Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2009 Júlí

20.07.2009 21:56

                                                Góðir  gestir

Það er 18 júlí 09. Það er sólskin og hiti, búnir að vera margir slíkir dagar í sumar. Anna mín kom í gærkvöldi frá Noregi ásamt syni sínum Sigurd. Þau gistu hjá okkur í nótt og vöknuðu víst á undan okkur því klukkan í Noregi er tveimur tímum á undan okkar klukku. Eftir hádegisverð fórum við að skoða Stekkjarkot og á eftir fórum við að sjá skipið Íslending í hans veglegu húsakynnum. Þetta  er nú allmerkileg sýning og tekur æðilangan tíma að lesa allt sem stendur skráð uppá veggjum á efri hæðinni. Það var nú þannig fyrir nokkrum árum að ég var hætt að sækjast eftir að fara á sýningar af þeirri ástæðu að ég fór svo fljótt að finna til í fótunum af að standa svo lengi næstum því í sömu sporum. Ég get gengið miklu lengra mér að meinalausu en ég get ekki staðið kyrr jafnlengi án þess líkaminn kvarti. Eins og það getur þó verið gaman að fara á sýningar.

 Það leið nú ekki á löngu eftir að ég var komin upp á loftið og búin að standa við að lesa upp fyrir mig það sem skrifað stendur þar á veggjum en ég fór að finna fyrir örmögnunartilfinningu í fótunum og fór að horfa í hvert skot þarna eftir stóli til að setjast í til að jafna mig. Ég þoli miklu betur að ganga en að standa svona mikið til kyrr. Það var hvergi stól að sjá. Ég var nú orðin svo uppgefin að ég ákvað bara að fara niður og út í bíl og bíða þar eftir fólkinu mínu og fékk því bíllyklana í hendur. Svo rölti ég niður stigann og hvað haldið þið. Þar stóðu þá nokkrir stólar í hvirfingu og biðu þess að einhverjir örþreyttir safngestir hlömmuðu sér niður í þá. Svona líka virkilega góðir stólar. Það er meira en hægt er að segja um aðbúðina í sumum verslunum þótt stórar séu.

 Ég er stundum búin að mæna þar eftir sæti og myndi gera mér að góðu þótt það væri bara lítill kollur. Mér finnst að hönnuðir slíkra húsakynna ættu að sjá um slíka hluti með sóma. Það geta nú ekki allir komið á upprennandi æskunnar fótum eða þá hjólastólum. Svo er nú líka það, sem víða hefur vantað, gott aðgengi fyrir hjólastóla. Ef fólk hefur ekki reynt erfiðleikana á eigin  skinni þá vill nú oft vanta, að sérþarfirnar séu teknar með. Ég varð nú

hálfhissa á að sjá svona marga stóla samankomna eins og þarna og minntist á það við afgreiðslumanninn að mér fyndist einn þeirra mætti nú vera uppi á loftinu en það var víst eitthvað í veginum með það, honum óviðráðanlegt.

Svo kom nú að  því að allir voru búnir að horfa nægju sína á þetta fræga skip og þá lá leiðin til Reykjavíkur. Þó að leiðin sjálf gegnum hraunið sé nú ekkert sérlega hrífandi þá er sjóndeildarhringurinn svo víður og skýjamyndanir svo töfrandi fallegar og margbreytilegar ef himininn er á annað borð nógu léttskýjaður. Hann er aldrei með sömu sýningar í annari ferð eða þriðju. Við ákváðum að stoppa í Hafnarfirði og fá okkur ís og var það mjög endurnærandi í hitanum. Borðuðum við ísinn þar í rólegeitum og héldum svo inn í Reykjavík. Anna og Sigurd áttu að mæta á flugvellinum kl.5. Þau voru á leið til Akureyrar. Við hjónakornin héldum svo til baka aftur út á Reykjanesið.

06.07.2009 21:42

Ótitlað

                   Æskuheimili.

Tvíbýli var á Rauðabergi og bjuggu foreldrar mínir á öðrum bænum en tvær systur á hinum.  Þær hétu Kristín og Katrín og voru Erlendsdætur, Móðir þeirra hét Þorbjörg var Benediktsdóttir. Hún var afasystir mín. Ég man mjög lítið eftir henni en hjá systrunum var ég eins og annar heimagangur.

