Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Júní

25.06.2008 21:52

EINDÆMIN

                   EINDÆMIN  ERU  VERST

 

Það reyndist nú ekki vera einsdæmi sú afskiptasemi um höfuðskýlur, sem um var rædd í seinasta pistli.  Í Öldinni átjándu 1761-1800 fann ég eftirfarandi.

 

                   HEIÐURS KVENFÓLK  Í  FYRMANNARÖÐ

 

1798. Varla er nokkur svo tilfinninga og þekkingarlaus, að hann í alvöru geti játað skautfalda og kvenhempur vera svo náttúrlega og snoturt löguð föt, sem laglega prýða megi vort kvenfólk.

Þegar nú hér við bætist, að klútar dúða andlit kvenna út, hylja allt ennið á þeim, sem neðarlega binda, eða mynda úr hvassan þríhyrning, sýnist sem andlitsins veglegasta sköpun verði þar við undravansköpuð - ekki að nefna þann heilsuspilli, sem harðar reyringar um höfuðið og þessi of heiti og óskynsamlegi útbúningur, virðist eftir allra lækna reglum, að orsaka, höfuðveiki, brjóstþyngsli, gáfnadeyfð, þungsinni og dofinleika og margt annað illt, ekki síst þegar hér ofan á sezt fjögurra til átta ríkisdala höttur, sem með silkjum reyrir höfuð og háls eins stíft eins og þó spelkur stæðu við.

 

Nú veit ég að margt það af fyrirfólki , sem fúst væri á. Í sameiningu með fleirum, undir eins að taka upp.hatts og danskrar húfu- og frakkabúning  (og hversdagslega fallega bláa húfu með vænum skúfi), en öldungis afleggja falda, hempur og allt kvensilfur.  Því er min þénustusamleg bón til útgefara Tíðindanna eða Gamans og alvöru, að hann í öðru hvoru þessara rita vildi bjóða á prenti heiðurskvenfólki í fyrirmannaröð að leggja saman til að taka upp fyrrtéðan búning fyrir 1. janúar 1801 . svo að hann, þá tólf eða tuttugu væru hér um samtaka orðnar, gæti til annarra upphvatingar auglýst í Tiðindunum listhafenda tölu (enn ei nöfn), sem frá nýári 1801 áforma að hefja sig yfir hleypidóma og til hins betra breyta ónáttúrlegum og afskræmandi, dýrum búningi.

28. júlí 1798

 

75081063.

 

Með samþykki hins umbeðna og auglýsingu þessa tilboðs í Gamni og alvöru fullnægir hér með herra 75081063 ósk

                            

                                      Magnús  Stephensen.

Þetta hefi ég reynt að skrifa orðrétt upp úr Átjándu öldinni(Þ.P.)

Fleiri hafa fundið nauðsýn á að ráðleggja kvenfólki í sambandi við klæðnað.

Ekki ómerkari maður en Páll postuli taldi nauðsýnlegt að gefa ráðleggingar um þá hluti ásamt mörgu öðru sem snerti samkomur frumsafnaðarins.  Hann virðist taka í sama streng og síðasti ræðumaður um að búningurinn eigi að vera sómasamlegur en ekki of dýr.

 

Hann er að skrifa Tímóteusi samstarfsmanni sínum og syni í trúnni.  1. Tím 2.8. ,, Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.  Sömuleiðis vil ég að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka."  Sumum kvenréttinda konum er nú lítið gefið um Pál en mér finnst hann ágætur

 

Pétur er nú á svipuðu róli og Páll.  Hann segir í fyrra bréfi sínu 3.1- ,,Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.  Skart yðar sé ekki  ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegu búningi hógværs og kyrrláts anda.  Það er dýrmætt í augum Guðs.  Þannig skreyttu sig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs.  Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra."

 

Með því að lesa um þau hjón í Gamla testamentinu Söru og Abraham þá er sagt frá þremur tilfellum sem hún hafi orðið við óskum hans en hann hafi orðið við óskum hennar tvisvar og í annað skiptið gekk Guð sjálfur í málið og sagði Abraham að hlýða konu sinni.    Að líkindum hefur  Pétur haft aðrar og meiri heimildir um ættmóðurina Söru og að þar hafi verið getið um að hún hafi kallað Abraham herra.  Þar sem Pétur var sjálfur karlmaður og líka þekkt aðra karlmenn, þá hefur hann verið í góðri stöðu til að ráðleggja konum, hvernig best væri að komast af við þá, þannig að hlutirnir færu á besta veg.

21.06.2008 00:17

Ótitlað

                        Stríð við Skýluklúta.

