Þóra Guðrún Pálsdóttir

17. Árið 1925 - Útvarpsmálið

Á fyrsta degi ársins gefur Guð Arthuri þá gleði að maður leitaði Drottins og þeir eiga langt samtal. Seinna í mánuðinum eru þrír sem taka skírn. Fjórða febrúar fer Arthur í Gagnfræðaskólann til að tala þar um líf Livingstone. Hann er líka að gefa út í tuttugu þúsund eintökum smáritið "Guð hefir til vor talað". Í byrjun mars eru fimm manns sem taka skírn og hin árlega barnaveisla er á sínum stað í mars.  Litlu seinna getur hann um nokkuð sem virðist ekki oft hafa hent, hann liggur í rúminu þrjá daga og er "mjög þreyttur" eins og fram kemur í dagbók hans. Seint í apríl eru fjögur skírð.

Næstu daga er Arthur upptekinn við bréfaskriftir.  Er sjálfsagt að hreinsa borðið hjá sér því nú er hann á förum með Botníu til Reykjavíkur en þangað kemur hann 29. apríl.

Líklega hefur aðalerindi Arthurs til Reykjavíkur verið að fá leyfi fyrir rekstri útvarpsstöðvar á Akureyri. Til að lesendur fái glöggvað sig á því máli birtist hér útdráttur úr grein sem hann birti í janúarblaði Norðurljóssins 1925:


ÍSLENDINGUM  BOÐIN  STÓRGJÖF.

"Þráðlausar" firðtalsstöðvar í hverjum  kaupstað og víða um sveitir.

Hið mesta undur nútímans, án nokkurs efa, er þráðlaust firðtal, eða "Radio".  Að maður gæti talað með eðlilegum málróm fyrir framan lítið tæki, sem hangir á þræði, svo að þúsundir gætu heyrt hvert orð sem hann segði, í margra mílna fjarlægð, án þess að nokkurt sýnilegt samband væri milli, er hugmynd, sem forfeður vorir hefðu eflaust litið á sem mestu fjarstæðu og hjegómadraum.  Þó er þetta orðinn hversdagslegur raunveruleiki ...

Meðan jeg hefi verið á Bretlandi, hefi jeg haldið fyrirlestra um Ísland í mörgum borgum, á Englandi, Skotlandi og Írlandi, stundum á mörgum stöðum í sömu borginni.  Jeg hefi líka sýnt margar skuggamyndir af fegurstu stöðum hjer á landi, og hjálpa þær til að eyða vanþekkingunni um Ísland og íslenska staðhætti, sem er víða alt of mikil.  Árangurinn af þessum fyrirlestrum, sem hafa verið fluttir við og við um hartnær 20 ár, er sá, að mjög margir í þessum löndum bera hlýjan hug til Íslands, enda hafa nokkrir fengið upplýsingar hjá mjer og síðan ferðast hingað til að kynnast landinu betur.

Meðan jeg var á Englandi í fyrravetur, bað ritstjóri einn mig um að rita grein um Ísland í blað hans.  Í greininni skýrði jeg frá hve landið væri stórt og strjálbygt, og samgöngur erfiðar, og endaði hana með þeirri athugasemd, að Ísland þyrfti, flestum löndum fremur, að fá Radiotæki til að bæta úr samgönguleysinu og öðrum erfiðleikum.  Greinin vakti miklu meiri eftirtekt en jeg hafði búist við.  Meðal þeirra, sem skrifuðu mjer um hana, var ekkja ein rík.  Jeg þekti ekkert til hennar áður, en hún bauðst til að hjálpa mjer að koma upp Radiostöð á Akureyri, ef aðrir vildu líka taka þátt.  Það var góð og guðhrædd kona, sem hafði verið að hugsa um að selja lítið hús, sem hún átti, og nota verðið til að styðja eitthvert gott fyrirtæki.  Þegar jeg hafði gefið henni allar upplýsingar, sem hún bað um, seldi hún húsið og sendi mjer fjeð með þeim ummælum, að hún vonaði að stofnað yrði til fyrirtækisins sem allra fyrst. Jeg sannfærðist þá um, að það væri Guðs vilji, að jeg reyndi að koma þessu mikla verki í framkvæmd.  Í fyrirlestrum, sem jeg flutti þar á eftir, og í fáeinum blaðagreinum, skýrði jeg frá því, sem stofnað var til, og margir gáfu sig fram, persónulega og skriflega, og tjáðu löngun sína til að styðja þessa viðleitni.  Sá jeg nú, að það mundi líklega ekki standa á fjenu, enda treysti jeg því, að ef fyrirtæki þetta væri Guði velþóknanlegt, mundi hann hvetja menn til að styðja það.

