Þóra Guðrún Pálsdóttir

22.09.2011 19:33

Ferð til Hornafjarðar

                                    Ferð til Hornafjarðar. Framh.2.

Morguninn eftir var yndislegt veður. Eftir þvott og snyrtingu og hitt og annað sýsl var morgunverður tilreiddur. Daníel fór heim að Laugabakka til að fá lofti dælt í dekkin og tók þetta allt nokkurn tíma svo við fórum ekki snemma af stað. Allir voru ánægðir og fengust ekki um tímann. Skammt var út á Hvammstanga en þangað fórum við samt ekki heldur héldum áfram austur. Í Víðidalinn komum við, og brátt erum við á þeim slóðum þar sem mörg staðanöfn eru kunn þeim, sem lesið hafa Horfna góðhesta eftir Ásgeir frá Gottorp. Það mun hafa verið nálægt Brekku í Þingi, sem við fórum útúr bílnum og þar var tekin mynd, þar sem mörg okkar raða sér í kringum landakortið. Við vorum með gömlu herforingjakortin og þau dugðu okkur býsna vel. Þarna blöstu Þingeyrar á móti okkur, Þingeyrasandur og Hópið og Húnafjörður fyrir utan. Á Blönduósi erum við klukkan 11 en dveljum þar stutt. Næst látum við Refasveitina á vinstri hönd og leiðin liggur um Langadalinn en eftir honum rennur Blanda.


Og satt er það langur er hann. Skammt frá Holtastöðum í Langadal lítum við sveitabýli sem vekur sérstaka athygli okkar vegna snyrtimennsku er lýsir sér í allri umgengni þar. Þetta var Geitaskarð. Þar bjó Þorbjörn Björnsson sem margir könnuðust við. Þar litum við fallegra hlið heldur en við sáum við nokkurn annan bæ á alli ferðinni. Þarna máttum við til með að fara út og taka myndir. Þá var líka ákjósanlegt myndatökuveður. Þegar ég er að skrifa þessa sögu er ég að hugsa hvort þetta verði einhver skáldsaga hjá mér þegar ég skrifa staðarlýsingar eða þvíumlíkt. Þá fór ég svo mikið eftir kortunum góðu þegar ég skrifaði þetta fyrir mörgum árum. Nú eru þau ekki lengur innan handar. Jæja, áfram var ferðinni haldið þennan fallega dal á enda og gaman að líta niður í hann er við komum upp á heiðina fyrir ofan Bólstaðarhlíð klukkan hálf þrjú. Þaðan sáum við fram í Svartárdalinn. Ef til vill ætti ég heldur að segja inn í dalinn. Ekki veit ég hver er málvenja á þessum slóðum.


Fyrr en varir erum við komin yfir sýslumörkin og Skagafjörðurinn  blasir við okkur af Vatnskarðinu, víður og fagur. Mér fannst þó mest til um eyjarnar þrjár sem blöstu við, Drangey, Málmey og Þórðarhöfði. Við erum komin að Víðimýri og þar sem ákveðið var að heimsækja Hóla í þessari ferð beygjum við til vinstri út á Sauðárkrók. Sæmundarhlíðin er á vinstri hönd og nú förum við framhjá ýmsum þekktum bæjum svo sem Glaumbæ og Reynistað. Frá Sauðárkrók höldum við í austur og förum fyrst yfir vestari Héraðsvötn þar sem þau falla í skagafjörðinn. Svo komum við í Hegranesið sem er innan í Héraðsvötnum eða þau renna sitthvorumegin við nesið. Við vissum um einn Hornfirðing sem byggi þar, Ólaf Eiríksson bróður  Einars á Hvalnesi í Lóni. Töldum við okkur sjá á bæinn hans. Við fórum svo yfir austari Héraðsvötn. Þar var hliðvörður í kofa sínum og kona hjá.

Fannst okkur þá lífið ekki eins tómlegt fyrir hann og ella hefði verið ef  einn byggi. Nú ókum við eftir Viðvíkursveitinni og áfram áleiðis til Hóla.


Skammt frá Hólum stönsuðum við og  tókum fram nestisskrínur okkar og nutum þess vel að fá matarbita. Heim að Hólum héldum við svo og stönsuðum þar um það bil tvo tíma. Faðir skólstjórans fylgdi okkur um staðinn og fræddi okkur um gamalt og nýtt. Nutum við því ólíkt betur en ella, þess er séð varð. Við fórum upp í turn þann er reistur hefur verið til minningar um þá Hólafeðga Jón Arason og syni hans. Kirkjuna skoðuðum við og gamlan sveitabæ sem þar er til sýnis. Fjósið komum við í og ein kýrin var að bera. Áður en við fórum frá Hólum keyptum við okkur kaffi er okkur var borið af stúlku í þjóðbúningi. Frá Hólum fórum við klukkan 11 mínútur yfir 8. og héldum sömu leið til baka að vegamótunum austan Héraðsvatna.