 

Það er með  mörgu móti hægt að koma sér upp óvinum.  Ég heyrði

Í útvarpinu um daginn, eða sjónvarpinu, að Frakkar séu stórreiðir út í skýluburð kvenna og vilji alls ekki að konur noti þann búnað til þess að  skýla sér með.  Það eru nú ekki svo margir áratugir síðan að klútar og sjöl tilheyrðu ígangsklæðum kvenna hér á landi.  Ég man ekki betur en að frænkur mínar væru með ljósar léreftsskýlur úti á túni við heyþurk þegar ég var unglingur.  Að vetrinum dugðu nú ekki annað en þykkari sjöl eða klútar. Þetta var svona og enginn stökk upp á nef sér útaf því.  Ef til vill er þetta upphlaup á okkar tíma runnið frá rótum kvenna og þær fengið karlmenn í lið með sér.

 Það verður sjálfsagt naumast sagt að skýlan geri nokkra konu fallegri en þær um það.  Einhverntíma stóð þessi setning í íslensku ljóði:  ,,Fegurð hrífur hugann meir ef hulin er".  Ef útlendar konur langar til að varðveita venju frá heimahögum sínum þá finnst mér nú nær að reyna að venja þær af að umskera dætur sínar, heldur en að vera að æsa sig út af því, sem þær bera á höfðinu, sér að skaðlausu.  Sumir vilja meina að skýlan eða slæðan sé trúartákn þessara kvenna en af hverju geta hinir aðrir ekki borið trúartákn sín eða merkt sig öðruvísi ef þeir eiga enga trú og allir svo unað við sitt?

 Guð bauð Ísraelsmönnum svo í þriðju Mósebók 19 k. ,,Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér ekki sýna honum ójöfnuð.  Útlendan mann, sem  hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.  Ég er Drottinn, Guð yðar."

 

 

 

 

 

 

                                                                                                              

 

 

 

                    

 

14.06.2008 23:23

Ótitlað

                        UPPÁÞRENGJA  KVÖDD

 

Hún býður ekki lengur góðan dag á morgnanna með eins atkvæðis mjálmi sínu, og við sjáum bæði eftir henni því hún var skemmtileg.  Ég finn nú til léttis aðra röndina því mér fannst hún binda mig, frá því að geta farið að heiman hvert sem væri og hvenær sem væri.  Það hefur margur þurft að kaupa frelsið dýru verði.  Hún var farin að leyfa sér hluti sem enginn skyldi leyfa sér, þar sem hann er heimilisfastur. Hún var farin að pissa ítrekað í gestarúmið þótt að hún hefði hreinan sand í kassa sínum.  Ég skildi það þannig að nú ættum við ekki að hafa kött lengur.  Var orðin á nálum með að þetta færi í nýja dýnuna, hjá henni.  Ég var líka búin að fara með sængina í hreinsun og láta aðra sæng í rúmið, sem ég gæti þvegið í þvottavélinni.  Það sýndi sig líka að eigi veitti af þeirri fyrirhyggju.                                                                                                                                                  

Ullarteppið mitt góða sem breitt var yfir rúmið hefur ítrekað farið í þvottavélina. Ég elska íslenska ull.  Ég  klemmdi teppið úti á svölum eftir þvottinn, til að fá nú virkilega gott útiloft í það.  Morguninn eftir hrekkur Ásgrímur upp við endurtekið bank en veit fyrst ekki hvaðan það kemur.  Enginn sjáanlegur við útidyrnar.  Að lokum skilst honum það vera frá svölunum og mikið rétt. Þar stendur þá einn pólverjanna sem eru að vinna hér í byggingunum.  Nú eru þeir byrjaðir að slípa svalirnar hjá fólkinu í þessu húsi og þá  leggur mökkinn af steinrykinu yfir nágrennið.   Það var þá af umhyggju fyrir teppinu sem hann var að banka.  Svona umhyggjusemi um annarra hag ætti maður að meta að verðleikum. 

  Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

03.06.2008 22:39

AFMÆLI ELÍNAR

                                                                                                                                                                                    Ferð til Siglufjarðar 16 maí 2008.

 

Föstudaginn 16 maí lögðum við hjónin af stað norður til Siglufjarðar.  Kona ein sem heitir Elín  Jónasdóttir og maðurinn minn þekkir vel, frá því að hann dvaldi á Siglufirði, átti 100 ára afmæli þann dag.  Það átti að halda upp á það daginn eftir, á laugardeginum.  Maðurinn minn og vinur hans höfðu ætlað sér að bera út kristleg rit á Blönduósi, á heimleiðinni.  Voru búnir að panta sér gistingu hjá kunningjafólki á Skagaströnd.  En þá veiktist vinur hans snögglega og gat ekki farið.  Var þá komið tækifæri fyrir mig að fara með í afmælið.  Fannst mér það viðeigandi því vissulega hafði hún tekið á móti okkur báðum í gistingu fyrir nokkrum árum.