Jeg fór undireins að kynna mjer "Radio"mál með kostgæfni, en jeg vissi, að mjer mundi vera ómögulegt að afla mjer svo mikillar þekkingar, á svo stuttum tíma, að jeg gæti sjálfur útvegað öll tækin og komið þeim upp.  Til þess þyrfti aðstoð sjerfræðings.  Jeg sneri mjer því til manns, sem hefir unnið sjer mikið álit í þessari grein, bæði vegna þess, sem hann hefir skrifað um Radiomál, og einnig af því að hann varð fyrstur manna til að ná tali af Canadamönnum, frá Bretlandi, á tækjum sem hann hafði sjálfur sett upp.  Þessi maður er sonur gamals vinar míns, sem lengi hefir verið trúboði í Kína, en hefir starfað síðustu árin í Bretlandi.  Ungi sjerfræðingurinn tók málaleitun minni mjög vel, veitti mjer aðstoð sína og ráðleggingar og hefir gert allar nauðsynlegar áætlanir og teikningar.  Hefir hann einnig boðist til að koma stöðinni upp, hjer á Akureyri, þegar þar að kemur.


Það verður ekki nærri eins mikill vandi að koma viðtökustöðvum upp, úti um landið.  Ætlun okkar er, með tímanum, að setja upp viðtökustöðvar í öllum kaupstöðum og í mörgum sveitum þar sem hentugt þykir.  Á flestum stöðum verður eitthvert samkomuhús notað, og menn munu koma saman á ákveðnum tímum til að hlusta á.  Það er lítill vandi að sjá um slíka stöð, þegar hún er einu sinni komin upp, og mun hver meðal greindur maður geta gert allt, sem nauðsynlegt er.  

Auk fyrirlestra og hljóðfærasláttar, yrðu frjettir fluttar, og opinberar tilkynningar ef stjórnin óskar eftir því. Það er ósk mín, að fyrirtækið yfirleitt geti komið landinu að svo miklu gagni sem unt er. Til dæmis ef símslit yrðu,- eins og stundum á sjer stað um hávetur, og veldur miklum óþægindum, - myndi Radiostöðin að sjálfsögðu koma í skarðið.  Eins er hugsanlegt, að hún mundi geta flutt skeyti til nokkurra stöðva, þar sem engin Landsímastöð er fyrir.  Gæti það komið sjer vel í afskektum sveitum.  

Jeg er ekki í neinum vafa um, að Radio á sjer mikla framtíð hjer á landi, eins og annarstaðar, og þessi gjöf frá Íslandsvinum á Bretlandi mun eflaust verða til að koma málinu vel á rekspöl.

Jeg hefi sótt um leyfi til ríkisstjórnarinnar til að koma stöðinni upp, en þar sem hún hefir ekki ennþá ákveðið stefnu sína í Radiomálinu yfirleitt, verð jeg að bíða fyrst um sinn.  En varla getur lengi hjá því farið, að stjórnin átti sig á þessu mikilsvarðandi máli, og þá er erfitt að skilja að hún sjái nokkra ástæðu til að hafna þessari miklu vinargjöf frá velunnurum Íslands meðal Breta. Landið má ekki við því, margra hluta vegna.  Þó ekki sje litið á það, hversu mikil ánægjulind þetta getur orðið fjölda fólks, væri það mikilsvert að eiga þessi tæki til á afskektum stöðum, og þau yrðu ómissandi á Akureyri, ef símslit kæmu fyrir.  Og þetta alt er boðið oss fyrir ekki neitt.  Ríkið á ekki að láta neitt af hendi til endurgjalds.  Ekki er farið fram á neitt einkaleyfi, og fyrirtækið kemur ekki að neinu leyti í bága við fyrirætlanir eða starfsemi Landsímans í framtíðinni, - það verður honum aðeins til aðstoðar, að því leyti sem hann þarf að hagnýta hana.

