Þóra Guðrún Pálsdóttir

24. Árið 1933

Fyrsta heila vika ársins var jafnan vika bænar og þetta árið var engin undantekning. Ekki er ljóst hvert efni vikunnar var að þessu sinni en Arthur hefur fengið aðstoð nokkurra safnaðarmeðlima við samkomurnar eins og sjá má í dagbók hans frá þeim tíma:
2.1.     Mjög blessuð bænasamkoma um kvöldið.
3.1.     Sæmundur las hluta. Góð mæting.
5.1.    Árni las hluta.
6.1.    Kristján las hluta. Átti samræður við Jóhann á eftir.
7.1.    Jóhann las kaflana.
Áfram leið janúarmánuður og eins og ætíð nóg að gera hjá Arthuri. Samkomur voru haldnar og nokkrir safnaðarfundir. Einnig var Norðurljósið prentað þann 21. janúar.

Febrúarmánuður heilsaði með hríð og illviðri og tafðist Gullfoss vegna veðurs. Skipið kom 3. febrúar, degi á eftir áætlun, og með því bréf og aðrar sendingar. Næstu nótt vakti Arthur frameftir við að klára bréf sem fara átti með skipinu.  Sunnudaginn 12. febrúar er veðrið enn fremur slæmt en þá er blindhríð allan daginn. Ekki aftraði það þó börnunum frá því að sækja sunnudagaskólann, nokkuð mörg börn komu og sum þeirra komu einnig á samkomu um kvöldið.
15.2. Skrifaði bréf til trúaðra varðandi hvítasunnumenn (e. pentecostalists).
22.2. Samkoma kl. 8.30 (líklega um kvöldið) með skátum og foringjum í tilefni af afmælisdegi Baden Powells. "Góði Samverjinn."  Blessaður tími.  (Þá er orðið langt síðan sú setning hefir sést. Þ.P.)
27.2.  Fregn af andláti Þórðar Sigurðssonar. Sigurður hringdi.
Aðfaranótt 10. mars fór Arthur með skipi til Siglufjarðar. Þar náði hann að hitta þónokkrar manneskjur, meðal annars Jón frá Lónkoti, áður en skipið hélt áfram för sinni til Sauðárkróks en þangað var för Arthurs heitið.
11.3. Snemma á Sauðárkróki ... Ásmundur Eiríksson leit við á hótelinu ... Samkoma um kvöldið. Húsfyllir. Náðarsamleg hjálp.

Daginn eftir, sem er sunnudagur, vitjar Arthur nokkurra kunningja um morguninn og aðrir vitja hans seinnipartinn. Um kvöldið heldur hann samkomu þar sem umræðuefnið er meðal annars "Líf Krists". 133 manns voru viðstaddir og honum hlotnast "hjálp" við predikunina.  S.P. játast Kristi.

13.3.  Sigurður Þórðarson kom kl. 2. Fór með honum á sleða yfir vötnin að Egg. Gott veður. Bænir og tal við Sigurð um kvöldið.
14.3.  Fallegt veður, frost og sól. Talaði við Sigurð varðandi jarðarförina og fór í gönguferð með honum (Sigurður er þá nýbúinn að missa son sinn Þórð, ungan efnismann. Jarðarför hans átti að vera daginn eftir. Þ P.).
15.3. Snemma á fætur. Kláraði að undirbúa mig. Fólk fór brátt að streyma að. Svo margir komu, að jarðarförinni seinkaði um þrjár klukkustundir meðan fólk fékk kaffi og súkkulaði. Kistan var sett á sleða. Talaði fyrir utan, hjálpað af Guði. Síðan var  farið á sleða að Ríp. Hélt ræðu í kirkjunni (Síra Guðbrandur talaði fáein orð fyrst). Lagði út af sálmi 119.9-11. Greftrun nánast í myrkri. Þá til baka til Eggjar. Bæn með Sigurði.

