Þóra Guðrún Pálsdóttir

19. Árin 1926 - 1927

1926
Andlega starfið gekk mjög vel um þessar mundir og allan veturinn. Á þessum tíma virðist hafa verið mikil hreyfing meðal fólks að játa Krist og þrá skírn og samfélag, þótt söfnuðurinn yrði aldrei fjölmennur á  Akureyri. Mun fleiri sóttu samkomurnar heldur en þeir sem gengu formlega í söfnuðinn.  Það var nú talsvert stórt skref að stíga á þeim tíma og þegar að því kom, að það þurfti að velja milli safnaðar hans og þjóðkirkjunnar, þá áttu sumir erfitt að ákveða sig og vildu helst vera í báðum.

Þann 28. janúar 1926 staðfesti Kirkjumálaráðuneytið Arthur  Gook sem forstöðumann Sjónarhæðarsafnaðar. Hann sinnti því starfi í rauninni áður, en með þessari staðfestingu fékk hann leyfi til að gifta og jarða sína safnaðarmeðlimi og því þótti honum rétt að sækja um þessi réttindi.  Safnaðarmeðlimir virtust hafa þráð að njóta hans þjónustu til þessara athafna og er það skiljanlegt þegar málið er krufið.  Það var óneitanlega pínlegt fyrir fólk, sem hafði hafnað barnaskírn þjóðkirkjunnar og líka að mestu leiti hundsað hennar messur en sótt guðsþjónustur hjá Arthur, að verða að lokum að leita á náðir þjóðkirkjuprests með hina síðustu þjónustu.  Það kaus fremur þjónustu Arthurs en annarra og því til staðfestingar geymdi Arthur hjá sér eyðublöð undirskrifuð af allmörgum safnaðarmeðlimum þar sem þeir óska, að hann mæli eftir þá látna.
 
Það var greinilega mjög mikið að gera hjá Arthur þennan vetur, þar sem nú líka útvarpsstöðin var komin inn í spilið, í viðbót við allt annað. Þann 26.febrúar 1926 stendur í dagbókinni: "Nóra kom, (það er skip) með bréf frá Evrópu, Asíu, Afríku, Ameríku og Ástralíu.", svo að Arthur hefur haft nóg að gera að svara þeim öllum.   Seinnihluta mars eru sex manneskjur sem taka skírn.

Hvað er að frétta af fjölskyldu Arthurs?
Þann 24 mars 1926 fæðist lítil stúlka sem fékk nafnið Olive Barbara.  Fæðingar höfðu gengið misvel hjá Florence en í þetta sinn gekk það eins illa eða verr en nokkru sinni.  Barnið lifði en móðirin var veik lengi á eftir.  Irene, elsta dóttir þeirra Florence og Arthurs, segist enn muna eftir því þegar læknirinn kom eitt sinn út frá mömmu þeirra, tók elstu börnin á tal og sagðist ekki geta borið ábyrgð á því að ekki væri kallað á föður þeirra.  Það hefur eflaust verið fljótlega framkvæmt eftir að læknirinn hafði ákveðið að svo skyldi gert.

Á sama tíma var mikið að gerast á Sjónarhæð.  Fimm manns tóku skírn frá 25 - 28 mars.  Þann 25. til 29. apríl er Arthur að talsverðu leyti hjá safnaðarbarni sínu, ungri stúlku sem lá helsjúk á banasæng sinni á Kristneshæli og gekk inn í nærveru Drottins þann 30. Jarðarförin fór fram þann 11. maí.

Í lok maí er Arthur að vinna að útgáfu Norðurljóssins og klárar mars-apríl- og maí-júníblöðin á fimm dögum. Líklega hefur hann verið að flýta sér að koma blaðinu frá sér áður en hann færi til Englands. Ekki er vitað hve lengi hann þurfti að bíða eftir ferð, eftir að hann fékk skeytið um líðan Florence konu sinnar en hann fer með Goðafossi frá Akureyri 5. júní, rúmum tveimur mánuðum eftir fæðingu Olive, og er kominn til Bristol viku síðar.  Þá er Florence á batavegi og allt í lagi með barnið.

