Þóra Guðrún Pálsdóttir

10.10.2006 22:05

5o ára útskriftar afmæli

Fimmtíu ára útskriftarafmæli.

Ég held að það hafi verið einhvern tíma í september síðastliðnum að hún Rósa skólasystir mín úr Ljósmæðrskólanum hringdi til mín og forvitnaðist um, hvort ég hefði áhuga á að mæta í 50 ára útskriftarafmæli okkar ef haldið yrði uppá. Ég taldi það líklegt. Nú átti ég heima á suðurlandinu og minna fyrirtæki að taka sig upp og taka þátt í ýmsu sem bundið væri við höfuðborgarsvæðið. Ég hafði víst ekki séð sumar af skólasystrunum síðan við útskrifuðumst. Þegar við lesum sögur hinna gömlu íslensku ljósmæðra má segja að okkur hafi hlotnast mikill heiður að fá að bera starfsheitið,,ljósmóðir" Þetta voru svo miklar ágætiskonur, alltaf reiðubúnar í hvernig færð og veðri sem var er þær voru kallaðar til að sinna fæðandi konum.

Þá höfum við nú líka dæmin úr Biblíunni þar sem sagt er frá tveimur hebreskum ljósmæðrum sem Egyptalandskonungur bauð að deyða sveinbörnin strax eftir fæðinguna en meybörnin máttu lifa. En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gerðu ekki það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim heldur létu sveinbörnin lifa. Við getum nú rétt ímyndað okkur að þær hafi hætt hér miklu til, að óhlýðnast sjálfum konunginum...En það stendur neðar á blaðsíðunni: ,,Og guð lét ljósmæðrunum vel farnast,og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. Og fyrir þá sök að Ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja." Þær voru fúsari að bjarga heldur en að farga lífi

Það má segja að fyrir hennar Rósu drift og framtakssemi varð þessu útskriftarafmæli okkar til vegar komið og á hún allan heiður skilið af okkur hinum fyrir alla sína fyrirhöfn og hringingar út og suður. Árangur erfiðis hennar birtist í því að 30 september mættum við átta ljósmæður í Salthúsinu í Grindavík til sameiginlegrar máltíðar ásamt fjórum köllum sem voru eiginmenn fjögurra ljósmæðra í okkar hópi. Tvær af hópnum gátu ekki mætt og tvær voru dánar. Við vorum þarna þá samtals 12 samankomin. Það var nú lagt á borð fyrir okkur ljósmæðurnar sér við borð en þeir voru hafðir annarstaðar, samt í sama sal. Það var sjálfsagt skynsamlegt því líklega hafði hvor hópur um sig óskyld áhugamál til að ræða

Okkar umræða snerist mest um það sem gerðist fyrir 50 árum síðan. Sumar höfðu unnið lengi við það starf sem við höfðum menntast til og aðrar sinnt hjúkrun aldraðra um mörg ár. Við vorum misjafnlega langt að komnar. Ein kom frá Ísafirði og önnur frá Eskifirði. Hinar held ég hafi komið af höfuðborgarsvæðinu. Ég held að sumar hafi ekki sést í 50 ár og naumlega þekkt hver aðra. Maður breytist á svo löngum tíma. Hárið upplitast og það breytir ekki svo litlu og svo.framv. Við fengum þarna góðan mat og í eftirmat einhverskonar bláberjaís í pönnukökum listilega útbúnum sem ílát undir ísinn.

Það var margt rætt og rifjað upp á meðan á borðhaldi stóð og ef til vill best að við sætum einar að þeim minningum. Ég hugsa að kallarnir hafi ekkert heyrt, þeir sátu það langt frá. Mér fannst það samt bæði rausnarlegt og snjallt hjá henni skólasystur okkar að hafa frumkvæði að því að bjóða köllunum líka. Þeir þurftu sumir hvort sem var að aka sínum konum langa leið til fagnaðarins. Þegar máltíð var lokið gekk Rósa fram í afgreiðsluna og ég þóttist vita að hún hefði farið að gera upp kostnaðinn við veru okkar. Þegar við svo ætlum að gera upp við hana kemur á daginn að hún hafði ákveðið að bera allan kostnað af veru okkar allra á þeim stað og ekki nóg með það. Nú vildi hún bjóða öllum heim til sín á eftir í kaffi og tertur.

Það var yndislegt að koma inn á hið fallega heimili þeirra hjóna og dásamlegt að sjá hvað sumt fólk hefur frábæran smekk til að gera heimili sín aðlaðandi, þótt það fari ekki milli mála að hönnuður hússins á þar stóran þátt en fleira þarf til að koma. Eftir að hafa gert okkur gott af veitingunum þar og setið að spjalli kvöddum við hina rausnarlegu gestgjafa okkar sem höfðu sýnt okkur að enn búa á Íslandi fornaldarhöfðingja. Héldum við svo heim á leið. Ég hafði fengið far með Maddý og manni hennar fram og til baka og þakka þeim kærlega fyrir. Þau búa í sama bæjarfélagi og höfðu boðið mér að vera samferða.

Flettingar í dag: 522
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 487
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 85541
Samtals gestir: 17783
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 21:43:50

Eldra efni

Tenglar