Þóra Guðrún Pálsdóttir

Árin 1921 - 1922

1921
Sunnudaginn 6. febrúar eru taldir 123 samkomugestir á Sjónarhæð og tekið fram að Jóhann hafi talað og viku seinna er sagt að mikill fjöldi hafi mætt.  Eflaust saknar Arthur samt fjölskyldunnar sinnar.  Hann fer þriðja mars að hitta vin sinn, ferfætlinginn Jo.   "Skemmtilegur tími", er athugasemdin sem fylgir.   Svo skrifar hann Sæmundi 12. mars:  
Konu minni og börnum líður vel í útlöndum.  Jeg hafði blessunarríka ferð, sem varð mjer til mikillar gleði á ýmsan hátt.  Drottinn hefir blessað börnin mín mikið. Jeg held að elstu börnin þrjú hafi snúið sér til Krists.  Það er orðin sýnileg breyting á lífi þeirra og framkomu, sem ber vott um að þau þekki hann.  Þú veist að jeg þoli aðskilnaðinn betur, er jeg veit að þau reiða sig á Drottinn.  
Í byrjun mars kemur fram í dagbókinni að tólf ungir menn hafi komið til "test".  Líklega er Arthur að kenna þeim ensku. Farið er í sjúkrahúsið 5. apríl til að syngja fyrir sjúklingana og á barnaveisluna um miðjan apríl mæta 78 börn. Það er svo 12. júní að 5 manns taka niðurdýfingarskírn.   Það er vor í lofti í andlegum efnum og fólk játar trú. 

Ferð á Vesturland
Höfundi finnst nauðsynlegt að gefa lesendum innsýn í ferðalög Arthurs um sveitir landsins og þéttbýli, því hann fór í margar slíkar ferðir og það voru þær sem komu honum í kynni við land og þjóð. Því kemur hér nákvæm lýsing á ferðalagi sem Arthur fór í sumarið 1921 og stóð í rúman mánuð. Efnið er sótt í dagbók hans frá þessum tíma sem, eins og ávallt, er afskaplega stuttorð en þó nægilega nákvæm til að lesandinn áttar sig á því hve þétt dagskráin hefur verið.


