Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Apríl

25.04.2008 21:25

Minning

            Jón  Benediktsson.

            Minning.

Þann 19 apríl 2008. var til moldar borinn, fyrrum sveitungi minn, Jón Unnar Benediktsson frá Viðborðsseli í Austurskaftafellssýslu. Hann var fæddur 19 september 1919 en lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands á Hornafirði 12 apríl 2008.

Það var ekki langt á milli bæjanna  Viðborðssels og Rauðabergs þar sem ég ólst upp, svona hálftíma gangur eins og bæjarleiðir voru þá mældar.  Það var of langt til að við börnin lékjum okkur saman en ég var stundum send ýmissa erinda t.d. með skilaboð, eins og gekk og gerðist þá, í símalausri sveit.  Það var hægt að notast við liðléttinga til þess, ýmist á hesti eða gangandi.  Þannig mun ég fyrst hafa kynnst þessu heimilisfólki, hjónunum og börnum þeirra fjórum.  Björg var elst og Jón Unnar næstur henni.  Þá kom Þorleifur og Ragna Guðrún yngst, tveimur árum eldri en ég.  Þau báru öll með sér sama heimilisbrag.  Voru hlýleg og góð, engar hávaðamanneskjur en risu undir því sem þau sýndust og vel það, eins og mér fannst margt af þessu sveitfólki gera.

 

Þegar sá tími kom að bróðir minn byrjaði að endurbyggja húsakostinn heima, voru það einmitt þessir tveir bræður Jón og Leifur sem voru hvað oftast í því, að koma og leggja fram krafta sína þegar steypudagar voru.  Þá var steypan hrærð í tunnu og síðan handlönguð í skjólum í mótin.  Mér fundust þetta nú stundum nokkuð erfið erindi að flytja, þessar hjálparbeiðnir en alltaf varð Benedikt vel við og fús að lána drengi sína.  Öðruvísi gat þetta víst ekki gengið.  Þannig hafði það gengið áður í sveitum þessa lands.  Nágrannarnir fúsir til að leggja lið þegar liðveislu var þörf,  eins og við húsbyggingar.  Annað sem ég man vel eftir var, að slægjur voru of litlar sem tilheyrðu jarðnæðinu sem foreldrum mínum tilheyrði.  Ég held að það hafi nú yfirleitt ekki verið um afgangs engjar að ræða hjá fólki í sveitinni og ekki ljóst hvort svo yrði fyrr en undir haust.  Þá var það að Benedikt í Seli hjálpaði upp á sakirnar hjá okkur og lánaði okkur stykki í svæðunum sem svo voru kallaðar.  Þar óx störin sem er ágætt fóður.  Bróðir minn sló hana í skára með grindaljá.  Svo var hestur látinn draga skárana á þurt land til að þurrka heyið á bökkunum sem að lágu.

 

Seinna flutti svo þessi kæra fjölskylda burtu úr sveitinni og settist að á Höfn.  Þegar við vorum að fara í kaupstaðinn til að versla hélst vináttan við, því auðvitað fórum við í Sætún í leiðinni.  Þangað var gott að koma.  Sama hlýja gestrisnin eins og í Viðborðsseli.

Þar sem ég gat nú ekki farið í jarðarför Jóns heitins fannst mér við hæfi að við hjónin færum inn á Sólvang í Hafnarfirði til að heimsækja Rögnu systur hans, sem hefur dvalið þar marga áratugi.  Hún veiktist  sem barn og uppúr því fékk hún þann sjúkdóm sem hefur valdið því, að hún hefur orðið að vera í vernduðu umhverfi.  Nú er hún alveg komin í hjólastól.  Hún er þó furðu minnug og vissi vel að jarðaför bróður hennar fór fram þennan dag.  Við höfðum tekið með okkur sálmabækur og ekki vafðist það fyrir henni að halda áfram með réttri versaskiptingu í gömlu góðu sálmunum eins og ,,Á hendur fel þú honum" og fleiri.  Það sýndi að trúarlegum fræjum hafði verið sáð í hjörtu þessara systkina sem ólust upp í Viðborðsseli.  Ef engu er sáð kemur ekkert upp.

Guði séu þakkir fyrir allar góðar minningar um þessa fjölskyldu.

 

           

           

07.04.2008 20:53

Komið þið sæl!        

Nú er síðan búin að taka sér gott vetrarfrí.  Það var nú ekki tölvunni að kenna.  Hér á bæ  hefur gengið hita og hálsbólgupest með hósta og tilheyrandi og bæst ofan á gigtarverki í herðum og öxlum húsmóðurinnar svo hún hefur ekki verið í neinu skriftastuði.  Húsbóndinn hefur haldið sig í rúminu í heila viku og hefur verið í því, að laga sér hóstasaft eftir ævagamalli uppskrift sem hann geymdi í minni úr sínu fyrra lífi þegar hann þá, átti þá heima á Suðurlandi.  Í þessa hóstasaft þurfti þrjú efni, í jöfnum hlutföllum.  Ekkert þeirra var finnanlegt innanhúss, en hún vinkona okkar í næsta húsi átti þau öll og var meira en fús að koma með þau.

 Ég, aftur á móti, ákvað að snúa mér að hvítkálinu og  hvítlauknum, soðnu í mjólk. Ákvað að gefa þeirri tilraun eina viku og að henni lokinni held ég að við séum álíka kvefuð.  En okkur er nú að batna.  Ég er betri af gigtinni.  Það er e.t.v. bara af því, að ég hefi ekkert reynt á mig við húsþrif og annað álíka ónauðsýnleg sýsl, þegar svona stendur á.  Við erum bæði með ferlega ljótan hósta svona í hviðum  en fáum góðar hvíldir á  milli.  Ég held að við ættum að passa okkur gagnvart kulda svo við endum ekki hjá lækni.

 Eins og er, er ekki yfir neinu að kvarta.  Við fáum svona pestir svo sjaldan og getum þá haldið okkur inni í upphituðu húsi.  Ég hefi verið að lesa aldirnar að undanförnu.  Þar getur maður nú séð mismuninn á kjörum okkar og þeirra sem á undan okkur eru gengnir.  Mér finnst að þær ættu að vera skyldulesning á unglinga stiginu í skólum þessa lands.

  • 1
Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 198
Samtals flettingar: 80154
Samtals gestir: 16754
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 02:07:33

Eldra efni

Tenglar