Þóra Guðrún Pálsdóttir

27.02.2009 21:45

ALFA

                                                Alfahelgi

 

Margar kirkjur hér á landi hafa notfært sér Alfanámskeiðin í kirkjustarfinu.  Hvítasunnukirkjan í Keflavík er núna með eitt slíkt námskeið í gangi.  Venja er á slíku námskeiði að fara eina helgi burt úr bænum til dvalar á einhverjum rólegum stað.  Við sem vorum þátttakendur lögðum af stað frá kirkjunni kl. 15 mínútur yfir sjö á föstudagskvöld þegar við höfðum borðað kvöldmat.  Farð var á einkabílum, en þegar við hjónin komum að kirkjunni á  tilsettum tíma voru þeir síðustu, svo að segja, að renna úr hlaði.  Segið svo að Íslendingar geti ekki verið stundvísir.

 

Við þurftum ekki að taka neinn farþega og fórum bara tvö í okkar bíl og ókum sem leið liggur inn í Hafnarfjörð, gegnum hann og upp hjá Vífilsstöðum, fram með Vífilsstaðavatni og uppá einhverja hæð, svo fram með hesthúsum og þar eftir inn í nýlega íbúðabyggð.  Þetta höfum við oft farið en nú var komið myrkur og naut ekki lengur eðlilegrar birtu heldur aðeins þeirra ljósa sem menn hafa skapað og geta aðeins rofið ríki myrkursins að takmörkuðu leyti.  Það var líka að auki mikil þoka og rigning.

 

Þegar búið er að fara með mig nokkra hringi og beygjur við slíkar aðstæður missi ég allt áttaskin og á allt undir ratvísi mannsins míns hvort ég komist nokkru sinni á leiðarenda.  Hann hafði oft farið part af leiðinni áður en aðeins einu sinni alla leið, þangað sem ferðinni er heitið.  Áfangastaðurinn  heitir Kríunes og stendur nálægt Elliðavatni.  Eitthvað fór hann nú afvega þegar hann var rétt að ná markinu.  Við okkur blasti skilti sem á stóð Kríu.  Það gæti verið þáttur í ratleik ef fólk væri hugmyndaríkt og mætti verðlauna.

                                                                                                                                       Það hafði nú ekkert verið minnst á neinn ratleik áður en við lögðum af stað. svo hann var nú ekkert að láta Þetta brotna skilti trufla sig.  Hann hélt bara áfram og lendum þá í því að menn koma á hestum einn og einn með hund með sér.  Þá ákveður minn maður að snúa til baka.  Við erum nú ekki aldeilis að fara að gista í hesthúsi.  Nú þurftum við að komast í nágrenni við skiltið aftur.  Ekki vildi Ásgrímur samt treysta alveg á þennan gátufulla vegvísi. Hann fór heim að einu húsi, það er fullt af þeim hér allt í kring, og spurði þar til vegar.

 

Við vorum þá skammt frá hótelinu og blessunarlega nær komin á áfangastað.  Þar fengum við að vita að fleiri hefðu átt í erfiðleikum með að finna slotið.  Við höfðum þarna kvöldvöku á tilskyldum tíma og þar eftir var gengið til rekkju.  Við hjónin fengum rosasvítu með stóru rúmi sem minnti mig á rúm sem ég trúi að ég hafi séð á einhverri sýningu út í Danmörku og þar titlað sem drottningarrúm.  Nafn hennar er gleymt.  Ég trúi nú ekki að þetta hafi verið það sama rúm en eflaust einhver merkismannshvíla.

 

Það var með fjórum sterkum stólpum sem tengdir voru saman upp undir lofti.  Hin önnur húsgögn virtust einnig til aldurs komin og til þess fallin að bera virðingu fyrir.  Þessu fylgdi stærðarinnar nuddpottur, ætlaður tveimur í einu sýndist mér.  Það komu menn að kenna okkur á pottinn en mér sýndist hann mundi vera fær um meira en okkur var sýnt.  Ég hefði aldrei þorað að hætta á að skrúfa frá skökkum krana á svo tæknivæddum potti en Ásgrímur er óhræddari við að fikta í hlutum eins og karlmenn eru.  Hann fór í sturtu og naut alls viðurgernings þarna alveg í botn og gladdist eins og barn yfir útsýninu frá slotinu.

 

Við fengum rúmgóðan sal fyrir samkomurnar.  Þarna voru yfir tuttugu manns samankomin.  Það höfðu ekki allir getað komið austur, sem voru á Alfa.  Næsta dag áttum við að mæta í morgunmat kl. 9.  Svo tók lofgerðarstundin við í hálftíma og kennslan þar á eftir. Hún stóð með matarhléum yfir laugardaginn allt til kvölds, að einum tíma undanskyldum.  Hátíðarkvöldverður var kl.7. Þar eftir kvöldvaka og tjáning.  Þetta var góð samvera, sem gott verður að minnast fyrir þá, sem hafa óskert minni.  Vonandi lekur nú ekki allt út hjá okkur þessum eldri heldur.

 

   Tvær stúlkur sem ekki gátu komið á föstudagskvöld voru sóttar á laugardagsmorgun.  Eftir morgunmat á sunnudaginn var haldið heim því ljúka átti samverunni með samkomu í Hvítasunnukirkjunni kl.11.  Þegar við lögðum af stað heim í dagsbirtunni um morguninn, sá ég best, að það er varla ætlandi dauðlegum manni að rata allar þessar beygjur og króka í náttmyrkri.  En allt fór vel.  Guði séu þakkir fyrir góðar stundir.

 

 

 

Flettingar í dag: 244
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 552
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 85815
Samtals gestir: 17808
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 03:38:34

Eldra efni

Tenglar