Þar beygjum við til suðurs. Hofstaðir eru á vinstri hönd. Þá minnist ég Þrastar, hins fagra og góða hests sem búnaðarblaðið Freyr birti einu sinni forsíðumynd af. Hann var frá Hofstöðum í Skagafirði. Nú ókum við eftir Blönduhlíðinni.


Þarna var mjög þéttbýlt. Flugumýri er næsti kirkjustaður sem við förum hjá. Þá Miklibær og loks Silfrastaðir. Þá var klukkan hálf 11 að kvöldi, skyggni allgott að öðru en þoku ofan til í fjöllum. Þarna fórum við útúr bílnum og Sigga Sigurðar fór að leika sér við kálfana sem voru á beit í girðingu ofan við þjóðveginn. Þeir voru til með að taka gamni og jafnvel að láta verða úr því grátt gaman, því allt í einu leit út fyrir að fólska væri hlaupin í stærsta tarfinn, svo að hann myndi ráðast á hana. Palli Ólafs var tilbúinn að koma henni til hjálpar en þess þurfti þó ekki. 


Vegurinn beygði nú meira til austurs og norðausturs. Við ókum eftir Norðurárdalnum sem er þröngur og fátt um bæi. Á þessum slóðum munum við hafa ekið fram á menn sem voru að reka stóð á fjall. Við vorum  komin upp á Öxnadalsheiði og förum yfir sýslumörkin milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Brátt sjáum við Bakkasel og erum komin niður í Öxnadal. Þá fórum við að huga að tjaldstæði og er við höfðum fundið það, er tjöldum slegið og matur upp tekinn. Vatn höfðum við úr ánni er rennur eftir miðjum  dalnum. Þessa nótt sofa þær í bílnum, Sigríður og Ragnhildur og allar nætur aðrar, sem eftir voru ferðar.

Þessa nótt var veður heldur kaldara en nóttina áður, þó ekki teljandi kalt.


Morguninn 9 júlí rennur upp. Byrjað er að hita morgunkaffi og sjóða kartöflur. Vilborg sauð egg sem hún hafði varðveitt óbrotin alla leið úr Reykjavík. Klukkan er að ganga 11 þegar lagt var af stað. Við fórum framhjá Hrauni og þá er sungið, ,,Þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla." Við fórum framhjá Bakka, Steinsstöðum og Bægisá og sjáum til Möðruvalla í Hörgárdal. Eftir stutta stund erum við á Akureyri.

Sólin skein og hópurinn dreifðist. Daníel fór að athuga um möguleika að fá gert við bílinn. Sigríður og Ragnhildur fóru að heimsækja konu úr Lóni. Palli stakk af inní bíl sem við mættum. Við hin förum að sjá okkur um og fórum að skoða Akureyrarkirkju, sem er tignarlegt hús og stílhreint. Við mæltum okkur mót allt fólkið, kl. 2 hjá Hótel KE.A. En er að þeim tíma leið fengum við að vita að ekki fengist gert við bílinn fyrr en klukkan 5. Leist okkur þá að nota tímann til að skreppa fram í Eyjafjörð. Grösugt er og búsældarlegt í Eyjafirði.


Við komum heim að Grund og fengum lánaða kirkjulyklana og skoðuðum kirkjuna eins og okkur sýndist. Fagurt er á Grund og mikið fyrir það, sem mannshöndin hefur gert til að prýða þann stað. Frá Grund fórum við fram að Saurbæ og skoðuðum torfkirkjuna. Þaðan fórum við til Akureyrar aftur. Daníel fór með bílinn á verkstæði en við fórum að sjá Lystigarðinn, sem er mjög fagur. Þura frá Garði vann í honum við að hirða hann. Þar var tekin mynd af hópnum. Maður nokkur kom þar og gaf sig á tal við okkur og vildi vita hvort við værum einar á báti hvað hjúskaparmál snerti og ráðlagði okkur að afla okkur félaga í ferðinni. Varð Kristín fyrir svörum og sýndi honum sinn kærasta. Virtist manninum verða tómlega við og gaf sig ekki að henni frekar. Þegar við höfðum séð garðinn dreifðist hópurinn. Sumir fóru í sundlaugina. Ég fór með Sigríði og Ragnhildi í húsið sem þær höfðu farið í fyrr um daginn og drukkum þar kaffi. 


Um klukkan hálf átta var bíllinn tilbúinn. Þá var haldið af stað og ekið upp á Vaðlaheiði. Vegurinn liggur í mörgum hlykkjum yfir hana. Fagurt var að horfa yfir Akureyri og Eyjafjörð. Við héldum svo niður í Fnjóskárdalinn og keyptum mjólk í Nesi, sem er rétt niður við Fnjóská og tjölduðum svo í Vaglaskógi. Gengum um skóginn í kvöldkyrrðinni og nutum þeirra unaðslegu áhrifa er ilmur trjáa og niður Fjóskár veitti, áður en lagst var til svefns.

Flettingar í dag: 260
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 552
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 85831
Samtals gestir: 17811
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 04:05:06

Eldra efni

Tenglar