Þóra Guðrún Pálsdóttir

09.01.2007 08:07

Kvarnarstúlkurnar

 

Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ,,Mér líka þau ekki"- áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið  Þá er þeir skjálfa sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því þær eru orðnar fáar. Þetta er tekið úr Predikaranum 12: 1-3.

Mér finnst ég hafi heyrt að hér sé predikarinn að lýsa breytingaskeiði mannsins frá æsku til elli. Á sumum fara hendurnar að skjálfa er þeir verða gamlir og hér séu það þær sem átt er við að geymi hússins og sterku mennirnir verði bognir, þá sé átt við fæturna en kvarnarstúlkurnar séu tennurnar. Þær voru nú orðnar fáar hjá mér svo tími var til kominn að öllum úr efri gómi yrði hent út, þar sem ekki voru eftir nema tvær heillegar og nokkur brot og rætur. Ég hlakkaði nú ekki beint til þar sem önnur augntönnin hafði brotnað við rótina og hún hafði reynst rosalega föst er hún var fjarlægð fyrir mörgum vikum. Þess vegna hafði ég ekki verið að flýta framkvæmdinni því tvíburasystir hennar var eftir hinummegin og var heil

.

Jæja loks fannst mér þetta yrði ekki umflúið og dreif í því að fara til tannlæknisins. Hann auðvitað byrjaði á að deyfa og það tókskt vel. Svo lagði hann í þá erfiðu eða það minnir mig, enda man ég ekki eftir að neitt væri í frásögur færandi með hinar. En þessi fannst honum og mér vera föst. ,,Það er ekki beineyðing í þér " sagði hann og mátti skilja að hann hefði ekki átt von á þessu í svona gamalli manneskju. Hann vildi nú samt greinilega tala varlega um aldur við mig en ég er ekkert viðkvæm fyrir aldri mínum. Maðurinn er mjög handlaginn og lipurmenni á allan hátt. Hann vildi meina að þetta kæmi einstöku sinnum fyrir að tennur virtust vera grónar við beinið. Þessu lauk þó að lokum öllu farsællega og án þess að nokkuð illt hlypi í sárin á eftir. Ég fékk strax fallegar tennur upp í munninn í staðin. Þær urðu mér sjálfri nú ekki til mikillla nytja fyrsta kastið nema það, að nú gat ég brosað framan í viðmælendur mína án þess að þeim ofbyði útgangurinn á kvarnarstúlkunum.

Ég fékk að vísu einn dökkan marblett eftir tanndráttinn en það var nú sem ekki neitt í samanburði við andlitið á henni móður minni eftir að hún hafði látið hreinsa úr sér þegar ég var unglingur. Þeir marblettir allir eru mér enn minnisstæðir. Sjálfsagt hafa þær verið fastar í henni líka eins og mér. Þá áttum við heima á Hornafirði og enginn tannlæknir þar, bara héraðslæknirinn. Það var auðvitað ekkert bara. Þeir öðluðust mikla reynslu gömlu héraðslæknarnir í að draga út tennur, því eina ráðið þá var, ef maður varð viðþolslaus af tannpínu, á þessum útkjálkum landsins, að rífa tennurnar úr. En þeir smíðuðu ekki tennur. Ég man að mamma mín fór svo eftir tilhlýðiegan tíma til Eskifjarðar til þess að fá tennur því þar var tannlæknir búsettur. Það var þó minna fyrirtæki og ódýrara heldur en að fara alla leið til höfuðstaðarins í þá daga en nógu dýrt samt fyrir fátæk heimili. Samt hefir þetta orðið eftirminnilegur viðburður á fábreyttri æfi að komast út fyrir sýslumörkin.

Að lokum bestu kveðjur og heillaóskir á nýju ári til skyldfólksins í Reykjavík, Akureyri, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þakka liðin ár Þ. P.

Flettingar í dag: 232
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 552
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 85803
Samtals gestir: 17807
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 02:55:54

Eldra efni

Tenglar