Þóra Guðrún Pálsdóttir

29.10.2007 00:18

Veturinn kom í gær

 Þegar ég leit út um gluggann í morgun var jörð alhvít hér í innri Njarðvík. Nú erum við

búin að eiga heima hér í nokkrar vikur og finnst mér mjög gott að vera hérna. Hæst bera nú held ég þessi dæmafáu rólegheit sem ríkja hér. Auðvitað hafa smiðir verið að vinna hér á daginn við húsið en á kvöldin og næturnar er kyrrt eins og við værum úti í afskekktri sveit. Héðan af efri hæðinni úr okkar íbúð er víðsýnt í góðu skyggni, svo að við sjáum yfir sjóinn til fjallanna í fjarska. Ennþá eru ekki allir fluttir í þetta hús sem hér munu eiga heima i framtíðinni. Við höfum rekist á nokkra af nágrönnum okkar hér úti sem virðast vera vel að sér í góðum siðum. Kynna sig og heilsa með handabandi eins og gestir af næstu bæjum gerðu í sveitinni, þar sem ég er uppalin. Það skal tekið fram að nágrannarnir í sveitinni þurftu ekki að kynna sig. Þetta lofar auðvitað góðu og verður okkur hvatning til að breyta eins og hefja ekki stríð að þarflausu að fyrrabragði.

Hér er næstum eins og við séum í einbýli. Bílskúrar undir íbúðinni og enginn býr fyrir ofan okkur. Ég bað bónda minn um að festa klukkuna mína á útvegg svo hún spillti ekki svefnfriði annarra í húsinu. Vona ég að það gangi eftir þótt hún sé nokkuð hljómmikil. Mér finnst svo heimilislegt að hlusta á hana slá. Uppáþrenging okkar er að venjast innilokuninni. Fyrstu dagana langaði hana að bregða sér út og einu sinni fór hún út um glugga og settist á sylluna utanvið en hún lét það ógert að steypa sé niður. Hún virtist ekki eins lofthrædd eins og eigandinn mundi vera í sömu sporum. Hún bara tók þá ákvörðun að hætta ekki lífi sínu að óþörfu. Ég var ákaflega fegin þegar handriðin komu við tröppurnar hérna.

Guðný dóttir mín og maður hennar Valur komu nýlega á leið sinni til útlanda. Þau gistu hér eina nótt. Það er helst að ég sjái börnin mín er þau eiga leið um flugstöðina í Keflavík. Það er kosturinn við að búa svo nálægt millilandaflugvellinum en ekki einhversstaðar annarstaðar.

Ég hafði losað mig við gamla svefnsófann sem ég hafði notað fyrir gesti áður og ætlað að kaupa venjulegt notað rúm í staðinn í Góða hirðinum. Þegar þangað kom var ekkert rúm þar sem passaði en af því við vorum nú einu sinni komin inní Reykjavík ákvað ég að láta þetta ekki

vefjast lengur fyrir mér og keypti gestarúm í Rúmfatalagernum. Þau eru að vísu ekki nema einn og 80 á lengd. Þegar til kom, kom í ljós að það mátti ekki lengra vera í herbergið en þar með gátum við komið tveimur gestarúmum þar inn, svona fyrir eina nótt. Þannig hefi ég svo oft fundið fyrir æðri handleiðslu í lífinu.

Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 552
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 85757
Samtals gestir: 17799
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 00:34:19

Eldra efni

Tenglar