Þóra Guðrún Pálsdóttir

23.09.2009 17:29

Nýtt nafn

Einhverju sinni kom til orðræðu milli mín og vinkonu minnar um mannanöfn.  Það kom í ljós að henni þótti illa við hæfi að ég bæri Þórsheiti, sem var heiðinn guð. Ég þóttist skilja að hún mundi helst vilja að ég fengi mér nýtt nafn. Ég skil vinkonu mína. Hún vill að guðrækni mín sé hrein og flekklaus í öllum greinum en ekki hundheiðin í aðra röndina. Það er nú samt meira en að segja það, fyrir gamalt fólk að fara að skifta um nafn. Helst hefur maður heyrt um að sumir kjósi þann kost, sem vilji hylja fortíð sína, beri  hún ekki vitni um vandað líferni. Nú er þess að gæta að langt er síðan Þórs tilbeiðsla lagðist af í þessu landi og margar kynslóðir hafa fæðst og til grafar gengið án þess að skera sig úr, með óhöpp eða lánleysi að ég held, þótt þær bæru Þórsnafnið, enda sjálfsagt verið gefið það gegnum tíðina til að heiðra föður og móður og viðhalda þeirra minningu sem borið höfðu eða báru nafnið, frekar en það væri gert vegna guðsins, sem ekki var lengur löglegur eða í tísku  Nú kann að verða breyting á, þar sem búið er að stofna félag sem kennt er við Æsi hina fornu. Svo getur þó farið, að eins og til varð nafnkristni svo kölluð, meðal hinna kristnu, sem hlýtur litla virðinu hinna strang trúuðu, þannig verði líka til nafnheiðni meðal hinna heiðnu, sem láti sig litlu varða tilbeiðsluna þótt nöfnin þeirra séu skráð í ásatrúarsöfnuði.

Í bókinni Íslensk Þjóðmenning V. Bls.14.er sagt frá mesta helgistað goðanna. Hann er hjá mjög heilögum brunni.,,Þangað fara þau dag hvern um brúna Bifröst til að eiga dómstað sinn. Allir ríða guðirnir til dómstaðarins á ágætis hestum sínum nema Þór sem gengur og veður ár þær er verða á leið hans". Ég sé þetta fyrir mér í huganum að þeir hinir guðirnir séu komnir í taglhvarf á hestum sínum í einhverri þessara áa og nafni veður í geirvörtur, sjálfsagt á kúskinnsskóm og árbotninn grýttur. Spurningin hjá mér er: Af hverju kipptu þeir félagar hans honum ekki upp á hnakknefið hjá sér, þar sem þeir voru á ágætis hestum? Það er ekki merkileg dróg sem ekki er mannbær fyrir tvo í viðlögum. Skaftfellingar mundu ekki hafa gert þetta svona, heldur rennt hrossi undir þann hestlausa yfir árnar. Við leyfðum hundinum alltaf að stökkva uppá hestlendina fyrir aftan okkur þegar að fljótunum kom, í stað þess að láta hann vaða. Lesi maður lengra í bókinni, stendur samt að Þór hafi verið mikið dýrkaður á Norðurlöndum á síðustu öldum norrænnar trúar. En ég er að hugsa um alla þessa endalausu göngu Þórs, dag eftir dag og alltaf að vaða árnar.

Þeirra Ásbrú var greinilega enginn þurrbali eins og sú á Reykjanesinu við hliðina á okkur.

 

 En hvað mig snertir, og til að finna ástæðu fyrir að þurfa ekki að skifta um nafn, þá get ég hugsað mér, að Þór hafi verið algengt mannsnafn í upphafi, en svo hafi einhver með því nafni  tekið sig fram um eitthvað umfram aðra og verið tekinn í guðatölu, lífs eða liðinn en ekki þar með fengið neinn einkarétt á nafninu sem slíku.. Það sem skiptir mestu máli er, að sá sem ber nafn, hvaða nafn sem er, auki virðingu fyrir því, í augum sinna samferðamanna en sverti það ekki.

Flettingar í dag: 518
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 487
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 85537
Samtals gestir: 17781
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 21:22:30

Eldra efni

Tenglar