Í júlí-ágústblaði Norðurljóssins 1926 segir Arthur:

Athugasemdir ritstjórans.
Eins og getið var um í síðasta blaði, fór jeg til Englands í júní vegna veikinda konu minnar.  Hún hafði verið verri en símskeytin höfðu tjáð mjer, en var á batavegi, þegar jeg kom til hennar.  Nú er hún orðin vel frísk aftur, fyrir Guðs náð, svo að jeg gat komið aftur til Íslands seint í nóvember mánuði.

Lesendur eru beðnir að afsaka það, í þessum kringumstæðum, að blaðið kemur svo seint út.  Úr þessum drætti verður bætt, svo fljótt sem unt er.  Jeg geri ráð fyrir, að blaðið haldi áfram að koma út árið 1927, og hefi jeg í hyggju þá að láta ferðasöguna mína koma, - eftir áskorun nokkurra  lesenda.

 
Í sama tölublaði má sjá eftirfarandi grein um útvarpsmálið:

Um Radiomálið.
Það gleður mig mikið að geta frætt lesendur um það, að radíóstöðin er nú orðin hjer um bil fullger.  Mikið fje vantaði, þegar jeg kom til Englands, en Guð hvatti þjóna sína til að styrkja fyrirtækið, svo að það var bráðum hægt að byrja verkið aftur.  Áður en jeg fór frá Englandi, fór jeg til London til að skoða stöðina, og sá hana "í gangi" ... Óhlutdrægir sjerfræðingar hafa verið fengnir til að athuga tækin og gefa skýrslur um þau, og hrósa þeir verki radíófræðingsins mjög og mæla hið besta með tækjunum.  Er því vonandi að þau reynist vel, þegar þau eru sett upp hjer á Akureyri.  Jeg býst við að þau fari að koma eftir nýárið.


Arthur er kominn aftur Reykjavíkur 23. nóvember og til Akureyrar sex dögum síðar.  Júlí-ágústblöð Norðurljóssins hafa því orðið langt á eftir tímanum, eins og fram kom hér á undan. Arthur er sjaldan iðjulaus og er ekki fyrr kominn til Akureyrar en hann er farinn að starfa á fullu. Fjórða desember taka þeir skírn Jón Stefánsson og Ásmundur Eiríksson sem seinna varð forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins.  Það er svo 19 des, sem Soffía Sveinsdóttir játar Krist og óskar skírnar og samfélags.  Það veittist henni annan febrúar.  Soffía varð seinna hjálparhella við að taka á móti árgjöldum fyrir Norðurljósið, tók við eftir að móðir hennar gat ekki lengur sinnt því.  Þær höfðu báðar flutt til Reykjavíkur.  

1927
Snemma í janúar bætast tveir menn við sem játa Krist og 23. janúar bætast tvær konur í hópinn.  Annan febrúar eru svo fjögur sem taka skírn.  "Blessaður tími" segir Arthur um það. Seint í mánuðinum fara fram kappræður milli Arthurs og Jakobs Kristinssonar guðspekings í samkomuhúsi bæjarins.  Umræðuefnið var "Með hvaða hætti kemur Kristur aftur?"  Í dagbókinni stendur þetta um fundinn:
Mikill fjöldi fólks, margir hurfu frá. Bæn. Mikil hjálp.  
Aftur stendur í dagbók 2. mars:
Guðspjall og kristindómur í samkomuhúsi bæjarins. 258 viðstaddir. Mikil hjálp.   
Enn leiða þeir Arthur og Jakob Kristinsson saman hesta sína þann 5. mars í samkomuhúsinu og þá er umræðuefnið endurholdgun.

Arthur er ánægður með samkomusókn næstu vikur.  Þá er ræðuefnið um Mannkynsfrelsarann, hvað hann segi, hvað hann hafi gert og hvað hann ætli að gera.  Þetta var hans ræðuefni í þrjá sunnudaga.  Um miðjan apríl hefir hann lokið við að undirbúa "Sæluríkt líf" undir prentun.  Svo tekur við vinna við Norðurljósið.  