 Veðrið var gott er við héldum af stað.  Eiginmaðurinn  settist við stýrið og sleppti því ekki fyrr en við komum uppúr Hvalfjarðargöngum.  Ég var alveg sátt við það.  Ég hefi samt orðað það við hann, hverjar afleiðingar þess verði ef  ég æfi mig aldrei við akstur.  Sjálfstraustið minkar og hæfnin um leið.  Ég hefi sama sem ekkert ekið að undanförnu.  Áður fór ég þó yfirleitt einu sinni í viku í bíl til þess að kaupa í matinn en síðan við komum hingað í Engjadalinn þá förum við alltaf saman inn í Keflavík  á margar samkomur í viku, ef taldar eru með bænasamkomur.  Þá notum við tækifærið að versla í Bónus, sem við förum alltaf framhjá hvort eð er,  enda hag okkar best borgið þar.Jæja, við erum nú komin á lygnan sjó þegar ég tek við stýri, að því leyti að það er lítil umferð.  Gat ekki verið betri tími fyrir mig að æfa mig úti á vegi.

  Sjálfstraustið vex en ég veit að ég þarf að æfa mig meira til að endurheimta öryggi.  Það gafst í þessari ferð og mun halda áfram að gefast hér heima líka ef ég verð nógu úthaldsgóð en slái mér ekki til rólegheita af því það sé svo áhyggjulaust að hafa einkabílstjóra.  Ég ók í Borgarnes og þar fengum við okkur pilsur og svala.  Svo var nú haldið áfram. Á  Laugabakka stoppuðum við en þar búa Skúli og Árný frænka fyrri mannsins míns. Þar var alltaf svo gott að koma og svo er enn.  Skúli lá nú á sjúkrahúsinu á Hvammstanga.  Mér fannst hún ekki þurfa að hafa svo mikið fyrir okkur, mig langaði aðeins að sjá þau. En hún kann víst ekki að bera lítið fram fyrir gesti.

 Þaðan liggur svo leið til Skagastrandar.  Þar taka við okkur Svandís og Élías sem búa þar.  Ásgrímur þekkir þau frá Akureyri.  Þau hafa bæði lent í slysum og eru ekki orðin jafngóð.  Mér finnst nú varla við hæfi að beiðast gistingar hjá þeim vegna þess, en þau eru svo fram úr hófi gestrisin og börnin voru ekki heima og við vorum með sængurföt með okkur svo minna yrði fyrirhaft.  Áttum við hina ágætustu vist með þeim um kvöldið.  Morguninn eftir fórum við öll í þeirra bíl til Siglufjarðar.  Við vorum komin þangað um hádegi og vildum ekki fara að hitta fólk á þeim tíma svo við fengum okkur pilsur og teygðum tímann.  Þar næst ætlaði Ásgrímur að hitta hjón sem hann þekkir en þau voru ekki heima.

 Þar næst fórum við að hitta Júlíus og Svövu  og þau voru heima.  Alltaf jafn hlý og góð þegar komið er til þeirra.  Tíminn styttist óðum og brátt er kominn tími til að fara í veisluna.  Þar kemur fjöldi fólks líklega nær hundraði manns.  Þar nutu menn ríkulegra veitinga.  Var ánægjulegt að sjá hve hress Elín var, minnisgóð og skýr.  Hún gat notið þeirra orða sem til hennar voru töluð og söngvanna sem sungnir voru.  Það voru andlegir söngvar sem ég trúi að yljað hafi hjarta hennar, því hún hefur um áratugi elskað Drottinn sinn og frelsara.  Hans vegna hefur hún um mörg ár unnið samskonar verk og  Dorkas sem sagt er frá i postulasögunni.  Sent það svo út, sem hún hefur unnið, til fátækra í fjarlægð.  
                                                                                                                                                   Við gistum svo aðra nótt hjá Svandísi og Elíasi á Skagaströnd  og áttum með þeim indæla stund um kvöldið.  Eftir morgunmat héldum við heim á leið og nú langaði mig að hitta tvær gamlar systur á Hvammstanga, bróðurdætur fyrra mannsins míns.  Þær voru þrjár systurnar  en sú yngsta þeirra varð fyrst til að kveðja þennan heim.  Ekki bjóst ég við því er ég sá hana síðast.  Mig langaði því meira að sjá þær því enginn veit hvort annað tækifæri gefst.  Þær urðu mjög glaðar að sjá okkur, rétt eins og við hefðum gert þeim stórgreiða.  Eiga heima í íbúðum aldraðra á Hvammstanga. Heimferðin gekk vel og allt er gott sem endar vel, ekki meira um það að segja.

 

 

 

 

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 228
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 198
Samtals flettingar: 80346
Samtals gestir: 16773
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 03:45:50

Eldra efni

Tenglar