Þóra Guðrún Pálsdóttir

02.06.2010 01:39

Ótitlað


                   Árleg ferð eldra fólks.

 

Við höfðum farið upp í Vatnaskóg á föstudegi og komið heim næsta sunnudag. Þá kom annað ferðalag til greina næsta fimmtudag sem var uppstigningardagur. Þannig var að Doris vinkona okkar í næsta húsi, ætlaði að fara í ferðalag með eldra fólkinu í Fíladelfíu í Reykjavík, sem það fer að ég held á hverju ári eftir að sérstökum vetrar samverustundum líkur. Hún var búin að láta skrifa sig  og vinkonu sína sem ekki gat farið þegar til kom. Vildi hún þá fá okkur með sér ef pláss væri laust í rútunni, sem reyndist vera. Vorum við boðin velkomin í hópinn.

 

 

Við áttum að mæta fyrir klukkan níu á fimmtudagsmorgni hjá Fíladelfíu í Rekjavík annað hvort hálf  níu eða korter fyrir, eftir því sem sá er svar gaf, hefur treyst okkur til að vakna nógu snemma, geri ég ráð fyrir. Ásgrímur á nú ekki bágt með að vakna á morgnana, Ég hefi nú líka alltaf lagt það á mig þegar á liggur, þótt ég sé ekki af náttúrunnar hendi til þess gerð. Ekki stóð á Doris. Hún bauð okkur að vera með sér í bílnum til Reykjavíkur. Við vorum að ég held rúmlega 30 í rútunni sem fór frá Fíladelfíu. Var nú haldið leiðina upp í Mosfellssveit.Þar átti ég heima um tíma fyrir margt löngu. Þegar við systkinin Daníel og ég ásamt móður okkar fluttum austan úr Hornafirði þá lá leiðin þangað sem nú er þorp við Hamrahliðina.  Þá var þar braggahverfi.

 

 

Bróðir minn Sigurbergur og annar maður Snæland Grímsson ráku þá Mosfellssveitarrútuna. Einnig ráku þeir bílaverkstæði í stóru húsi er verið hafði hlaða og súrheysgryfjur sem tilheyrðubúskapi thor Jenssen. Þeir létu brjóta glugga á súrheyis gryfjurnar og gera tvær íbúðir í enda hússins. Fengum við efri íbúðina en bílstjóri sem vann hjá þeim þá neðri með sína fjölskyldu. Bróðir minn Daníel fékk vinnu á bílaverkstæðinu til að byrja með. Seinna gerðist hann bílstjóri hjá þeim. Sigurbergur og yndislega konan hans hún Ingunn Grímsdóttir áttu dálítinn sumarbústað skammt frá verkstæðinu. Sigurbergur hafði fengið Sigjón frænda okkar úr Borgarhöfn til að smíða hann. Þau bjuggu þar yfir sumarið.

 

 

 

Einn dag varð mér gengið niður að bústað. Þá liggur mágkona mín upp við bústaðinn og virtist orðin rænulítil. Hún hafði lengi haft fótasár og hafði nú orðið fyrir því að rífa sig á fætinum á vír þarna hjá bústaðnum. Slagæð hafði rifnað og henni var að blæða út .Ég held að það hafi verið Snæland sem ók með hana á ofsahraða niður á Landspítala en það vildi svo vel til að Sigurbergur var að koma heim í þessum svifum, einhversstaðar frá og hann var að minnsta kosti kominn nógu snemma niður á spítala til að gefa konu sinni blóð því hann hafði passandi blóðflokk. Við getum sannarlega talað um farsæl endalok og skjótan bata í þessu tilfelli. Nú er löngu búið að rífa litla bústaðinn og  verkstæðishúsið og byggja önnur hús þarna. Hverfið er orðið að þorpi.og þorpið hverfur fljótt augum þegar rútan rennur hjá.     

