Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2009 Júní

03.06.2009 21:26

Hross handa börnum

Löngum hafa hrossin verið miklir vinir mínir og snemma komst ég uppá að sækja þau og sendast á þeim.  Þau voru svo spök í haga og þjál í meðförum að mestu klaufar gátu náð þeim og sótt þau. Einhver fyrsta útreiðin mín sem ég man eftir var kirkjuferð okkar mömmu eitt sinn um vor. Það voru helst fermingarnar sem drógu fólk af stað til kirkjunnar og þær voru á vorin. Þá var líka hægt að fara ríðandi og við vorum nú frekar afskekt. Veit ég ekki hvort heldur var, að prestinum fyndist það algjör óþarfí að messa mjög oft eða fólkið hafi verið búið að sýna svo lítin áhuga á  að sækja messur að hann hafi þessvegna ákveðið að leggja ekki þyngri  byrðar á lýðinn en hann fyndi sig geta risið undir. Eiginlega man ég lítið úr þessari kirkjuferð nema mig minnir við verða samferða Holtaselsfólkinu og einnig Dagbjarti og Petrúnu frá Heinabergi einhvern hluta leiðarinnar. Ég man þó hvað Lilja gamla sem ég sat á var þýð og skeiðaði hart, að því er mér fannst. Eitthvað rámar mig í að Dagbjartur hafi verið á eftirtektarverðum hesti.

 

Ég mun hafa verið á sjötta ári þegar ég var send austur að Viðborði. Sá bær er um klukkutíma gang frá Rauðabergi. Ég var send með rúgbrauð til að fá það bakað í rafmagnsofni því að þar var lítil heimarafstöð. Mér þótti mikið til koma að vera álitin fær til þessarar ferðar. Ég fór fyrst til hrossanna til að sækja mér hest. Sá ég þá stjörnótt folald hjá Lilju. Auðvita fannst mér Stjarni litli undurfagur en ekki veit ég hvort okkar Bleiks var hrifnara.Ég lagði nú beisli  við Bleik. Það var myndarlegur hestur á velli og mjög kviðmikill. Höfðu sumir að spotti og sögðu hann fylfullan. Mér þótti undur gaman að koma að Viðborði og hitta telpurnar þar, Ingu og Hlíf, sem voru á líku reki og ég. Ég sagði nú tíðindin af foaldinu, Þá sagði bóndinn, að þar hefði ég verið heppin, því ég sé eigandi að foaldinu, þar sem ég hefði séð það á undan öðrum. Ekki veit ég nú hvort ég trúði því en þessi ferð tókst vel hjá okkur  Bleik og hann skilaði okkur með sóma heim aftur.

 

Einu sinni kom ég á honum að Seli. Þá mun það hafa verið Björg sem spurði mig að því er ég var að fara á bak, hvort hann væri latur. Ekki hefur hann nú verið það sagði ég og tók upp þykkjuna fyrir klárinn. Sannleikurinn var auðviðað sá að hefði hann verið bráðviljugur, þá hefði hann ekki verið sá barnahestur sem hann var. Hefði hann verið letingi þá hefði hann ekki heldur verið heppilegur. Hann hafði eitt sinn verið lánaður í læknisvitjun og orðið innkulsa. Eftir það sótti á hann svo hræðileg mæði. Ég man hvað ég kenndi í brjósti um hann er ég reið honum í samreið heim af engjum. T.d. frá Seli og uppá Melsenda, sem var upphleyptur vegarspotti en ekki langur. Hve hann var þá skelfilega mæðinn er þangað kom, því ekki vildi hann nú dragast aftur úr hinum hestunum.

 

Bleikur var eiginlega giftur rauðri hryssu sem hét Lilja. Hann var hræddur um hana fyrir öðrum klárhestum. Ókunnuga hesta rak hann burtu og hræddi þá. Þótt hann væri í hafti og svona slæmur fyrir brjósti þá setti hann það ekki fyrir sig. Lilja eignaðist nokkur folöld sem Bleikur unni mikið þótt hann væri bara fósturfaðir. Ég man eftir Brúnku, Létti og Stjarna. Bróðir minn fékk Brúnku, hún var undan Blakk frá Árnanesi og hafði fengið 1 verðlaun á  hrossasýningu. Þá held ég að það hafi aðeins átt við útlitið. Það var ekki verið að keppa í hæfileikum á fyrstu hrossasýningunum. Pabbi gaf mömmu Létti Hann var undan Bráni frá Árnanesi. Mér er minnisstætt hve hann lék sér mikið sem folald. Þó varð hann ekki bráðviljugur en gangurinn varð tölt og skeið og ekkert út á það að setja. Hann var seldur þegar ég var 12 ára. Hann átti að fara eitthvað austur á land og ég var send með hann út að Stórabóli. Hann hefur sennilega átt að fara með póstinum. Ég skilaði honum þar með tárin í augum. Vildi alls ekki koma inn þótt mér væri það boðið.

 

 Yngstur af systkinunum var Stjarni. Faðir hans var bráðviljugur foli á næsta bæ. Lilja var orðin gömul og átti ekki að verða fylfull. En Guð vildi gleðja litla stelpu með því að gefa henni folald. Sjálfsagt hefur engan folatoll þurft að greiða því folinn hafði ekkert leyfi til að fylja hryssuna. Stjarni var dökkrauður með stóra skástjörnu í enni og grátt fax og tagl.


Stjarni litli var óþægur við mig sitt fyrsta sumar. Nennti oft ekkert að fylgjast með mömmu sinni. Það kom sér illa þegar þurfti að nota hana á engjarnar. Þar fyrir utan var hann oftast þægur og hrekklaus og mjög þýðgengur þegar að tamningu kom. Aðalgangur hans var tölt en hann var helst til stuttstígur og drógst því aftur úr ferðmeiri hestum.

 

Mér fannst það leiðinlegt. Hann bar höfuð hátt en ganaði nokkuð og náði því ekki fyrsta flokks höfuðburði. Hann var alltaf ljúfur í skapi og ferðafús. Gat verið útsjónarsamur fyrir sjálfan sig. Ég fór stundum á honum niður að Holtaseli og meðan ég stoppaði þar smeygði ég taumnum upp á tréhæl sem hafði verið rekinn niður í grasi gróinn garðvegg. Þannig urðu hestarnir að gera sér að góðu að bíða eftir knapa sínum á meðan hann þáði kaffi og kökur í eldhúsinu. Stjarni fann upp það þjóðráð að draga hælinn upp með tönnunum og beita sjálfum sér í túnið á meðan. Allir vissu á þeim árum að það tilheyrði ekki mannasiðum að beita hrossum í tún náunga síns. Taðan var ætluð mjólkurkúnum á veturna.

 

                                      

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 467
Gestir í dag: 195
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 80114
Samtals gestir: 16727
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 23:53:12

Eldra efni

Tenglar