfsagt ekki sent kolin til Reykjavíkur, ef hann hefði ætlað þau handa mjer hjer á Akureyri.  Hann hefir líklega ekki, eins og margir útlendingar, haft hugmynd um afstöðu kaupstaðanna á Íslandi og ekki skilið samgönguerfiðleikana á veturna hjer á landi.  En Guð vissi hvernig hægt mundi vera að koma því fram, og leiddi manninn þess vegna að senda kolin til Reykjavíkur.  
Jeg hlakka til að fá að vita, þegar póstur kemur frá Bretlandi, hvernig á öllu þessu stendur.
Fáum dögum eftir þetta, kom hafísinn.  Þá komu hin miklu frost, sem tóku landið heljartökum, svo menn geta ímyndað sjer, hve ósegjanlega þakklát við vorum fyrir þessa gjöf frá Guði.  Jeg seldi nokkuð af kolunum, og gat því keypt ýmsar nauðsynjar, sem okkur vanhagaði um.
Í sambandi við þennan atburð langar mig til að leiða athygli lesarans að nokkrum athugasemdum.
1.    Þó jeg hefði haft nóga peninga, hefði það verið ómögulegt að fá kol hjer á Akureyri, eins og allir bæjarbúar vita.
2.    Þó jeg hefði haft ráð á að panta mjer nokkrar smálestir af kolum frá Bretlandi, mundi það hafa verið ómögulegt að senda þau hingað til Akureyrar.
3.    Það er óskiljanlegt, að maðurinn, hver sem hann er, skyldi hafa vitað að frakkneskt skip lá í Cardiff, sem er langt frá London, og ætlaði til Íslands, þar sem siglingum er haldið leyndum, til að njósnarar geti ekki tilkynnt þær þýskum kafbátaforingjum.  Símskeytið, sem jeg fjekk, var ekki sent frá Englandi fyr en skipið var komið til Reykjavíkur, vegna þess að það gat um siglingardag skipsins.
4.    Það er óhugsanlegt, að maður, sem mjer er gerókunnugur, skyldi hafa fundið hvöt hjá sjer til að kosta svo miklu til að senda mjer þessa gjöf, nema hann hafi fengið sjerstaka, augljósa leiðbeiningu frá Guði.
5.    Það gat enginn nema Guð sjeð það fyrir, að ísinn mundi koma með miklar frosthörkur, og þó einhver hefði haft hugmynd um harðindi, þá mundi hann ómögulega hafa getað komið því í kring í þessum kringumstæðum, að jeg fengi kolin fáeinum dögum áður en ísinn og kuldinn komu.
6.    Enginn maður ber að neinu leyti ábyrgð á því, að sjá mjer borgið eða hjálpa starfi mínu, hvorki á Bretlandi nje annarstaðar.

Góðkunningi minn hjer í bænum, sem trúir ekki á persónulega bænheyrslu hins gæskuríka Himnaföður, segir að það sje ljett að útskýra hvernig jeg fjekk kolin, - það væri ekki annað en "telepati" (fjarskynjan), það er að segja, að hugsanir mínar í bænum mínum hafi verið eins og "þráðlaus símskeyti" andans, sem ókunnugi maðurinn hafi tekið á móti, skilið að maður, sem heitir Arthur Gook, á Akureyri, Íslandi hafi þurft á fimm tonnum af kolum að halda, og hagað sjer eftir því!!  Mjer finst það langt um skynsamlegra að trúa á himnaföðurinn, sem veit að vjer þörfnumst alls þessa? (Matt. 6.32), og á son hans, Jesúm Krist, sem hefir sagt: "Hvað sem þjer biðjið um í mínu nafni, það mun jeg gera" (Jóh. 14:13.), heldur en að trúa á slíkan heilaspuna.
Til þess að vita, hvort vinur minn tryði sjálfur þessari "teoríu" sinni, skoraði jeg á hann, fyrst hann þyrfti á kolum að halda, að reyna þessa einföldu aðferð og hugsa duglega um kolin, sem hann þyrfti að fá, og við skyldum þá vita, hvort hann fengi nokkur kol send sjer, eftir svo sem tvo mánuði.  En hann skoraðist undan því!
Sannleikurinn er sá, að bænir mínar, - svo að jeg tali hreinskilnislega hafa verið mjög ófullkomnar, og jeg játa það, að jeg hefi ekki haft neina stöðuga trú á því að Drottinn myndi senda okkur kol, en jeg hefi trúað því, að hann myndi bjarga okkur á einhvern annan hátt, sem jeg gat ekki sjeð fyrir.  En Drottinn hefir vitað um kuldann, sem var í aðsigi, og sendi kolin í tæka tíð.
Það er líka fróðlegt að athuga það, að einmitt á þeim tíma, sem óvinurinn mikli gerði ákafar árásir á starf Guðs hjer og ljet einskis ófreistað, að ófrægja mig, gerði vor kærleiksríki himneski Faðir ráðstafanir til þess að uppörva og styrkja þjóna sína og sýna þeim, hverju megin hann, Faðir ljósanna og Guð rjettlætisins, er.  Eins breytir hann við öll börn sín, sem hafa einlæga löngun til að gera hans vilja og varðveita hreina samvisku.  Æ! að menn gætu skilið það, að þeir sem hafa gengið Kristi á hönd, komast í samfjelag við hinn lifandi Guð, sem gætir þeirra sem væru þeir augasteinn hans!  "Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum." (Sálm. 2: 13.)
          