Þessari gjöf fylgja engin ítök af hálfu gefenda og ekkert fjelag eða firma stendur í neinu sambandi við fyrirtækið.  Það er jafnvel ekki ákveðið ennþá, hjá hvaða firma tækin verða keypt.  Líklega verður valið hjá ýmsum firmum, það sem best þykir hjá hverju.

Leyfisbeiðnin verður líklega borin fram á næsta þingi, og "Norðurljósið" gengur að því vísu, að þingmenn taki málaleitun þessari með góðum skilningi og vinsemd.  

Ritstjórinn væntir einnig að lesendur ljái máli þessu fylgi sitt og greiði götu þess eftir getu, í sínum kaupstað eða sveit.


 Í febrúar-mars blaði Norðurljóssins þetta sama ár, segir Arthur:

Alþingið er ennþá að ræða stærri landsmálin, þegar þessi grein er skrifuð, svo að það verður líklega ekki hægt að fá hið umbeðna leyfi til að setja upp "víðboðsstöð" á Akureyri ... fyr en seint í marsmánuði eða jafnvel í apríl.  Allar horfur eru, að undirtektir verði góðar, enda er engin ástæða til annars.  Fjölmennur þingmálafundur hjer á Akureyri þ.20. jan. samþykti í einu hljóði áskorun til Alþingis um að veita leyfið.  

Ritstjórinn hefir fengið svo mörg brjef, víðsvegar að, um þetta mál, að honum er ómögulegt að svara þeim öllum persónulega, þrátt fyrir góðan vilja á því.  Hann biður brjefritarana að misvirða það ekki, að hann reyni að svara helstu spurningum í þessari grein, enda koma spurningarnar fyrir í mörgum bréfum.

Síðan fylgir greinargerð í löngu máli þar sem Arthur geriri nánari grein fyrir tæknilegri útfærslu málsins, en ekki verður farið nánar út í þær útskýringar hér.


 Í aprílblaðinu skrifar Arthur um Radio-málið:

Ritstjórinn hefir frétt frá þingmanni Akureyrar-kjördæmis, sem nú er á Alþingi, að ríkisstjórnin geti veitt leyfi til að reisa Radio-stöð hér á Akureyri án þess að málið komi fyrir þingið, þar sem ekki er farið fram á neitt sjerleyfi.  Hefir hann fengið loforð um, að leyfið fáist.  Fer ritstjórinn því suður seint í þessum mánuði, til að semja um aukaatriðin ...

Daginn eftir komuna til Reykjavíkur fór Arthur á Alþingi til að hlusta þar á umræður varðandi útvarpsmálið og einnig kemur fram í dagbók hans að hann hefur talað talaði við ýmsa embættismenn s.s. atvinnnumálaráðherra, fjármálaráðherra, kirkjumálaráðherra og bankastjóra. Þann 6. maí fær hann umrætt leyfi.
 

Þrátt fyrir þétta dagskrá í tengslum við útvarpsmálið gefur Arthur sér tíma til að hitta vini og kunningja. Hann hittir meðal annarra, Helga Tryggvason og Sæmund Jóhannesson og á með þeim löng samtöl og bænir. Einnig hittir hann síra Sigurbjörn Á.Gíslason og Ármann Kr. Einarsson og talar þess utan tvisvar hjá trúboðsfélagi kvenna. 

Kominn er hann aftur til Akureyrar 11. maí. Í þeim mánuði eru tvö sem taka skírn, annað þeirra er Sæmundur G. Jóhannesson.

Enn skrifar Arthur um útvarpsmálið í maí-júní blaði Norðurljóssins:  

Nú getur ritstjórinn loksins frætt lesendur sína um að leyfið sje fengið frá stjórninni til að reisa hina fyrirhuguðu útvarpsstöð á Akureyri.  (Á þingi og í leyfisbrjefinu sjálfu er "Radio" kallað "útvarp", svo að jeg býst við, að það heiti verði látið halda sjer í framtíðinni).  