Næsta dag fer Arthur ásamt fimm öðrum á sleða til Sauðárkróks. Það er kalt í veðri og þegar þeir nálgast bæinn fer að snjóa. Um kvöldið er hann með samkomu en fremur fáir mæta. Að lokum á hann bænastund með Sigurði áður en hann fer aftur heim til sín.

Daginn eftir, þann 17. mars heyrir Arthur af því að Dettifoss sé að koma til Hofsóss og hefur líklega hug á að komast með skipinu til Akureyrar. Hann ætlar að fara með mótorbát til Hofsóss en hættir við það þegar veðrið fer versnandi. Það hríðar alla nóttina og allan næsta dag og Arthur tekur lífinu með ró, situr við skriftir og fer snemma í háttinn.

Sunnudaginn 19. mars er komið hið fínasta veður. Arthur getur þess að Brúarfoss hafi komið klukkan hálf þrjú um nóttina og farið aftur, án nokkurrar aðvörunar klukkan átta um morguninn.  Ekki er ljóst hvort hann hefur hugsað sér að fara með skipinu. En hann fer í kirkju þar sem síra Hálfdán predikar og talar svo sjálfur um kvöldið í Templarahúsinu. Þar er góð mæting og Jón Þ. Björnsson biður Arthur að tala við börnin í skólanum daginn eftir.
20.3. Talaði við börnin í skólanum kl. 1.15. Góð athygli. Heyrði að Brúarfoss væri að koma aftur en skipið kom ekki. Fór í gönguferð. Það var kalt.
21.3.  Gekk upp á brekkuna. Fínn tími. Skrifaði fyrir Norðurljósið. Hringdi í Eric. Veðrabreyting. Hláka.
22.3. Mjög hlýtt í veðri. Brúarfoss kom við á leið frá Akureyri. Fór um borð og hitti Ebeneser. Sagði hann mér sína reynslu af Heilögum Anda.  Sambæn. Kaffi.  Sá Ásmund á samkomu um kvöldið.  Mjög blessaður tími. Fjallaði um "kærleika Krists".  Góð eftirtekt.
Enn bíður Arthur í nokkra daga eftir skipsferð. Hann fer í gönguferðir, heldur samkomur, hittir fólk, tekur ljósmyndir og fer í heimsókn á sjúkrahúsið þar sem hann syngur fyrir sjúklingana og heldur ræðu.  Það er ekki fyrr en 26. mars að Esja kemur og Arthur heildur áleiðis til Akureyrar ásamt Soffíu Jóhannsdóttur sem fer samferða honum.

Þann 19. apríl er árleg barnaveisla haldin að Sjónarhæð og taka 62 börn þátt í henni. Daginn eftir er sambærileg veisla haldin fyrir börnin í Glerárþorpi.

Um miðnættið, þann 20. maí,  leggur Arthur af stað til Reykjavíkur með  Dettifossi, til að taka þátt í  móti í Reykjavík.

Mót í Reykjavík 1933

                                                                                                                                 
Þann 25. maí klukkan tíu hefst mótið. Tuttugu og tveir eru viðstaddir. Arthur getur þess í dagbók sinni að Sæmundur hafði komið um nóttina með Íslandi. Klukkan þrjú eru um fjörutíu manns samankomnir og klukkan átta um kvöldið er salurinn nærri fullur. Arthur hittir marga vini sína, m.a. Ingibjörgu systur Jóns frá Lónkoti. Þennan sama dag fær Arthur fréttir af láti föður síns sem hafði dáið fimmta maí. Eric sonur hans símar til hans og lætur hann vita.

Næsta dag heldur mótið áfram. Arthur talar sjálfur á samkomum klukkan tíu og þrjú, "Mjög blessaður tími" segir hann og mikil hjálp.  Sæmundur talar líka á kvöldsamkomunni um Biblíuna.  Eftir samkomuna sinnir Arthur hómópatastörfum og fer seint að sofa.