Ekki er lífið þó eintóm vinna hjá Arthuri og hann virðist  í lok febrúar leggur fjörðinn og hann fer að hjóla á ísnum á reiðhjóli í yndislegu veðri. Þetta gerir hann tvo daga í röð og hefur án efa skemmt sér hið besta.

Seinnipartinn í júní fer Arthur í ferðalag. Siglir með skipinu Noru til Siglufjarðar og þaðan til Sauðárkróks. Þar fer hann í land og gistir yfir nótt. Síðan heldur hann ríðandi áleiðis til Hofsóss en gistir yfir nótt í Brimnesi. Daginn eftir heldur hann samkomu í Þinghúsinu á Hofsósi. Það var fullt. "Blessaður tími" segir í dagbókinni.  Hann gistir aftur í Brimnesi en fer næsta dag og heimsækir Sigurð á Egg í Hegranesi.  Þar minnist  hann á söng og samtal við Sigurð lengi frameftir. Ekki kemur meira fram um ferðina í dagbók Arthurs en heim aftur er hann kominn á miðnætti þann 12. júlí.

Í ágúst byrja ýmis tæki í útvarpsstöðina að berast og 9. september kemur Eric Hogg, radíófræðingurinn, til að setja upp stöðina. Í september-októberblaði Norðurljóssins segir Arthur þessa frétt af útvarpsstöðinni:

Síðan síðasta tölublað kom út, hefir útvarpsstöðin á Sjónarhæð haft próf útvarp nokkrum sinnum, en hefir orðið að hætta aftur um tíma.  Rafmagnið frá rafstöð bæjarins hefir reynst ófullnægjandi, svo útlit er fyrir það, að útvarpsstöðin muni ekki geta komið að fullum notum, nema hún hafi tæki til að framleiða eigið rafmagn.  Straumurinn frá rafstöðinni er mjög óstöðugur, einkum meðan margir nota raforku, og hefir þessi óstöðugleiki mjög skaðleg áhrif á stóru lampana í útvarpstækjunum.  Hafa fjórir þeirra skemmst við þetta.  Það er líka alveg ómögulegt að útvarpa stundum, þegar mikill ís er í ánni, því hann lendir í "túrbínunum" í rafstöðinni og gerir mikinn usla.  Stundum er og of lítið vatn, vegna mikils frosts.  Að öllu þessu athuguðu, sjáum við að það er nauðsýnlegt fyrir okkur, að reyna að fá okkur vjelar til að framleiða rafmagnið fyrir útvarpið.  Þá vonumst við eftir að geta útvarpað hvenær sem er og hvernig sem Glerá verður, og straumurinn verður líka jafnari, svo að engin hætta er á að hann skemmi lampana.  Radiofræðingurinn sem hefir verið hjer, er farinn til Englands aftur til að útvega tæki, í þeirri von að nóg fje verði fyrir hendi, þegar til þess kemur að kaupa þau.  Hann gerir ráð fyrir að koma aftur sem fyrst og koma öllu í gang að nýju.  Þá vona jeg að við mætum ekki fleiri stór-erfiðleikum, í framtíðinni.  Við höfum þurft að hafa mikla þolinmæði í sambandi við þessa stöð, en þegar hún verður fari  að starfa reglulega, verður það ómaksins vert og langt fram yfir það ...

Það er svo 29. nóvember sem í dagbók stendur.
Talaði við Eric  Hogg lengi frameftir, hann ákvað sig fyrir Krist.

Þegar við horfum til baka og hugsum um það mikla erfiði, fyrirhöfn og fjáraustur sem að engu varð, þegar leyfið til útvarpsreksturs á Sjónarhæð var afturkallað,  getum við þó huggað okkur við það, að það hafi þó ein sál sem að þessu verki vann, fundið frelsara sinn á þeim stað þar sem stöðin var reist.
Flettingar í dag: 395
Gestir í dag: 144
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 80042
Samtals gestir: 16676
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 19:36:06

Tenglar