19. júní. Arthur hefur í huga að ferðast en fær illt í augun svo hann hættir við að fara með skipinu Sterling þennan dag.  Virðist hann hafa ákveðið að fara í staðinn ríðandi þegar honum liði betur.
28. júní. Arthur fær send hross með póstinum.
29. júní. Einn hesturinn týnist og finnst ekki fyrr en um kvöldið.  Af þeim sökum seinkaði brottför langt fram á kvöld og lagði Arthur ekki af stað fyrr en undir miðnætti, eftir árangurslausa tilraun til að sofna og hvíla sig fyrir ferðina framundan.
30 júní. Kemur í Bakkasel og kaupir þar mat og fylgd yfir Norðurá af Halldóri bónda. Heldur síðan áfram til Silfrastaða og fær mat og gistingu þar.  
1. júlí. Fær fylgd yfir Húseyjarkvísl, sem var sögð slæm en var ekki svo slæm þegar til kom.  Yfir stóra Vatnsskarð í rigningu til Bólstaðarhlíðar, þar sem hann gisti.
2. júlí. Til Skagastrandar í góðu veðri. Gisting og góður matur.
3. júlí. Heldur samkomu á Skagaströnd kl.11 og á Blönduósi kl.5, þá undir berum himni af því að samkomuhúsið var of lítið.  "Skemmtilegur tími. Dýrð sé Guði."  
4. júlí. Frá Blönduósi til Brekku, Hólabaks og þaðan til Þorkelshóls. Það hefur greinilega verið áliðið þegar Arthur kom þangað því hann getur þess að hann hafi vakið fólkið.
5. júlí. Frá Þorkelshóli til Kothvamms. Hér er Arthur kominn á nýjan hest og getur þess að hann sé hastur en duglegur.
6. júlí. Til Þóroddsstaða þar sem hann gistir. Tveir Þingeyingar sofa í sama herbergi.
7. júlí. Frá Þóroddsstöðum til Guðlaugsvíkur.  Beðinn að koma að Stað. Spjallaði við bóndann á Fjarðarhorni á leiðinni til Borðeyrar.
8. júli. Frá Guðlaugsvík til Garpsdals.  Með ströndinni og síðan yfir Snartartunguheiði.  Heimsókn að Kleifum með Eggert Stefánssyni á leið að Garpsdal. 9 júlí. Frá Garpsdal til Kinnarstaða með viðkomu á Borg þar sem hann fékk góðar móttökur og mat.
10. júlí. Frá Kinnarstöðum til Brekku.  Seldi nokkrar bækur á leiðinni fyrir fjörðinn. Yfir heiði til Gufudalssveitar.  Var samferða Brynjólfi Björnssyni sem var á sömu leið. Þeir komu til Brekku um áttaleytið um kvöldið.
11. júlí. Frá Brekku til Vattarness. Hafði viðkomu að Kletti þar sem leitað var til hans varðandi lyf.
12. júlí. Fékk fylgd frá Vattarnesi til Litlaness og segir að slóðinn hafi verið skelfilegur. Segir einnig að 12 ára gömul stúlka hafi fylgt sér út í skóg til föður síns. "Lífleg fjölskylda."  Næst fer hann yfir Kjálkafjörð til Fossár.
13. júlí. Hélt frá Fossá snemma í rigningu yfir ós Vatnsár.  "Lof sé Guði".  Næst til Brjánslækjar þar sem hann fékk hádegismat en síðan villtist hann á leiðinni að Haga og kom seint þangað.
14. júlí. Frá Haga til Dufansdals með viðkomu á Krossi og Fossi.  Það var þoka og mistur alla leiðina að Fossi og  Arthur villtist á leiðinni.
15. júlí. Fer frá Dufansdal til Bíldudals í rigningu. Hélt samkomu á Bíldudal og það var góð aðsókn.
16.júlí.  Til Selárdals þar sem hann hélt samkomu. Það var betra veður og Finnbogi Jónsson var honum samferða frá Hóli í Bakkadal.  Arthur hélt samkomu í Selárdal. "Góður tími.  Þokkaleg mæting".  Hann nefnir að Björg og aðrir hafi verið veikir af inflúensu en hún kom á samkomuna þrátt fyrir það.