Skilyrði leyfisbrjefsins eru mjög sanngjörn og er alt útlit fyrir, að gott samkomulag  haldist við alla, sem hlut eiga að máli.  

Þingið heimilaði stjórninni að veita fjelagi í Reykjavík sjerleyfi til að reka útvarp hjer á landi, en þetta kemur ekki í bága við útvarpsstöðina á Akureyri.  Jeg býst við, að góð samvinna verði milli stöðvanna, og hefir talast svo til, að Akureyrar-stöðin endurvarpi því sem Reykjavíkur-stöðin sendir út, þegar eitthvað sjerstakt er um að vera, svo að þeir, í nágrenni við Akureyri, sem ekki hafa svo sterk tæki, að heyrist vel frá Reykjavík, megi njóta útvarpsins þaðan, gegn um Akureyrar-stöðina.  Eins myndi heyrast betur, með þessu móti, alstaðar fyrir austan Akureyri ...


Þegar þessi grein er lesin til enda, þá virðist hilla undir, að einhverjar flækjur geti myndast í samstarfi þessara tveggja stöðva, þar sem önnur á að vera ókeypis en Reykjavíkur stöðina verður að borga fyrir að hlusta á.  Hins vegar virðist Arthur ekki hafa verið áhyggjufullur og er kominn á hraðskrið með að bjóða mönnum að útvega góð útvarpstæki.  


Í þessu sama blaði er smá grein sem heitir "Athugasemdir  ritstjórans". Hún hefst þannig:

Jeg biðst velvirðingar á því, að bið verður á útkomu blaðsins í sumar.  Er það vegna þess að jeg er nú á förum til útlanda, til þess að sjá um útvegun útvarps-stöðvarinnar fyrirhuguðu.  Vonast jeg eftir, að koma aftur til landsins í september, eða jafnvel fyr, og koma þá öll tölublöð þessa árgangs út, væntanlega fyrir árslok.  Fyrir Guðs náð hefi jeg aldrei svikist um að gefa út þau blöð, sem áskrifendur hafa borgað fyrir, þó að dráttur hafi stundum orðið, vegna nauðsynlegra ferðalaga ...


Júlí-ágústblað Norðurljóssins flytur þá fregn að ritstjórinn hafi verið í útlöndum, þar sem hann var meðal annars að útvega tækin í útvarpsstöðina:

Radiofræðingurinn, sem tók að sjer að smíða tækin, hefir unnið með miklu kappi, ásamt aðstoðarmönnum sínum, til þess að fullgera þau sem fyrst.  En margt hefir komið fyrir, sem veldur töf.  Verksmiðjur, sem áttu að smíða sjerstaka parta, hafa verið mikið lengur að því, en við var búist, svo að verkið hefir ekki getað haldið tafarlaust áfram.  Þegar þessi grein er rituð, er útsjeð um það, að útvarpsstöðin geti komið hingað fyr en í janúarmánuði 1926 ...


Í nóvember-desember blaði Norðurljóssins stendur þetta um Radio-málið: 

Útvarpsstöðin, sem nú er í smíðum í Englandi, hefir tekið mikið meiri tíma en gert var ráð fyrir í byrjun, enda hafa ýmsar óvæntar tafir komið fyrir.  Stöðin kemur líka til með að kosta töluvert meira en á var ætlað.  Samt er hún að verða fullger og verður hún flutt hingað og sett upp svo fljótt sem unt er.


Næst er minnst á útvarpstöðina í janúar-febrúar blaði Norðurljóssins 1926. Þar kemur fram að radiofræðingurinn hafi tilkynnt, að stöðin sé komin svo langt, að farið sé að gera tilraunir með hana.  Ekki er þó hægt að segja með nákvæmni hvenær hún kemur, því að ýmislegt vantar enn og þarf að kaupa þegar sjóðurinn leyfir.


Flettingar í dag: 366
Gestir í dag: 127
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 80013
Samtals gestir: 16659
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:39:41

Tenglar