Hvernig  kolin komu
Nú hefi jeg fengið brjef frá manninum, sem sendi mjer kolin, sem sagt var frá í síðasta blaði.  Það sjest á því enn greinilegar, hversu Drottinn einn hefir hvatt hann og knúið hann til að styrkja þetta starf.
Brjefið byrjar þannig:  
"Jeg hefi ekki þá ánægju, að þekkja yður persónulega, en sambandið á milli okkar er ósýnilegt og eilíft." Því næst skýrir hann frá því, að honum hafi borist sú fregn, að hjer muni vera kolaekla, og hann hafi fundið sterka hvöt til að reyna að hjálpa mjer í þessum kringumstæðum.  (Hann hefir sjálfsagt heyrt eitthvað um starf mitt hjer, þó að við höfum aldrei þekst.)  Hvötin hefir orðið svo sterk og ríkjandi, að hann segist hafa fundið eins og hvíldi á sjer ábyrgð til að gera eitthvað, og þegar hann gat ekki fengið að vita um neitt skip, sem færi til Íslands, af því að siglingum er haldið leyndum, fór  hann beint til flotamálastjórnarinnar bresku og gekk fast eftir því, að hún benti honum á skip sem ætlaði til Íslands.  Það er allmerkilegt að flotamálastjórnin skuli hafa sint þessu á þessum stríðstímum, þegar hún hefur gríðarstórt og umfangsmikið starf á hendi á öllum höfum hnattarins.  En hún tók viðleitni hans vel, og ljet hann senda kolin til Reykjavíkur með frönsku skipi frá Cardiff.  Fyrst var ætlunin að senda þau með "Bisp", en því var breytt einhverra hluta vegna.  Síðar laskaðist "Bisp", og er ekki kominn af stað ennþá, þegar þetta er ritað.  Hefðu kolin verið með því skipi, veit jeg ekki hvenær jeg hefði fengið þau. - Víst er það, að jeg hefði ekki haft not af þeim á meðan á frostunum miklu stóð.  Einnig í þessu atriði sjest handleiðsla Drottins.
Nokkrir menn hjer í bænum, sem skilja ensku, hafa sjeð brjefið frá þessum manni og gætu vitnað um það, ef nauðsynlegt væri, að hjer sje sagt rjett frá innihaldinu.
Það er sannarlega betra að treysta hinum lifandi Guði til að bera umhyggju fyrir starfi hans, heldur en að vera að þröngva heimsins börnum til að gefa sjer fje, og hversu miklu líkara er það fyrirmynd nýja testamentisins.
Það er óyggjandi sannleikur, að fyrirheit Guðs getur ekki brugðist, og hefir aldrei brugðist.  Kristur hefir sjálfur sagt með skýrum orðum, hvernig þjónar hans eigi að starfa.  "Ókeypis hafið þjer meðtekið, ókeypis skuluð þjer af hendi láta", sagði hann er hann sendi hina fyrstu trúboða út. (Matt. 10:8.)  Og vjer sjáum dæmi Páls Postula, að þessi skipun hefur ekki átt eingöngu við þá, heldur og við alla þjóna Krists.  Heldur en að brjóta í bága við þessa skipun Meistara síns, vann Páll pstuli dag og nótt til að afla sjer viðurværis á meðan hann prjedikaði fagnaðarerindi Guðs í Þessaloníkuborg og Korintuborg.  (I. Þess.2.9; II. Kor 11.9).
Í Jóhannesar 3. pistli (7. og 8. vers) lesum vjer að sanntrúaðir menn eigi með fúsu geði að styðja þjóna Guðs "til þess að vjer verðum samverkamenn sannleikans", en ekki af neinni þvingun, beinni eða óbeinni. Guð sjálfur hefur, samkvæmt ítrekuðum staðhæfingum sjálfs frelsarans, tekið að sjer að sjá um, að þjónar hans verði ekki gleymdir, og mun hvetja hans sönnu börn til að veita þeim hagkvæma hjálp, eins og hann hefur gert í þessu tilfelli.
Menn ættu ekki að ímynda sjer, að þessi kenning sje fjarstæða, fyrir þá sök eina, að hún sje ekki vel þekt hjer á landi.
Það er enginn efi á því, að hún er rjett samkvæmt Guðs orði í nýja testamentinu og oss er það heilög skylda að fylgja henni, þrátt fyrir aðfinslur þeirra, sem ekki vilja haga sjer eftir orðum og kenningum Krists, þó að þeir telji sig kristna.
"Hví kallið þjer mig herra, herra, og gerið ekki það sem jeg segi?" (Lúk.6. 46.)


Flettingar í dag: 395
Gestir í dag: 144
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 80042
Samtals gestir: 16676
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 19:36:06

Tenglar