17 júlí.  Lagði af stað klukkan tíu um morguninn í úrhellisrigningu. Magnús frá Feigsdal beið hans á leiðinni.  Heimsókn í Feigsdal.  Þá til Hóls.  Síðan hélt Arthur samkomu á Bíldudal. "Margir komu, fékk mikla hjálp (Jóh.14.6)".  Eftir samkomuna fór hann í tvær heimsóknir.
18. júlí. Hitti nokkra sjúklinga en lagði svo af stað til Dufansdals.  Fékk fylgd uppá heiðina.  Það rigndi alla leiðina að Haga, svo Arthur hefur væntanlega verið feginn að fá góðar móttökur þar og einnig átti hann fínt samtal við Hákon.
19. júlí. Hákon lánaði Arthuri hvítt hross og fylgdi honum að Brjánslæk þar sem vel var tekið á móti honum.
20. júlí. Meðan Arthur beið eftir bátnum fór hann að skoða Surtarbrandsgil. Þar tók hann myndir og sýni.  Síðan las hann og átti samtal við síra Bj. Sæm. Enginn kom báturinn og Arthur fór snemma í háttinn.
21. júlí. Snemma á fætur. Báturinn lætur bíða eftir sér og Arthur dregur þá ályktun að Íslendingar séu allir veikir af Inflúensu. Hann gefst upp á að bíða og fer ríðandi yfir Þingmannaheiði og þaðan til Vattarness.  
22. júlí. Hann er kominn með slæmt kvef og til að kóróna ástandið er ákaflega hvasst og kalt úti. Eftir að hafa ferðast yfir tvö fjallskörð er honum færð flóuð mjólk að Kletti, þar sem hann sinnir líka sjúklingum. Síðan heldur hann áfram að Brekku.
23. júlí. Arthuri líður betur þegar hann vaknar um morguninn og heldur áfram ferð sinni. Halldór fylgir honum yfir Háls og upp næsta fjall. Aftur er orðið mjög kalt. Leit við að Hjöllum og var stoppaður  af manni á Kollabúðum sem bað hann um að líta á konu. Maðurinn fylgdi Arthuri að Hafrafelli þar sem þeir vöktu fólk upp. Svaf þar í pínulitlu herbergi.
24. júlí. Áfram er kalt og hvassviðrasamt á leiðinni að Borg. Þar heldur hann samkomu með heimilisfólkinu. Gistir að Múla og er greinilega seint á ferðinni því hann varð að vekja þar upp. Fær engu að síður góðar móttökur.
25. júlí. Fer frá Múla, yfir Krossadalsheiði að Guðlaugsvík. Stoppaði að Gröf til að síma.  Ennþá sami kuldinn úti.
26. júlí. Góður tími um morguninn áður en hann leggur af stað um hádegisbilið.  Langt stopp að Prestbakka. Hefur vindinn í bakið í þetta sinn og kemur klukkan átta um kvöldið að Fjarðarhorni.  Hann getur þess að kvöldmatur hafi ekki verið borinn fram fyrr en eftir ellefu því rafmagnið hafi bilað.
27 júlí. Arthur heldur enn á ný af stað um hádegið en gerir stuttan stans og fær mjólk að Staðarbakka. Kemur til Hvammstanga klukkan hálf sjö og þar er tekið vel á móti honum.
28. júlí. Hvíld. Hittir þó nokkra sjúklinga. Flestir heimamenn eru við höfnina og engin samkoma er um kvöldið en hann hefur söngstund með börnum í staðinn.
29. júlí. Til Kothvamms um morguninn. Betra veður.  Nokkur viðtöl.
30. júlí. Kaldur vindur aftur.  
31. júlí. Fer frá Hvammstanga með Helga. Skiptir um hross að Stóra Ósi. Gistir að Síðu.
1. ágúst. Kemur að Stóra-Vatnsskarði. Mjög kalt.  
2. ágúst. Til Bakkasels. Mjög kalt. Mætti Bjarna Tryggvasyni á leiðinni.  
3. ágúst. Bakkasel til Akureyrar. Áfram kalt.  