Vel áttu við mig vetrarkvöldin löngu þegar búið var að kveikja á hengilampanum og rokkþytur og kambagnýr fyllti litlu baðstofuna. Mamma spann og Guðný fóstra hennar spann en Guðnýjarrokkur var miklu hljóðlátari. Ég sat þá t.d. við að prjóna íleppa með fallegum röndum. Faðir minn hafði það fyrir sið að lesa passíusálmana á föstunni ásamt viðeigandi hugvekjum. Vigfúsarhugvekjur minnir mig þær heita. Ég man að ég var oft háttuð áður og fannst ágætt að hlusta þar sem svo vel fór um mig eins og uppí rúmi. Þessir lestrar vöktu góðar hugsanir þannig að mér þótti vænt um Krist sem um var lesið.

                             Prestar húsvitja.

Ég mun hafa verið um sjö ára aldur þegar ég lærði að lesa, auðvitað heima. Áður en það varð gerðist það að bróðir minn Daníel fékk Þúsund og eina nótt lánaða og las kafla og kafla upphátt.  Mér fannst hann bróðir minn óskemmtilega latur við það og hugsaði með mér að ég þyrft nú endilega að fara að læra að lesa sjálf, svo ég þyrfti nú ekki að eiga það undir annarra duttlungum hvort ég fengi notið þeirrar skemmtunar er bækur gættu veitt.

Einu sinni eftir að ég var farin að læra að lesa kom prestur í húsvitjun. Minnir mig að það væri síra Jón Pétursson á Kálfafesstað og varð ég að stauta fyrir hann. Náði ég þá í Konstönsu en svo hét bókin er ég hafði lært að lesa í. Kom það sér nú vel að ég valdi hana því eflaust kunni ég nú eitthvað orðið í  henni.

Seinna kom annar prestur, síra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi. Þá kom ég því ekki við að sækja Konstönsu því þessi náði sér í nýkomið dagblað og reif það upp handa mér til að lesa. Mig minnir hann segja að það væri þá víst að ég væri ekki búin að lesa það áður. Gamalt fólk minntist þess með ánægju þegar prestar hefðu komið á ári hverju í þessar vissu heimsóknir. Það getur maður vel skilið að þær hafi verið öllum til ánægju nema þá helst börnum sem voru ekki orðin fluglæs.

                                           Umhverfið       

Ég átti lítinn sleða og þegar snjór var kominn og sleðafæri fór ég með hann inn á Ekru, sem kölluð var því undarlega nafni, því lítið tún var þar. Eða graslendi. Þetta var í jaðri á Rauðabergstúninu. Ég renndi mér þar niður smábrekku á sleðanum. Ein tóft stóð þar. Kristín frænka sagði mér frá hjónum sem hefðu reist sér þar bústað og búið við mikla fátækt. Það fékk á mig að heyra að konan hefði haft yngsta soninn sinn á brjósti í sex ár en þegar hún var sjálf orðin gömul og hrum og önnur börn hennar dáin. Þá vissi hún víst varla hvort þessi sonur hennar var lífs eða liðinn.

Kristín frænka mín var stundum að byggja þarna grjótgarðspart í hjáverkum sínum, milli skriðunnar og  túnsins síns,  þetta land tilheyrði þeim systrum.  Garðurinn var einfaldur. Pabbi minn hlóð líka grjótgarðspart milli túnsins og skriðunnar þeim megin sem hans tún var.

Sá garður var tvöfaldur. Einhvern tíman líklega eftir miklar rigningar eða þrumuveður hrundu stór björg  ofan frá fjallsbrún niður skriðurnar með ofboðslegum hávaða og rufu að mig minnir 3 skörð í vegginn sem pabbi hafði byggt. Mér stóð nú í aðra röndina stuggur af að búa svo nálægt fjallinu. Ég hafði gaman af að ræða við Kristínu.. Hún sagði mér frá liðinni tíð og minntist atburða úr æsku og líka ýmissa þjóðsagna. Þær systur áttu íslenskan hund gulskrámóttan að lit. Hann hét Frakkur og bar nafn með réttu. Hann var hávær eins og flestir af því kyni. En fallegur hefur hann verið eins og flestir íslenskir hundar, áður en hann var svo feitur og gamall. Hann fékk að verða ellidauður eins og manneskja sem ekkert dauðaslys hendir eða drepsótt.

 

  • 1
Flettingar í dag: 232
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 175
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 79879
Samtals gestir: 16589
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 07:34:40

Eldra efni

Tenglar