Þóra Guðrún Pálsdóttir

17.09.2006 18:49

Breytt heimili

Breytt heimili

Nú erum við orðin þrjú í heimili. Ég fór nú að útvega fóður handa Uppáþrengju og fór með pakka utan af mat sem hún var vön að éta. Það er dýralæknastofa hér í sömu götu og við búum. Ég fer þangað með umbúðirnar og sýni þeim sem er við afgreiðslu. Hann lítur á prentið og myndina og segist ekki eiga þennan mat til en spyr um aldur kattarins. Ég kvaðst ekki vita það fyrir víst en áætla að hann kunni að vera ársgamall. Hann leitar hjá sér og kemur með smápoka með fóðri fyrir ketti á þeim aldri. Ég er nú algjör byrjandi í að fóðra ketti á útlendu kattafóðri og veit ekkert hve mikið á að skammta þeim í einu. Ég verð því ákaflega fegin er hann lætur mig fá mál sem mælir frá 5 grömmum upp í 60 gr. Hann telur við hæfi að köttur á þessum aldri fái 40 gr. á dag. Þetta mátti hann fá allt í einu eða skipt í tvennt.

Það er nú þannig með þá ketti sem eru eingöngu á þessu þurrfóðri að þeir fylgjast ekkert með matarlykt í eldhúsi eða matartímum fólks. Þeir virka eins og einhverjir vofukettir annars heims, sem nærast ekki á jarðneskri fæðu. Ég bauð henni smá flís af steiktum fiski og lét það með í matinn hennar. Ekki leist henni á það og taldi víst að nú væri vissara að smakka ekki heldur það sem fyrir var í skálinni. Í fyrstunni fannst mér hún ekki alveg eðlilegur ungur köttur. Svo varð mér ljóst í hverju hún var frábrugðin, hún lék sér aldrei. Það kom með tímanum. Hún fór allt í einu að iðka spretthlaup í stofunni. Þá fannst mér hún vera orðin eðlileg. Svo fór nú húsbóndinn að skemmta henni með því að láta hana elta bréfvöndul í bandi, uppí sófa og niður á gólf á ótrúlegu hraða , hring eftir hring ,svo unun var á að horfa alla þá snerpu er hún sýndi í hreyfingum og skarpri athygli.

Húsbóndinn átti harðfisk upp í skáp og náði í hann til að bæta sér í munni. Kötturinn glápti eftir bitunum. Fósturpabbinn gat nú ekki látið niðursetninginn horfa til augna frekar en Job sem sagði: ,, Hafi ég etið bitann minn einn og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum -nei frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann." (Job 31. 17-18) Hann gefur því kisu að smakka af þessu nammi sínu. Kom þá í ljós að henni þótti harðfiskur lostæti, allra mata bestur.

,,og allir eru vinir þess, sem gjafir gefur" (Ok.19:6.) Uppáþrengja verður engin undantekning frá því. Ég geri ráð fyrir að hann sitji ekki einn að snakkinu framvegis. Hann bauð henni líka upp á lifrarpilsu og það var vel þegið. Nýmjólk þykir henni líka góð. Þetta verður nú allt félagslegra hjá okkur þegar við borðum sama mat, þótt hún fái nú ekki beinlínis að setja sitja til borðs. Þennan mat étur hún líka með miklu meiri ánægju heldur en þurrfóðrið, hvort sem það er útaf því, að hún situr þá ekki ein að snæðingi.

Hún er ógn viðbrigðin og hrædd og skríður hið snarasta lengst inn undir sófa ef ókunnugan ber að garði. Ekki þorir hún heldur út en vill gjarnan setja við þröskuldinn og horfa út um dyrnar út í garð og aðeins borið við að stíga rétt útfyrir en fljót að stökkva inn fyrir ef hún heyrir fótatak nálgast að innan. Hún virðist svo óskaplega hrædd við að lokast úti. Það var í gærkvöldi 14. sept, að við fórum á samkomu. Þegar við komum heim var kisa óttalega hrædd og stygg eins og hún hefði orðið fyrir áfalli. Seinna kom í ljós að það hafði verið barið harkalega á útihurðina eftir að við fórum. Það var ekki til að undrast yfir, því að dyrabjallan á neðri hæðinni er biluð. Þetta var nóg til að kisa hefur líklega lifað upp aftur fyrri hremmingar sínar þegar verið var að ná henni úr fylgsni hennar. Hún var farin að þora að leggja sig í hvaða stól eða sófa sem var en daginn eftir var hún að skríða lengst inn undir sófa eða hluti sem huldu hana alveg.

Mér er nú í mun að hún læri að fara út og búið er að stinga upp beð út á lóðinni svo hún sjái að hún þurfi ekki að afla sér óvinsælda með því að ganga örna sinna á annarra manna lóðum. En það verða líklega ár og dagar þangað til þessi köttur þorir yfirleitt að ganga erinda sinna utan húss.

Flettingar í dag: 536
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 487
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 85555
Samtals gestir: 17784
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 22:38:03

Eldra efni

Tenglar