Ekki er ólíklegt að Arthur hafi verið feginn að komast heim á Sjónarhæð aftur, eftir að hafa verið á stöðugu ferðalagi í rúman mánuð.

Eftir heimkomu Arthurs úr vesturferðinni kemur hlé í heimildir til 27. október.  Þá er getið um að Mr. og Mrs. Svann  hafi komið.  Áður hafði Arthur sagt í bréfi til Sæmundar að hann ætti von á enskum hjónum til að starfa hér þegar þau væru búin að læra málið.  Þau hafa áreiðanlega verið hér um einhvern tíma.

Þann 17. nóvember kemur Helgi Tryggvason frá Kothvammi og er að líkindum ekki skemur en yfir veturinn.

1922

Ferð til Englands
Seinni partinn í mars 1922 er komið að því að Arthur fari til Englands að dvelja hjá fjölskyldu sinn. Leggur hann af stað 23. mars með skipinu Sterling sem lendir í stórhríð skömmu eftir að ferð hefst.  Líklega hefur gert vonskuveður því skipið lá í tvo daga við akkeri fyrir utan Siglufjörð. En daginn eftir er komið betra veður og skipið kemst að bryggju.  Um kvöldið, sem er sunnudagskvöld, er samkoma haldin í Saloon.
"Mikil hjálp" segir Arthur.  Þýðir sjálfsagt sama og innblástur.  Hann notar oft þetta orðtak er hann hefur verið að predika. 
Þann 27. er hann kominn til Hofsóss snemma með skipinu. Svo eru taldir upp viðkomustaðirnir: Kolkuós, Sauðárkrókur, Kálfshamarsvík, Skagaströnd, Blönduós, Hólmavík og Hvammstangi en þar fór Arthur í land og hitti Þórð og fólkið frá Kothvammi. Svo koma Borðeyri, Bitrufjörður og Reykjafjörður. 30. mars kemur Sterling til Norðfjarðar og Ísafjarðar. Þar hitti Arthur Ástmar Benediktsson en hann hafði verið í söfnuði Nisbets. Næsta dag er komið við á Önundarfirði, Dýrafirði, Bíldudal og Patreksfirði. Og áfram hélt ferðin, þann 31. er það Stykkishólmur og Ólafsvík en svo er Arthur loks kominn til Reykjavíkur árla dags 2. apríl.

Þar dvelur hann í um það bil þrjár vikur og er ekki iðjulaus fremur en fyrri daginn. Það eru samkomur í Bárubúð 4., 6., og 9. apríl.  Einnig heldur hann fyrirlestra, annan um andatrú og hinn um Luther.  Svo talar hann í Y.M.C.A  í Hafnarfirði 14. apríl:  "Troðið hús.  Góður tími." Þar næsta dag aftur á sama stað.  Talar yfir 500 börnum (sé það ekki prentvilla) í Y. M. C. A. og þremur dögum síðar, er annar fyrirlestur í Hafnarfjarðarbíó um andatrú. Hann heldur fleiri fyrirlestra en hefur þó einhvern frítíma því hann fer til Thoroddsen í te, til miðdegisverðar hjá Zimsen og til síra Bjarna Jónssonar.

Arthur stígur á skip 26. apríl og er kominn til fjölskyldu sinnar þann 5. maí.  Strax næsta sunnudag predikar hann að Birchfield. Já, Arthur er ekki iðjulaus frekar en fyrri daginn og hefur nóg að gera á Englandi. Tíminn líður hratt við samverustundir með fjölskyldunni, samkomur, ræðuhöld, ráðstefnur og ferðalög. Meðal annars heldur hann marga fyrirlestra um Ísland. Einnig heimsækir hann Swann hjónin sem höfðu verið hjá honum á Sjónarhæð.

Eftir fimm mánuða dvöl á heimaslóðum er komið að því að snúa til Íslands á ný. Arthur leggur af stað með Botníu þann 18. október og er kominn til Reykjavíkur fjórum dögum síðar.  Þar lendir hann í afmælisveislu hjá Ólafíu Jóhannsdóttur.  Hann getur um að Sæmundur hafi komið þangað líka og fóru þeir saman í gönguferð. Um kvöldið fer Arthur fer í K.F.U.M.  Svo heldur hann samkomu í Bárunni og Sæmundur er þar með honum.  Daginn eftir í K.F.U.K. Þar mættu um 100 stúlkur á aldrinum 12 ? 16 ára.  Þá talar hann næst í Góðtemplarahúsinu, þar næst á Grund.  Þar næst talar hann í K.F.U.K.um heiðingjatrúboð.  Hann fer aftur til Ólafíu Jóhannsdóttur á sameinaðan trúboðsfund og daginn eftir í K.F.U.M.  Þar talar hann út frá Róm: 1-15-16, um sigurför kristindómsins.  Daginn eftir til Guðmundar Gamalíelssonar til að tala við hann um Ensk-Íslenska orðabók.   Á eftir, göngutúr með Sæmundi. 

Áfram líður tíminn við samkomuhald, fundi og heimsóknir og Arthur leggur ekki af stað norður til Akureyrar fyrr en 16. nóvember og er kominn þangað þremur dögum síðar. Á leiðinni norður hittir hann Sigurð Jónsson á Þingeyri og Ástmar Benediktsson á Ísafirði. Allt er í góðum gír framvegis í starfinu á Akureyri. 


Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 79946
Samtals gestir: 16641
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 14:25:44

Tenglar