Þóra Guðrún Pálsdóttir

14.04.2009 23:33

KÁLFARNIR

                                    KÁLFARNIR.

 

Þetta verður pistill fyrir náttúruunnendur því hann gerist í sveitinni.  Ég hefi áður sagt   

Frá því að kálfarnir hafi verið leikfélagar mínir.  Það var oft gaman seinnipart vetrar þegar jörð var þíð, þá mátti ég láta út kálfana til að lofa þeim að leika sér.  Þeir voru nú ekki sérlega taumliðugir út úr fjósinu í fyrsta sinn.  Innan þessara veggja höfðu þeir fæðst og dvalið fram að þessu.  Þótt allt gengi nú fyrir sig fram að dyrum, varð þeim gjarnan flennt við er þeir sáu sólina í fyrsta sinn og annað fleira nýstárlegt.  Það var samt tilvinnandi að leggja það á sig að toga þá úr dyrunum þótt að seinlega gengi, til þess að horfa á þá leika sér.  Hvað þeir gátu hlaupið.  Þeir voru miskátir.  Ég man sérstaklega eftir einum.  Hann var hvít og svartflekkóttur.  Mér fannst hann svo fallegur og skemmtilegur enda lét ég hann oft út.  Mér fannst hann þyrfti nú að bera eitthvert merkisnafn og fann uppá því að kalla hann Churchill í höfuðið á forsætisráðherra Bretlands.

 

Tveir aðrir bolakálfar fæddust þennan vetur og hefur það verið óvenjulegt, því venjulega voru bara tvær kýr mjólkandi.  Næsti kálfur sem fæddist var svartur og þessvegna fékk hann nafnið Hitler.  Sá þriðji var rauður og hann kallaði ég því Stalinn.  Ég hefði nú ekki úthlutað sakleysingjunum þessum nöfnum seinna meir. Stalinn lifði skamma hríð en hinum var leyft að lifa til haustsins.  Það var sjálfsagt skynsamlegt að þeir yrðu ekki gamlir því fyrrum var sagt að ,,fjórðungi brygði til fósturs og fjórðungi til nafns".  Hefðu kálfarnir hlotið fjórðung eðlis síns frá árásargjörnum  nöfnum sínum þá hefðu þeir ekki orðið auðveldir með hækkandi aldri.  Sá kálfur var einu sinni til, sem ég hafði illan bifur á.  Það var fyrir tíma hinna þriggja og ég var þá lítill bógur sjálf. Er hann var nýskroppinn út úr móður sinni baulaði hann og  röddin ekki fögur. þótti það kynlegt .  Hann mun hafa fæðst um vetur. Ég man ekki hvað snemma um vorið hann fór að ota að mér skalla sínum.                                                                                                                                                                                                                                                         Einu sinni er ég var að reka kýrnar á haga og var komin með þær niður úr tröðunum, þá réðist hann á mig. Það vildi mér til happs að ég var nærri bænum þótt ekki sæist heimanað.  Móðir mín eða bróðir heyrði í mér hljóðin því ég grenjaði af öllum kröftum.  Bróðir minn kom hlaupandi mér til bjargar, þar sem kussi var að hnoða mig á vellinum.  Ekki held ég að ég hafi meiðst neitt alvarlega en vera má að þetta atvik hafi orðið til þess, að mér var seinna ekkert um að vera é ferð nálægt girðingunni þar sem þarfanaut sveitarinnar var geymt á sumrin en vegurinn utan úr sveitinni til míns heimils lá meðfram girðingunni að hluta.  Þá voru menn fullir áhuga um að bæta bústofn sinn og fengu naut langt að, frá þeim sem voru lengra komnir í kynbótunum.  Þetta var líka liður í góðu skipulagi því það losaði bændur við að þurfa sjálfir að ala upp kálf til að vera sjálfbærir í þessum efnum.

 

  Nautið var heljar mikill rumur, rauðbröndóttur að lit, sem fylgdist fast með umferð gesta og gangandi í nálægð við sig og sagði ljótt er hann sá mann nálgast. Ekki aðeins það, heldur fylgdi manni eftir sítuðandi sínmegin girðingarinnar, svo lengi sem leiðir gátu legið saman.  Þá var gott að finna sig á hestbaki og geta treyst því, að hrossið hlypi hraðar en nautið ef girðingin léti undan.  Sem betur fór trúði boli víst ekki að hann gæti brotist út.  Ég sá hann aldrei gera alvarlega tilraun til þess.  Honum hefur eflaust leiðst að hanga aleinn innan þessarar girðingar enda myndaði hann götu með rölti sínu meðfram henni.

 

 

                                                      

Flettingar í dag: 4
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 552
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 85575
Samtals gestir: 17787
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 00:07:05

Eldra efni

Tenglar