 

 

Ferðinni er haldið áfram og upp fyrir hæðina sem Lágafellskirkja stendur á. Þá er beygt til hægri og Reykjalundur verður á vinstri hönd. Þar er svo farið upp á heiði og komið á Nesjavallaleið. Veðrið var indælt. Vegurinn sléttur en skelfilega bugðóttur og mjór. Það mun vera betra að fara með gát á þessum vegi í vetrarhálku. Við virtum fyrir okkjur Nesjavallavirkjun úr nokkurri fjarlægð og svo lá leiðin að Ljósafossi. Þar fyrir ofan hefur Eiríkur Sigurbjörnsson aðstöðu með sína kristilegu sjónvarpsstöð Ómega.  Hann tók á móti okkur með konu sinni og syni, gekk með okkur um og sýndi okkur staðinn. Eiríkur er nú svolítið sérstakur. Sem  betur fer sýnist hann ekki vita af því, alltaf góðlegur á svip og ekki líklegur til að fara með jarðýtu á næsta mann. Nú virðast Íslendingar líka vera komnir á þá skoðun að lundin hafi mest að segja þegar kjósa skal fólk í ábyrgðarstöðu. Þau á Ómega báru okkur svo veitingar, áður en lagt var í næsta áfanga sem var reyndar til Selfoss en þar beið okkar ágætis hádegisverður, kjötsúpa að hætti hússin.

 

 

 

Hvítasunnusöfnuðurinn á Selfossi er búinn að endurnýja samkomusalinn sinn ásamt sætum, mjög myndarlega og breyta íbúðinni sem var í samkomuhúsinu í matsölustað  Allt ber vitni áræðni og iðnum höndum, ásamt smekkvísi. Frá Selfossi fórum við til Hvolsvallar. Þar litum við inn á Sögusýninguna og þar er margt að skoða. Þessu næst var haldið í Fljótshlíðina og komið að Kirkjulækjarkoti. Þar tóku á móti okkur hjónin Gylfi og Kristín.Þau byrjuðu á að dekra við okkur í borðsalnum og þar eftir fór hann með okkur út í hina hlýlegu og vinalegu kirkju. Ég hafði aldrei komið í hana áður þótt ég hafi komið nokkur skipti á Kotmót. Svo sagði hann okkur frá endurfæðingu afa síns Guðna. Sá maður hefur greinilega viljað sýna trú sína í verki. Hann hóf innan  lítils tíma að byggja kirkju. Nú  gerði mikinn storm og kirkjan fauk. Þá hófst hann aftur handa og byggði kirkjuna upp annað sinn. Þá kviknaði eldur og kirkjan brann. Þá byggði hann hana upp í þriðja sinn. Geri aðrir betur! Hann stóð nú ekki einn í þessu því fjölskyldan stóð með honum bæði í trú og framkvæmdum.og synir hans voru smiðir líka.

 

 

 

 Þessi kirkja rúmar ekki stórmótin sem haldin eru síðsumars. Til þess var fengin stærðar tívolískemma úr Hveragerði og byggð upp þarna. Það er mikið hús Örkin. Einnig hefur þarna verið byggður stór skáli til að hýsa samkomugesti. Hann rúmar auðvitað ekki alla sem koma því að þeir eru orðnir svo margir. Fjöldi er þar í tjöldum yfir mótsdagana. Er við höfðum hresst okkur á veitiingum fóru þau með okkur út í Örkina til að líta augum hana bæði innan og utan ásamt umhverfinu. Þá var kominn tími til að kveðja og halda heim og bar ekkert sérstakt við á leiðinni. Við vorum komin í góðum tíma til baka og mér heyrðist fólkið almennt vera mjög ánægt yfir ferðinni. Við vorum það líka. Sérstaklega hafði ég gaman af að heyra af kirkjubyggingunni.

         Í Hebreabréfinu 13:7-8 stendur:   ,,Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir."

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                     

 

Flettingar í dag: 506
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 487
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 85525
Samtals gestir: 17779
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 19:46:59

Eldra efni

Tenglar