Þriðja dag mótsins er dagskráin á svipuðum nótum.  Arthur segir að mikil hjálp hafi veist er  hann ræddi um starf  Heilags Anda í Söfnuði Guðs.  Hann gaf tíma fyrir spurningar á eftir.
 
Sunnudaginn 28. var lokadagur mótsins.  Tuttugu og þrír mættu á brauðsbrotningu um morguninn og Arthur talar um það í dagbók sinni að ánægjuleg stund hafi fylgt í kjölfarið. Fólk bar fram spurningar og einir þrír sögðu Arthuri að þeir hefðu frelsast.

Kennari og áminnandi


Í Rómverjabréfinu 12 kafla 6-8  segir Páll: "Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.  Sé það þónusta, skulum vér þjóna.  Sá sem kennir hann kenni, sá sem áminnir hann áminni."
   
Áður hefir verið minnst á að Arthur var í því, að taka fyrir kenningar  vissra hópa, svo sem nýguðfræði, guðspeki og andatrú, og var einnig ýmislegt að leiðrétta hjá þeim kristnu hreifingum sem þó settu Jesúm Krist á réttan stall sem Guðsson og frelsara heimsins.  Það er spurning hvort þeim, sem sem urðu fyrir áminningum hans fundust þær miklar náðargjafir.

Í riti sem heitir "Vottar Jehóva á Íslandi", stendur um brautryðjendur þeirra á Akureyri:

Árið 1952 var ákveðið, að leggja þyrfti meiri áherslu á boðskap fagnaðarerindisins á Norðurlandi. Þar mættu þau harðri andstöðu Bræðrahreyfingarinnar  (Plymouth Brethren) undir forystu breska ræðismannsins í bænum.  Hann átti sér marga fylgjendur og ýmsir fleiri lögðu við eyrun þegar hann réðst að vottunum í ræðu og riti.
Þannig var Arthur.  En það var nú ekki í fyrsta skipti í sögunni að mönnum hafi sýnst sitt hverjum um hegðun hinna og útlistun þeirra á Biblíunni.    
 
Tíminn leið og ungur maður, Ásmundur  Eiriksson sem Arthur hafði áður uppfrætt í andlegum efnum og skírt, ákvað að fara í biblíuskóla til Hvítasunnumanna í Noregi.  Hann var brennandi af áhuga og Arthur segir eða skrifar einhversstaðar, að þessi maður hafi sérstaka bænagáfu.  Honum leist ekki á að hann færi til Noregs en hinn fór og lenti reyndar í Stokkhólmi á biblíuskóla  hvítasunnumanna þar.

Hann kom aftur frá Stokkhólmi í desember 1932  eins og áður hefir verið minnst á, og gekk til liðs við Hvítasunnuhreifinguna.    
                               

Upp úr þessu spratt sundrung í hinni andlegu fjölskyldu, ekki ósvipað því þegar heimili gerist sjálfu sér sundurþykkt.  Þá líður engum vel  og kemur illa niður á þeim er ekki hafa óskað sér slíkra  aðstæðna, en fá engu um ráðið,  eins og oft á sér stað með börnin  þegar heimili leysast upp.  Það er meira mál en milli tveggja einstaklinga ef fleiri eru í heimili.  Sumir reyndu áreiðanlega að gera það gott úr þessu sem þeir gátu fyrir sitt leyti.    

En þeir menn sem Arthur deildi á, eða þeir við hann, á þeim tíma, munu flestir komnir yfir í annað lögsagnarumdæmi ásamt honum sjálfum.  Líklega er því einfaldast að hlýta ráðum síra Hallgríms  Péturssonar um þá sem gengnir eru af þessum heimi. Hann segir í fimmtugasta passíusálmi:

Forðastu svoddan fíflskugrein,
framliðins manns að lasta bein.
Sá dauði hefur sinn dóm með sér,
hver helst hann er.
Sem best haf gát á sjálfum þér.

Flettingar í dag: 447
Gestir í dag: 177
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 80094
Samtals gestir: 16709
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 22:38:31

Tenglar